
Í ár rennur hver einasta króna af sölu Góðgerðarpítsu Dominos pizzunnar í Minningarsjóð Bryndísar Klöru. Sala pítsunnar hefst á morgun, mánudaginn 7. apríl og stendur til 10. apríl.
„Það er ómetanlegt að Domino’s láti allt söluandvirðið renna til sjóðsins en ekki einungis ágóðann,“ segir Birgir Karl Óskarsson, faðir Bryndísar Klöru. „Að fá sér Bryndísarpizzu, hefur stóran boðskap því þannig minnumst við Bryndísar Klöru og sameinumst í að gera samfélagið betra í hennar nafni,“ bætir hann við.
Auk góðgerðarpítsurnar verða seldar fallegar, bleikar svuntur með nafni og merki Minningarsjóðsins en bleikur var uppáhaldslitur Bryndísar Klöru. Svunturnar verða seldar í Kringlunni dagana 7. - 13. apríl eða á meðan birgðir endast.
„Við hjá Domino’s erum hluti af samfélaginu og Bryndís Klara var mikils metinn hluti af teyminu okkar,“ segir Ásmundur Atlason, markaðsstjóri Domino´s á Íslandi. „Þess vegna viljum við öll, starfsfólk Domino’s á Íslandi, að Góðgerðarpítsan 2025 verði tileinkuð minningu hennar og sala pítsunnar fari óskipt til minningarsjóðsins,“ segir Ásmundur.
Góðgerðarpítsan 2025 verður í boði á öllum Domino’s stöðum á Íslandi dagana 7. - 10. apríl.
.Minningarsjóður Bryndísar Klöru var stofnaður til að heiðra líf Bryndísar Klöru, með það að markmiði að vernda börn gegn ofbeldi og efla samfélag þar sem samkennd og samvinna eru í forgrunni.
Komment