
Aukin pressa er komin á Samtök evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU) um að vísa Ísrael úr Eurovision.
Stjórnarformaður spænska ríkissjónvarpssins, José Pablo López, mun leggja fram ályktun um að víkja Ísrael úr keppni, á stjórnarfundi í lok þessarar viku. Áður hafði ríkissjónvarp Slóveníu krafist þess að Ísrael yrði vikið úr keppninni vegna þess þjóðarmorðs sem ríkið stundaði á Palestínumönnum. Ákveði spænska ríkissjónvarpið að krefjast brottreksturs Ísraels er um stórfrétt að ræða í ljósi þess að Spánn er eitt af fimm aðalþjóðum Eurovision (e. Big Five).
Engin svör bárust frá EBU en í desember birtu samtökin lista yfir þau 38 lönd sem taka þátt í Eurovision þetta árið og þar var Ísrael meðal þjóða.
Palestínuhreyfingin í Finnlandi afhenti svo í dag 10.000 undirskriftir til ríkissjónvarps síns YLE þar sem hvatt er til þess að YLE krefjist þess að Ísrael verði meinuð þátttaka í Eurovision í ár.

Mörður Áslaugarson, stjórnarmaður RÚV, lagði fram tillögu á fundi RÚV fyrir skömmu, um að RÚV leggi fram sömu kröfu til EBU en stjórn RÚV hafnaði tillögunni. Undirskriftarsöfnun er í gangi í þeim tilgangi að þrýsta á RÚV í málinu. Þegar frétt þessi er rituð hafa 4.421 manns skrifað undir.
Komment