
Gunnar Smári Egilsson, formaður framkvæmdastjórnar Sósíalistaflokks Íslands, hefur tilkynnt flokksmönnum að hömlur hafi verið settar á tjáningu þeirra til að róa umræður á vettvangi flokksmanna, Rauða þræðinum á Facebook.
„Það var samþykkt á fundi framkvæmdastjórnar fyrir nokkrum vikum að hægja á því fólki sem hefur að mörgu leyti lagt undir sig þennan vettvang, sett hér inn marga statusa á dag og kommentað á mínútu fresti. Admin mun því setja þær skorður á fólk að það geti aðeins sett inn einn status á dag og eitt koment á hverri klukkustund. Þetta er regla sem gildir um alla,“ segir Gunnar Smári.
Hann segir að hömlurnar séu tímabundnar en verði hugsanlegar framlengdar.
„Fyrst er fólk settar þessar skorður í viku, en síðan lengur ef þurfa þykir. Þessar reglur eru settar til að kæla aðeins niður hitann sem hér kviknar á þráðum. Hugmyndin hefur alltaf verið að sú, að þetta sé vettvangur fyrir umræðu um pólitík og samfélag. Þá fer ekki vel að fólk sé hrópandi og æst. Það er fráhrindandi fyrir þau sem vilja taka þátt.“
Gunnar Smári hefur verið harðlega gagnrýndur og svarað fyrir sig eftir að formaður ungliðahreyfingar flokksins sagði sig úr kosningastjórn og sakaði formann framkvæmdastjórnar um ólýðræðisleg vinnubrögð og yfirgang. „Ég get ekki lengur starfað innan forystu sem hunsar lýðræðislega gagnrýni, viðheldur óheilbrigðri menningu og refsar þeim sem benda á vandamálin,“ skrifaði hann í bréfi til flokksmanna.
Viðbrögð flokksmanna hafa verið misjöfn. „Mikið rosalega er þetta ólýðræðislegt,“ segir einn flokksmaður. „Svona lítur ógnarstjórn og þöggun út,“ segir annar.
Fundargerð framkvæmdastjórnar hefur ekki verið birt. Engin fundargerð framkvæmdastjórnar hefur verið birt frá 5. október í fyrra.
Komment