Dómur var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag í meiðyrðamáli Elds Smára Kristinssonar gegn RÚV og Bergsteini Sigurðssyni fréttamanni.
Forsaga málsins er sú að Eldur var frambjóðandi Lýðræðisflokksins sem bauð fram í Alþingiskosningum í fyrra og var oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi.
Í þættinum ræddi Bergsteinn við Arnar Þór Jónsson, formann Lýðræðisflokksins, um Eld.
„Tölum einmitt um þjóna og þá sem þið veljið til þjónustu. Oddviti flokksins í Norðausturkjördæmi, Eldur Smári Kristinsson, hann er formaður Samtakanna 22, samtaka sem hafa verið sökuð um að ala á andúð í garð trans fólks, hefur verið fjarlægður af lögreglu úr grunnskóla fyrir að mæta þar í leyfisleysi, og mynda starfsfólk og börn, hann hefur sakað þau sem berjast fyrir réttindum trans fólks um barnaníð, þar á meðal nafngreinda íslenska baráttukonu, hann hefur líka þrástagast um að hún sé karl, farið mjög klúrum og ruddalegum orðum um kynfæri hennar á opinberum vettvangi…“
Eldur var ekki sáttur við þessi ummæli og fór fram á að RÚV greiddi honum miskabætur. Var Eldur ekki fjarlægður af lögreglu úr grunnskólanum heldur tilkynnti skólinn til Reykjavíkurborgar vegna þess að Eldur var á lóð skólans í leyfisleysi og kvartaði borgin til lögreglu í framhaldinu.
Rétturinn komst að þeirri niðurstöðu að rétt væri að sýkna RÚV og Bergstein og er Eldi Smára gert að greiða tæpa milljón í málskostnað.
Í yfirlýsingu sem Eldur birti á samfélagsmiðlum segist hann ætla ráðfæra sig við lögfræðinga sína áður tekin verður ákvörðun um hvort dómnum verði áfrýjað.


Komment