
Samband ungra Sjálfstæðismanna mátti selja rússneskan samóvar sem Davíð Oddsson, þáverandi borgarstjóri, fékk að gjöf frá Mikhaíl Gorbatsjov, þáverandi leiðtoga Sovétríkjanna, þegar hann kom til landsins árið 1986. Var Gorbatsjov hérlendis til að hitta Ronald Reagan, þáverandi Bandaríkjaforseta, í Höfða.
Davíð gaf SUS samóvarinn til sölu á uppboði sambandsins á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem fór fram fyrr á árinu. Viktor Pétur Finnsson, formaður Sambands ungra Sjálfstæðismanna, sagði eftir landsfundinn að samóvarinn hafi selst fyrir eina og hálfa milljóna króna.
Ekki voru allir sáttir við uppboðið og skapaðist umræða á samfélagsmiðlum eftir að Egil Helgason vakti athygli á storminum sem myndaðist í kringum Jón Gnarr, þáverandi borgarstjóra, árið 2018 þegar hann fékk Banksy eftirprentun að gjöf. Þá hafi hægri menn sagt að Jón mætti ekki eiga verkið heldur tilheyri það borginni. Því máli lauk þegar Jón Gnarr lét farga verkinu.
Leitað hátt og lágt
Mannlíf sendi fyrirspurn á Reykjavíkurborg til að spyrjast út í eignarréttinn á samóvarnum.
„Ekki verður séð að á þeim tíma er umræddur munur á að hafa verið gefinn hafi verið í gildi sérstök lög er taka til gjafa frá erlendum þjóðhöfðingjum eða öðrum til borgarstjóra eða annarra embættismanna sveitarfélaga,“ sagði Eva Bergþóra Guðbergsdóttir samskiptastjóri Reykjavíkurborgar, í svar til Mannlífs.
„Við ítarlega leit í skjalasafni Ráðhúss, Borgarskjalasafni og hjá Listasafni Reykjavíkur fundust engin gögn er varða umræddan mun eða eignarheimild borgarinnar á honum. Þar sem engin gögn hafa fundist, þrátt fyrir ítarlega leit í skjalasöfnum Reykjavíkurborgar, sem með einhverjum hætti tilgreina umræddan mun eða staðfesta eignarheimild Reykjavíkurborgar að honum verður eðli málsins samkvæmt ekki gerð krafa um að honum verði skilað. Ef upplýsingar um hið gagnstæða koma síðar í ljós mun Reykjavíkurborg endurskoða afstöðu þessa.“
Komment