
Sigríður Á. Andersen, þingmaður Miðflokksins og fyrrum dómsmálaráðherra, og Dagbjört Hákonardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar ræddu stöðu hinsegin fólks á Íslandi í gær í Vikulokum.
Þær voru ekki sammála um stöðu Íslands þegar kemur að hinsegin fólki. „Á Íslandi er gott að vera hinsegin, en það er ekki endilega best í heimi. Við skorum ekki hæst í öllum þeim mælikvörðum sem þar gilda um. Lengi má gott bæta,“ sagði Dagbjört en Sigríður spurði í kjölfarið hvar væri betra að vera.

Dagbjört svaraði því að dómaframkvæmd í forsjármálum samkynhneigðra í nágrannalöndum Íslands væri betra og hélt því fram að merki væru um að samkynhneigðir njóti ekki fullra réttinda fyrir dómstólum.
Í kjölfarið fullyrti Sigríður að ekkert land stæði fram Íslandi í þessum málum.
„Mér finnst vont þegar fólk – sérstaklega ekki samkynhneigt fólk – er að tala niður Ísland þegar það kemur að þessum málaflokki. Það er ekki sanngjarnt því að Ísland hefur verið í fararbroddi, íslensk stjórnvöld hafa verið í fararbroddi í baráttu fyrir réttindum samkynhneigðra. Ég tel að Ísland sé best í heimi fyrir þá og ég tel að þessi dagur sé umfram allt góður og nauðsynlegur dagur fyrir gleðina, sem ég held að þurfi að hafa í fyrirrúmi,“ sagði Sigríður að lokum.

Komment