
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins úr Skagafirðinum, leggur dramatískt mat á stöðuna eftir að ríkisstjórn Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins tilkynnti um að veiðigjöld á útgerðir yrðu hækkuð með því að breyta skráningu.
„Mitt landsbyggðar hjarta tók mörg aukaslög í dag,“ segir Vilhjálmur á Facebook og tjáknar brostið hjarta.
„Við höfum á ferð okkar um landið hitt fólk í landsbyggðarsamfélögum og ungt fólk í nýsköpun. Þau eru vægast sagt í sjokki og hrædd um framtíðina.“
Hann segir að veiðigjöldin komi niður á nýsköpun.
„Ekki veit ég hvað landsbyggðin gerði þessari ríkisstjórn og öll nýsköpunarfyritækin sem starfa um land allt í að nýta þekkingu og reynslu okkar grunnatvinnuvegs til að auka lífsgæðin í landinu,“ segir hann. „Ríkisstjórnin hraðaði samþjöppun, hagræðingu og aukinni einsleitni í sjávarútvegi um mörg ár í dag.“
Þá hafi umræðan ein og sér slæm áhrif.
„Bara umræðan og tillögurnar eru þegar farin að hafa slæm áhrif sem hækkun veiðigjalda mun aldrei bæta. “
Með breytingunni hefðu veiðigjöld orðið 10 milljörðum króna hærri í fyrra. Hanna Katrín Friðriksson atvinnuvegaráðherra segir í grein í dag að framlegð útgerðarfélaga færi úr 94 milljörðum í 84 milljarða króna við breytinguna, miðað við stöðuna þá. „Útgerðarfyrirtækin eru því vel aflögufær og gott er að minna á að veiðigjöld eru aðeins innheimt af hagnaði, þ.e. aðeins þegar vel gengur,“ segir hún.
Komment