
Sigríður Eir Zophoníasardóttir, söngkona í hljómsveitinni Eva, vill öryggi fyrir hinsegin fólk alls staðar. Hún deildi reynslu sinni í færslu á Facebook. Sigríður lýsir hvernig hún og unnusta hennar þurfa að vera meðvitaðar um umhverfið sitt þegar þær eru úti á almannafæri. Oft eru þær ekki öruggar ef þær leiðast. „Allt er allt í lagi - verum bara vinkonulegar, við erum báðar með snúð í hárinu, við gætum verið systur,“ skrifar Sigríður um hvernig hún og unnusta hennar þurfa að breyta hegðun sinni í óöruggu umhverfi.
Sigríður lýsir því hvernig stundum geta þær verið hugrakkar og leiðst þrátt fyrir að þær finni að það sé ekki öruggt en stundum þor þær því ekki. „Stundum löbbum við hönd í hönd en sleppum allt í einu báðar. Einhver augu sem ögra, einhver orka sem stingur, eitthvað óáþreifanlegt en samt svo ótrúlega skýrt,“ skrifar Sigríður í færslunni.
„Við höfum kysst í lest.
Við höfum kysst í flugvél.
Við höfum kysst í alls okkar ókunnum borgum, löndum og sveitum.
Við höfum kysst og fundið að það er ekki velkomið, ekki vel séð.
Við höfum kysst og fundið að það er ekki öruggt.
En það er svo miklu betra að kyssa þig þegar við erum öruggar,“ skrifar Sigríður.
Sigríður segist vera heppin því hún hefur mikil forréttindi þrátt fyrir að vera lesbía. „Ég passa vel inn í heterónormatívuna, ég á börn og hús og við erum báðar með nógu kvenlæga kyntjáningu svo hún telst ekki veruleg ógn,“ viðurkennir Sigríður. Þrátt fyrir að tilvist hennar sé nokkuð auðmeltanleg fyrir flesta segist hún upplifa öryggisleysi og ótta mörgum sinnum í mánuði, jafnvel hér á landi. „Óttan um að við sem par gætum skapað einhvern usla eða óþægindi sem gætu komið niður á okkar öryggi í þessum heimi. Að mér sé áætluð gagnkynhneigð og þurfi að koma út úr skápnum í hvívetna, að ég sleppi takinu af hendi konunnar minnar á götu því ég vil ekki lenda í aðkasti,“ skrifar Sigríður. Hún segir að fordómar og niðurlæging út af hinseginleika hennar sé eitthvað sem hún hefur lært að bera.
Sigríður segir söguna hins vegar aðra þegar kemur að barni sínu en hán er kynsegin og passar ekki í hefðbundna kyntjáningu. „Ég get ekki til þess hugsað að hán þurfi að herða sig, verja sig, láta sér vaxa hreðjar eða hvað það er sem hán þarf að gera til þess að komast af á ferðalagi sínu í þessum heimi,“ skrifar Sigríður.
„Ég vil fá að leiðast niður allar heimsins götur án þess að verða hrædd og ég vil að barnið mitt geti valhoppað í gegnum þetta líf í hverri þeirri kyntjáningu, kyni og kynhneigð sem háni þóknast án þess að fólki sjái sig knúið til að hafa eina einustu skoðun á því,“ segir Sigríður í færslu sinni. Hún segist ekki vilja þurfa að vera þakklát fyrir að fólk leyfi þeim að vera. Það ætti að vera sjálfsagt að allt hinsegin fólk sé öruggt alls staðar og alltaf.
Komment