Umræðan um ESB hefur sennilega ekki verið meira á Íslandi í áratug en einmitt núna og eru margir sem taka þátt í þeirri umræðu á samfélagsmiðlum.
Einn þeirra er Benedikt Jóhannesson, stofnandi Viðreisnar og fyrrverandi fjármálaráðherra, sem rifjar upp gamalt bréf sem Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þáverandi formaður Framsóknarflokksins, sendi kjósendum árið 2009.
„Framsóknarflokkurinn er eini flokkurinn sem hefur markað sér skýra stefnu fyrir aðildarviðræður við Evrópusambandið og skilgreint samningsmarkið þeirra viðræðna. Framsókn hefur sett það sem skilyrði fyrir aðild að fullveldi og óskorað forræði yfir auðlindum þjóðarinnar verði grundvallarkrafa í þeim viðræðum, auk skilyrða sem lúta m.a. að hagsmunum landbúnaðar og sjávarútvegs. Fordæmi eru fyrir slíku í samningum annarra þjóða við Evrópusambandið og því algerlega rangt að halda því fram að þessar kröfur hamli því að af aðildarsamningi geti orðið.“
Sigmundur Davíð sem er nú er formaður Miðflokksins hefur hins vegar engan áhuga á að Íslandi gangi inn í ESB og talar um það reglulega. Í júlí sagði hann í færslu á samfélagsmiðlum að nú stæði til að plata Íslendinga til að ganga í Evrópusambandið.
„Skýrasta dæmið er að nú skal endurvekja það sem ég hef kallað stærstu lygi íslenskra stjórnmála á 21. öld. Það að til sé eitthvað sem heitir að „kíkja í pakkann” og kanna hvað sé í boði með aðildarumsókn að Evrópusambandinu.
Nákvæmlega þetta var reynt þegar sótt var um á sínum tíma. Þá reyndu hins vegar fulltrúar ESB í forundran að útskýra fyrir íslenskum stjórnmálamönnum að það væri ekkert til sem héti samningaviðræður við ESB um hvað væri í boði. Ríki sæki um aðild með það að markmiði að fá inngöngu. Svo taki við viðræður þar sem umsóknarríkið leitast við að útskýra fyrir ESB hvernig það ætli að uppfylla kröfur ESB,“ skrifaði Sigmundur.
Komment