
Dómari í Bandaríkjunum vísaði í dag varanlega frá spillingarákærum á hendur Eric Adams, borgarstjóra New York, nokkrum vikum eftir að ríkisstjórn Donalds Trump forseta þrýsti á að stöðva þessa fordæmalausu málsókn.
Í 78 blaðsíðna skjali samþykkti dómari Dale Ho að verða við beiðni dómsmálaráðuneytisins um að vísa ákærunum frá og lokaði einnig á möguleikann á að málið yrði opnað á ný gegn Adams.
Adams, sem einu sinni var talinn upprennandi stjarna í Demókrataflokknum var sakaður um að hafa þegið ólögleg erlend framlög í kosningasjóð sinn og verið hluti af mútusamsæri með tyrkneskum ríkisborgurum og að minnsta kosti einum tyrkneskum embættismanni. Í febrúar reyndi ríkisstjórn Trump að fella niður ákærurnar. Þessi óvenjulega beiðni vakti fjölda mótmæla og leiddi til uppsagna starfsmanna hjá embætti héraðssaksóknara í Manhattan og í Washington.
Adams hefur stöðugt neitað sök og hafnað kröfum um að segja af sér. Hann hefur jafnframt tilkynnt að hann hyggist bjóða sig aftur fram sem borgarstjóri stærstu borgar Bandaríkjanna í kosningum í nóvember.
Dómarinn sagði að hann hefði samþykkt að fella ákærurnar niður ekki vegna röksemda dómsmálaráðuneytisins heldur vegna þess að dómstóllinn „getur ekki þvingað dómsmálaráðuneytið til að ákæra sakborning.“
Dómarinn tók fram að Adams hefði þegar gripið til aðgerða sem borgarstjóri til að styðja innflytjendastefnu Trump, sem gerði rök dómsmálaráðuneytisins um að hann hefði verið hindraður í því með málinu marklaus.
„Allt í þessu máli ber keim af samkomulagi: Að vísa ákærunni frá í skiptum fyrir eftirgjöf í innflytjendamálum,“ skrifaði dómarinn.
Komment