
Leikarinn og grínistinn Russel Brand hefur verið ákærður fyrir tvær nauðganir og fjölda annarra kynferðisbrota gegn fjórum konum. Brotin eru sögð hafa átt sér stað á milli ársins 1999 og 2005.
Rannsókn á athæfi Brands hófst í september 2023, eftir að The Sunday Times, The Times of London og Channel 4 birtu umfjallanir í samstarfi um ásakanir gegn honum.
Sjálfur gaf hann út yfirlýsingu í dag um að hann hefði aldrei framið nauðgun og „aldrei átt í samskiptum án samþykkis“.
Lögreglan lýsir eftir fleiri frásögnum.
Russel Brand flutti nýverið til Bandaríkjanna og sagði bresk yfirvöld vera að ráðast á sig. Hann hefur gerst yfirlýstur stuðningsmaður Donalds Trump forseta.
Brand varð frægur fyrir uppistand og leik í kvikmyndum eins og Forgetting Sarah Marshall og Get Him to the Greek, auk þess sem hann var kvæntur söngkonunni Katy Perry um hríð.
Hann hefur á síðustu árum orðið róttækari og pólitískari með reglulegar umræður um samsæriskenningar á Youtube-rás sinni, sem hefur sex milljónir áskrifenda.
Komment