
Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands ávítti Frosta Logason, ritstjóra Nútímans varðandi frétt miðilsins um dæmdan barnaníðing sem skipt hafði um nafn og hafið kynleiðréttingu. Flestum kvörtunum vegna fréttarinnar var þó vísað frá.
Þann 8. janúar síðastliðinn birtist frétt á Nútímanum þar sem sagt var frá því að Aron Ísak Berry sem hafði hlotið dóm fyrir kynferðisbrot gegn börnum og vörslu barnaníðsefnis, hafi breytt um nafn og hafið kynleiðréttingu og gangi nú undir nafninu Aariah Indica Lindudóttir. Var Aariah ósátt við fréttina og kærði hana til siðanefndar BÍ.
Nýtt nafn kæranda birt
Í úrskurði siðanefndarinnar segir eftirfarandi:
Í kæru málsins er tiltekið að með umfjölluninni hafi nýtt nafn kæranda verið birt, sem hún breytti eftir að hún „ákvað að lifa lífi [sínu] sem transkona.“ Sú uppljóstrun hefði ekki verið samþykkt af henni. Sömu sögu væri að segja af umfjöllun um heilsufar hennar og aðgerðir sem hún hefði undirgengist.
Kærandi bendir á að í hinni kærðu umfjöllun sé ýjað að því að ranglátt sé að hún hafi fengið að hefja kynleiðréttingarmeðferð, þótt hún hafi verið „talin of veik til að fara í fangelsi fyrir 5 árum á þeim tíma þegar [hún] hafi gert alvarleg mistök og verið dæmd til meðferðar.“
Enn fremur tiltekur kærandi í kærunni að í hinni kærðu umfjöllun sé ranglega staðhæft að hún hafi nýverið átt í sambandi við barn. Hið rétta sé að þar hafi verið á ferðinni tiltekinn einstaklingur á fertugsaldri, en umræddur maður og annar einstaklingur hafi einnig átt í samskiptum við Nútímann til að fá hina kærðu umfjöllun leiðrétta eða fjarlægða.
Þar kemur einnig fram að með kæru málsins hafi fylgt afrit af tölvupósti sem umboðsmaður kæranda sendi Frosta degi eftir að hin kærða frétt birtist. Þar hafi verið farið þess á leit að fréttin yrði fjarlægð úr birtingu, en að hún hafi þá þegar valdið kæranda miklum skaða á andlegri heilsu og velferð. Þá hafi pósturinn fjallað einnig um að hin kærða frétt varði mál sem nú sé úrelt og endurspegli ekki hagi kæranda nú. Aukreitis feli umfjöllunin í sér brot á persónuverndarlöggjöf, auk þess að það að setja forsögu kæranda í samhengi við kynleiðréttingarferli hennar sé til þess fallið að ýta undir fórdóma gegn transfólki. Að lokum er fjallað um núverandi astæður og eftirlit með kærasta í tölvupóstinum, sem sæki reglulega tíma hjá fagfólki og tryggt sé að hún hafi engin samskipti við börn.
Sjónarmið hins kærða
Um sjónarmið þess kærða segir meðal annars á vef BÍ:
Í andsvörum frá umboðsmanni kærðu er þess getið að umfjöllun um málið hafi átt sér stað eftir að kærði Frosti fékk ábendingu um málið. Var það mat kærðu að málið ætti erindi við almenning og í þjóðfélagsumræðuna, m.a. sem liður í umræðu um kynleiðréttingar, sem væru „verulega umdeilt mál í samfélaginu“ og færi umræða þess efnis vaxandi. Í kæru sé ekki rökstutt sérstaklega með hvaða hætti kærðu eigi að hafa brotið gegn fyrrgreindum greinum siðareglna BÍ og því ekki annað unnt en að mótmæla því í heild sinni að umfjöllunin brjóti gegn siðareglunum.
Í andsvörum kærðu er þess getið að áður en kærandi var ákærður og síðan dæmdur fyrir brot sitt hafi kærandi vakið athygli opinberlega, m.a. með þátttöku í söngkeppni framhaldsskólanna og seinna meir í söngvakeppni RÚV í aðdraganda Eurovision.
Enn fremur vísar Frosti því á bug að sú staðreynd að kærandi hafi skipt um nafn og hafið kynleiðréttingarferli, leiði til þess að óleyfilegt sé að fjalla um hagi hennar fyrir og eftir nafnabreytingu. Fréttin fjalli um kynferðisbrot gegn börnum, sem alltaf eigi erindi við almenning, og að ekki sé hægt að krefjast þess að umfjöllum um slík mál hætti um leið og dómur fellur í máli viðkomandi.
Þá er þess enn fremur getið í andsvörunum að nafn og kyn séu ekki viðkvæmar persónuupplýsingar sem séu verndaðar af persónuverndarlöggjöf. Þá hafi umfjöllun um „læknifræðilegan bakgrunn“ kæranda hafi aðeins verið vísað í opinberar upplýsingar sem birst höfðu í fjölmiðlum og á opinberum vettvangi.
Aukreitis eigi erindi við almenning er dæmdur kynferðisbrotamaður „skiptir um nafn
og/eða skiptir um kyn.“ Að fjölmörg dæmi séu til um að fjölmiðlar, bæði hérlendis og erlendis, hafi fjallað um nafnbreytingar sakfelldra manna í kjölfar þess að dómur fellur, enda sé málefnið umdeilt.
Að lokum segir um andsvar Frosta eftirfarandi:
Í niðurlagi andsvara kærðu er bent á að með hinni kærðu umfjöllun sé hreyft við því álitamáli „hvort þeir einstaklingar sem að áliti sérfræðinga teljast ekki hafa nægan þroska til að afplána refsingu sína í fangelsi hafi samt sem áður nægan þroska til að fara í óafturkræfa kynleiðréttingu.“ Umræða um slíkt eigi fullt erindi við almenning og í almenna þjóðfélagsumræðu.
Aðeins fallist á eitt brot
Siðanefndin samþykkir það sjónarmið Frosta að hin kærða umfjöllun hafi verið liður í þjóðfélagsumræðu, en bendir á leið á að við slíka umfjöllun skuli vinnubrögð blaðamanns og framsetning upplýsinga vera í samræmi við ákvæði siðareglna BÍ.
Siðanefnd fellst á það sjónarmið kærðu að hin kærða umfjöllun hafi verið liður í
þjóðfélagsumræðu, en bendir á að „við slíka umfjöllun skulu vinnubrögð blaðamanns og framsetning upplýsinga vera í samræmi við ákvæði siðareglna BÍ.“
Siðanefnd BÍ telur að Frosti og Nútíminn hefðu með hinni kærðu frétt, ekki brotið gegn 2, 6. eða 12. grein siðareglna, sem og 7. grein sömu reglna:
Að virtum atvikum máls þessa telur siðanefnd að með hinni kærðu umfjöllun, hafi kærðu ekki brotið gegn 2., 6. eða 12. gr. siðareglna. Er þá til þess að líta að ekkert bendir til þess að blaðamaður hafi hagrætt staðreyndum eða sett fram órökstuddar ásakanir. Þótt ummælin „[slíkt hljóti] þó að teljast stór áfellisdómur yfir kerfinu í heild“ megi telja hálf glæfraleg, er það mat siðanefndar að með því sé vísað til þjóðfélagsumræðu en ekki skoðana kærðu. Enn fremur ber umfjöllunin með sér að kærði Frosti hafi reynt að hafa samband við kæranda við vinnslu umfjöllunarinnar.
Þá er þess gætt í hinni kærðu umfjöllun að geta þess hvaðan ummæli og upplýsingar eru fengin sem vitnað er til. Því er ekki um brot gegn 7. gr. siðareglna að ræða.
Það sem siðanefndin finnur að hinni kærðu umfjöllun Nútímans er það sem snýr að 3. gr. siðareglna sem mælir fyrir um að blaðamaður skuli leiðrétta rangfærslur sé þess þörf en að fyrir liggi að degi eftir birtingu umfjöllunarinnar hafi umboðsmaður kæranda haft samband við Frosta og krafist þess að hún yrði fjarlægð. Rekur kærandi í kæru sinni til nefndarinnar síðan og rökstyður að ranglega sé fullyrt í umfjölluninni að kærandi hafi reynt að setja sig í samband við einstaklinga „undir lögaldri“.
Enn fremur er þess getið að fleiri hafi sett sig í samband við kærðu í sama tilgangi. Siðanefndin segir í niðurstöðu sinni að ekki væri hægt að sjá á gögnum málsins að Frosti hafi svarað beiðni kæranda og að hann hafi ekki fjallað um þennan þátt kærunnar í andsvari sínu.
Siðanefndin komst að þeirri niðurstöðu að kærðu hafi brotið gegn 3. gr. siðareglna BÍ og að mat nefndarinnar sé það að brotið teljist ámælisvert.
Eins og hvert annað hundsbit
Mannlíf heyrði í Frosta og spurði hvað honum fyndist um niðurstöðu siðanefndarinnar.
„Ég tel þennan úrskurð siðanefndarinnar í raun bara rangan. Það er í fyrsta lagi vegna þess að hann er ekki í neinum takti við sjálfa kæruna eða umkvörtunarefnin sem voru reyndar fjölmörg, en þeim var öllum vísað frá af nefndinni,“ segir Frosti í skriflegu svari til Mannlífs. Útskýrir hann málið frekar:
„Þarna var kvartað yfir fréttaflutningi okkar af einstaklingi sem dæmdur hafði verið fyrir kynferðisbrot gegn börnum fyrir þremur árum en hefur síðan þá bæði skipt um nafn og kyn. Öllum umkvörtunarefnum kæranda var í raun vísað frá af siðanefnd enda hafði ég svarað þeim skilmerkilega í greinargerð til nefndarinnar.“
Segir Frosti að niðurstaðan sé að einhverju leiti við hann sjálfan að sakast:
„Það kann hins vegar að vera við mig sjálfan að sakast, að einhverju leyti, að niðurstaðan varð eins og hún varð. Það er nefnilega þannig að í athugarsemdarhluta kærunnar bætir kvartandi því við að haft hafi verið samband við mig og óskað eftir því að ég tæki fréttina út, en að sú ósk hafi alfarið verið hundsuð. Mér láðist að svara þessari athugasemd í greinargerð minni þar sem ég flokkaði hana ekki sem hluta af kærunni.
Staðreyndin er sú að kvartandinn hafði fyrst hringt í mig og óskað eftir því að ég fjarlægði fréttina af vefnum. Ég sagðist ekki geta gert það þar sem við stæðum við fréttina og að hún væri efnislega rétt. Þá sendi kvartandinn mér tölvupóst með sömu ósk og útlistaði í einhverju atriðum á hvaða forsendum hann vildi fá fréttina fjarlægða. Viðbrögð mín við þeim pósti voru að fjarlægja úr fréttinni málsgrein sem höfð var eftir heimildarmanni okkar, sem við reyndar treystum fyllilega, en ákváðum að taka út þar sem hann vildi ekki koma fram undir nafni.“
Segist hann ekki hafa svarað erindinu sérstaklega.
„Hins vegar svaraði ég þessum tölvupósti ekki sérstaklega, og ég sé ekki betur en það sé það sem siðanefnd blaðamannafélagsins úrskurðar mig brotlegan fyrir. Niðurstaðan er þannig byggð á ákveðnum misskilningi að mínu mati en ég get, sem fyrr segir, ekki alfarið kennt nefndinni um það þar sem svör mín til hennar voru hreinlega ekki nægilega greinargóð.
Það er því mín niðurstaða að taka þessu sem hverju öðru hundsbiti og hef ég ákveðið að næst þegar ég fæ svona kæru að þá mun ég eyða tveimur heilum vinnudögum í að svara nefndinni í stað þess að láta einn duga.“
Komment