Kristján Andri Stefánsson sendiherra afhenti Felipe VI Spánarkonungi trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands á Spáni og er hann jafnframt fyrsti íslenski sendiherrann sem hefur aðsetur í Madrid höfuðborg Spánar
Kristján Andri Stefánsson sendiherra afhenti Felipe VI Spánarkonungi trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands á Spáni.
Er hann jafnframt fyrsti íslenski sendiherrann sem hefur aðsetur í Madrid höfuðborg Spánar; þjónar hann umdæminu þaðan.
Á fundi sínum með konungi og utanríkisráðherra Spánar var stofnun sendiráðs á Spáni fagnað. Rætt var um leiðir til að efla og styrkja farsæl tengsl Íslands og Spánar enn frekar bæði á sviði viðskipta og menningar.
Alþingi ákvað við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2025 að opnað yrði sendiráð í Madrid á Spáni á þessu ári og var tillagan rökstudd með vísan til þess mikla fjölda Íslendinga er hefur fasta búsetu á Spáni til lengri og skemmri tíma; auk þess sem þangað liggur stríður straumur ferðamanna árið um kring.
Þá hafa viðskipti á milli Íslands og Spánar verið góð fyrir báðar þjóðir og vöruútflutningur frá Íslandi til Spánar hefur aukist jafnt og þétt síðasta áratuginn; sum árin hefur Spánn verið einn stærsti einstaki vöruútflutningsmarkaðurinn eftir því hvað mikið af áli hefur farið til Spánar. Þá er Spánn jafnframt þriðji mikilvægasti útflutningsmarkaður sjávarafurða frá Íslandi, með stöðuga 8% hlutdeild í heildarútflutningsverðmætum.
Saltfiskurinn vegur ansi þungt í útflutningi frá Íslandi; útflutningur á frosnum afurðum og í seinni tíð á laxi hefur sömuleiðis farið vaxandi.
Á undanförnum árum hefur verið umtalsverður jákvæður viðskiptahalli í vöruviðskiptum landanna en í þjónustuviðskiptum snýst dæmið við - enda er Spánn mjög svo vinsæll áfangastaður fyrir íslenska ferðamenn.
Fasteignakaup Íslendinga á Spáni eru umtalsverð og íslensk stjórnvöld hafa átt í farsælu samstarfi við spænsk stjórnvöld á sviði utanríkis- og öryggismála; spænski flugherinn sinnti nýverið loftrýmisgæslu á vegum Atlantshafsbandalagsins á Íslandi.
Svo er ljóst að Spánn hefur skipað sér í fremstu röð þeirra þjóða sem fordæma harðlega hernaðaraðgerðir Ísraels á Gaza; hafa beitt sér fyrir aðgerðum til að setja aukinn þrýsting á Ísrael, meðal annars á vettvangi Evrópusambandsins.
Það er mikill samhljómur með stefnu íslenskra og spænskra stjórnvalda að því varðar mannréttindavernd, loftslagsmál og þróunarsamvinnu.
Ötullega hefur verið unnið að opnun sendiráðsins að undanförnu og sendiherra sem og starfslið sendiráðsins er þegar tekið til starfa; sökum endurbóta á skrifstofuhúsnæði sendiráðsins getur skrifstofan þó ekki opnað fyrr en seinna í haust og nánar verður tilkynnt um það síðar.
Komment