1
Innlent

Garðabæjarharmleikurinn: Hestamaður lýsir skelfilegu ofbeldi

2
Innlent

Ragnar Þór hæðist að Snorra Mássyni

3
Innlent

Daniel breytti rútu í íbúð og selur hana

4
Innlent

Viggó dæmdur í fimm mánaða fangelsi

5
Innlent

Óvíst með frí Höllu forseta á árinu

6
Innlent

Íslenska lögreglan bíður enn eftir leyfi til að leita Magnúsar í Dómíníska lýðveldinu

7
Innlent

Garðabæjarharmleikurinn: Gæsluvarðhald framlengt yfir dótturinni

8
Innlent

Nýtt hættukort sýnir víðara svæði og nýjar ógnir

9
Innlent

Lögreglan stöðvaði deilur viðskiptavinar við starfsmann búðar í Hafnarfirði

10
Innlent

Líkamsárás í Árbænum

Til baka

Jón Trausti Reynisson

Þegar mesti málsvari jaðarsettra mætti Trump og Jordan Peterson

Sólveig Anna setur óþol gegn woke á dagskrá íslenskrar samfélagsumræðu.

Sólveig Anna Jónsdóttir 2
Sólveig Anna JónsdóttirÖflugasti málsvari valdalausra á Íslandi segir að woke sé „ömurlegt“.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hefur öðrum fremur talað gegn inngrónu óréttlæti í samfélagi okkar. Um helgina sagði hún woke-hugmyndafræði vera ömurlega, en hún er í grunninn sú lífssýn að í samfélaginu sé inngróið óréttlæti gegn ákveðnum hópum. „Vók er ömurlegt,“ sagði Sólveig Anna í samtali við Hallgrím Helgason rithöfund á Samstöðinni. „Þú talar eins og Trump,“ svaraði Hallgrímur, en dró það síðan til baka, en var aftur skotinn niður af fyrrnefndri fyrir að kalla hana „trumpista“.

Komin að Trump

Það er hins vegar staðreynd, sem speglar stærri breytingar, að Sólveig Anna Jónsdóttir er samhliða Trump, Elon Musk og Miðflokknum í úrskurði sínum að woke sé mein. Í niðurstöðum sínum fellur hún sömuleiðis að stöðugri gagnrýni kanadíska sálfræðingsins Jordans Peterson síðustu ár. Sólveig Anna, eins og Peterson, skilgreinir nefnilega woke sem „authoritarian hugmyndafræði“, eða stjórnlyndi, ofríki eða alræði.

Jordan Peterson hefur til að mynda líkt því við sovéska alræðishyggju, þegar lagakröfur voru um að notuð væru tiltekin fornöfn sem passa við það kyn sem fólk skilgreinir sig eftir. Ekki er þar með sagt að Sólveig Anna sé sammála þeim anga, en hún virðist sammála því að woke sé í einhverri mynd óréttmæt valdbeiting.

Munurinn á alræðishyggju og svo eftirfylgni með woke-hugmyndafræði er aðallega tvenns konar. Það er að woke-hugmyndir snúast um að verja og treysta stöðu minnihlutahópa, en ekki að því að jaðarsetja og valdbeita þá. Svo og að woke-hugmyndafræðinni er almennt framfylgt af óformlegu og dreifðu valdi, til dæmis með orðræðu fólks, þó dæmi séu um lagakröfur, eins og kynjakvóta og viðurkenningu fleiri en tveggja kynja.

Skömm sem stjórntæki

Óþol Sólveigar Önnu fyrir woke snýr hins vegar að því að woke sé notað til að jaðarsetja fólk fyrir tjáningu.

Ragnar Kjartansson listamaður varaði við mistökum vinstri fólks að beita skömm sem stjórntæki, í viðtali við Menningarblað Heimildarinnar í febrúar. „Við vinstri menn höfum notað skömmina mjög mikið til að stjórna heiminum eins og við viljum hafa hann. Það er þokkalega að springa í andlitið á okkur. Ég sá áhugavert viðtal við unga ameríska konu sem kaus Trump því hún vill geta sagt: „feitt“ og „vangefið“,“ sagði hann.

Ein aðferðin er að stimpla fólk, til dæmis fasista, nasista, karlrembur og svo framvegis. Fyrir þessu er löng hefð, til hægri og vinstri. Sjálfstæðiflokkurinn beitti stimplun sem áróðurstæki á langri valdatíð sinni, meðal annars með því að úrskurða tiltekna blaða- og fréttamenn „vinstrimenn“ eða „Baugspenna“, til að afmá sjálfstæði þeirra, gera þá ótrúverðuga og draga þá í dilka. Þó getur verið staðreynd að blaðamaður sé hluti af stjórnmálaflokki og -baráttu, ef hann er það. Það getur líka verið að einstaklingar falli með athæfi sínu undir skilgreiningu á karlrembu.

Fáir hafa gengið harðar fram en Sólveig Anna í að stimpla og afgreiða einstaklinga fyrir að vera til dæmis hluti af einhverri elítu eða vondum málstað, með réttu eða röngu, meðal annars kallað fólk „fyrirlitlegt“, sem er ekki beint bót á íslenskri umræðuhefð. Og núna er Hallgrímur Helgason, samkvæmt hennar lýsingu, „einhver merkilegur íslenskur rithöfundur“ að kalla hana „Trömpista“ og saka hana um „hugsanaglæp“, auk þess að kalla hana „mannhatara“ af því að hann sagði: „Veljum alltaf mannúð gegn mannhatri!“.

„Ég trúi ekki að ég sé að hlusta á Sólveigu Önnu tala gegn vók,“ hafði hann sagt í þættinum. „Þú talar eins og Trump“. Þar með er Sólveig Anna ósátt við að vera stimpluð. „Það er líka vandinn með íslenska umræðuhefð, að um leið og manneskja segir eitthvað sem manneskjan við hliðina á henni er ósammála, þá er hún ásökuð um að vera trumpisti,“ sagði Sólveig Anna.

„Um leið og manneskja segir eitthvað sem manneskjan við hliðina á henni er ósammála, þá er hún ásökuð um að vera trumpisti“
Sólveig Anna Jónsdóttir um orð Hallgríms Helgasonar

Hallgrímur vísaði hins vegar ekki í eðli Sólveigar Önnu, heldur í orðræðu hennar.

Það má tengja þetta við „reductio ad hitlerum“, sem er áróðursbragð að tengja orð fólks við Adolf Hitler. En stundum er það einfaldlega satt. Þegar kemur að woke vill til að Sólveig Anna er á afgerandi hátt sammála Donald Trump um að woke sé óæskilegt, þó ástæðurnar séu aðrar.

Ein af rökum Sólveigar Önnu gegn „woke“ er að hugmyndafræðin hafi hrakið fólk til þess að styðja Donald Trump. „Vók er eitt af því sem hefur ýtt latínóum, svörtum og verkafólki frá Demókrötum og yfir til einstaklings sem þúsar og röflar, af því það nennir ekki lengur að láta segja sér fyrir verkum,“ sagði hún.

Að láta segja sér fyrir verkum túlkar Hallgrímur hins vegar sem „að vera næs við fólk“.

Innra og ytra vald

Segja má að woke hafi verið sagt skaðlegt af tveimur grunnástæðum: a) Ósanngjarnar ásakanir og ábyrgð tiltekinna einstaklinga, oft vegna meintrar samsektar með hóp vegna óbreytanlegra einkenna, eins og húðlitar, kyns og fleira. b) Aflétting ábyrgðar og valdeflingar af einstaklingnum sem skilgreina sig í þolendastöðu í samfélaginu.

Að hluta er þetta sama tvíhyggja og sker sig í gegnum heimspeki og stjórnmálaheimspeki, að mörk hins frjálsa vilja - og þar af leiðandi ábyrgðar - eru misjafnlega staðsett. Í sálfræðinni er sýnin á innra stjórnvald og ytra, internal locus of control andspænis external locus of control. Fólkið sem lítur á sig sem leiksoppa ytri aðstæðna, í stað þess að fókusera á það sem það getur gert, farnast verr heldur en þeir sem líta á sig sem áhrifavalda og gerendur í eigin lífi.

„Ef þú mætir vandamálum í lífinu eða mótlæti, þá er það hluti af lífinu og þú verður að yfirstíga það, en þú getur ekki látið hugfallast og sagt heyrðu það er eitthvað kúgunarkerfi hérna sem verður að leysa áður en ég tek ábyrgð á mínu lífi,“ sagði Snorri Másson, þingmaður Miðflokksins, nýlega í viðtali við Vísi um gagnrýni kynjafræðings á hann fyrir að „.spúa hatri og trumpísku yfir heimsbyggðina“.

Bæði getur hins vegar verið satt samtímis, að fólk hafi frjálsan vilja og sé í tiltekinni forréttinda- eða þolendastöðu gagnvart einhverju. En án ábyrgðar er frjáls vilji illmögulegur í samfélagi.

Aðför að innflytjendum og trans fólki

„Landið okkar verður ekki lengur woke,“ sagði Donald Trump í ræðu fyrir bandaríska þinginu í byrjun mars.

Í dag er trans kona frá Bandaríkjunum að bíða brottflutnings frá Íslandi vegna þess að ekki var fallist á að henni væri hætta búin í heimalandinu. Hún vildi láta reyna á að lifa við öryggi á Íslandi, sem telst verulega woke land.

Á sama tíma og Sólveig Anna og setja á dagskrá samfélagsins óþol fyrir woke, eru hrollvekjandi atburðir að eiga sér stað í Bandaríkjunum undir merkjum anti-woke, eða andvakningar.

Með valdsækni og stjórnlyndi forseta Bandaríkjanna er kerfisbundið verið að niðurlægja, valdbeita og jaðarsetja innflytjendur og trans fólk.

Forseti Bandaríkjanna birtir reglulega myndbönd af hlekkjuðu, brúnu fólki, sem verið er að flytja úr landi eftir að hafa verið handtekið fyrir glæpi eða hugsanlega aðild að gengjum. Hann lætur handtaka og flytja fólk í varðhald fyrir að mótmæla drápum á Palestínumönnum, sem er augljós hluti af þjóðernishreinsunum.

Það væri galið að beintengja Sólveigu Önnu við stjórnlyndi anti-woke valdhafa, enda hefur hún tekið afgerandi afstöðu gegn öllu sem tengist framferði Ísraels í Palestínu. En um leið er kannski galið að nálgun hennar á misjafnlega langt gengna réttindabaráttu jaðarsetts fólks sé að woke sé „ömurlegt“.

Ef woke er „authoritarian“ eða stjórnlynd hugmyndafræði, hvað er þá anti-woke hugmyndafræðin, sem snýst um að beita samþjöppuðu valdi ríkisins til þess að stimpla og afmá þessa hópa, annað en réttlætanleg í því samhengi?

Stóru málin í dag

Það er ekki útilokað, og ekki einu sinni mjög ólíklegt, að við stöndum á krossgötum í mannkynssögunni, sem eru svipaðar þeim sem lágu á fjórða áratug síðustu aldar. Með valdsækna valdhafa sem hóta öðrum og niðurlægja opinberlega jaðarsetta hópa.

Ef hugmyndin er að það sé taktískt heimskulegt af vinstra fólki að styðja woke, vegna óvinsælda þess eftir að fólk upplifði að woke snerist um að fylla fólk skömm, er spurning hversu taktíkst það er að hefja baráttu gegn woke samhliða nýhöfnum ofsóknum gegn minnihlutahópum.

Orðræðan veitir leyfi. Formaður Eflingar, og einstaklingurinn sem gegnir stöðu formanns, hefur áhrif og ábyrgð, ofan á gefið skoðanafrelsi sitt.

Málsvari jaðarsettra

Ástæðan fyrir því að Hallgrímur Helgason varð undrandi við að heyra Sólveigu Önnu lýsa woke sem „ömurlegu“ er líklega sú að Sólveig Anna er öflugasti og þekktasti málsvari valdalausra og efnahagslega jaðarsettra á Íslandi, á þessari öld.

Með woke-bylgjunni tóku minnihlutahópar sér vald til að skilgreina stöðu sína. Um leið varð oft til gerandi og einhver sekt, samhliða vakningu. Í tilfelli woke byggir andsvarið og óþolið að miklu leyti á því að einstaklingar skilgreini sig sem þolendur annarra einstaklinga, byggt á sögulegri þróun eða uppbyggingu samfélagsins.

Það er hins vegar eitt af grundvallaratriðunum í stéttabaráttu Sólveigu Önnu og Eflingar, að hópur þeirra best settu beiti valdi sínu til þess að styrkja stöðu sína gagnvart þeim verr settu, með kerfisbundnum hætti til að halda þeim niðri.

Woke er grundvölluð að einhverju leyti á marxískri hugmyndafræði, á þeirri efnishyggju að einhver valdahópur hafi áhrif á annan. Meðal annars er líklega óumdeilt að meirihluti og tíðarandi skilgreini hópa og jaðarsetji þá stundum, án þess að þessir hópar geti haft áhrif á.

Í dag má horfa á niðurlægjandi myndbönd frá valdamesta fólki heims af fátæku fólki í hlekkjum og heyra sögur af trans fólki sem er hrakið burt og ofsótt fyrir að vera það sjálft. Það er ömurlegt og það er raunveruleg stjórnlynd valdbeiting.


Komment


Diljá3
Myndir
Fólk

Diljá sælleg og sæt í sólinni á Spáni

Hafnarfjörður
Innlent

Lögreglan stöðvaði deilur viðskiptavinar við starfsmann búðar í Hafnarfirði

Garðabær
Innlent

Garðabæjarharmleikurinn: Gæsluvarðhald framlengt yfir dótturinni

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir dómsmálaráðherra
Pólitík

Ríkið heldur áfram að leigja þyrlur fyrir Landhelgisgæsluna

AFP__20250219__dpa-pa_250219-99-966009_dpai__v1__HighRes__GazaDiscussionEventOrganiz
Heimur

„Hvað þarf til svo að aðrir blaðamenn rísi upp gegn fjöldamorðum á starfsfélögum sínum?“

Snorri Másson
Innlent

Ragnar Þór hæðist að Snorra Mássyni

Leqembi
Heimur

ESB leyfir sölu á mögulega byltingarkenndu Alzheimer-lyfi

concertsagainstborders_ig_post
Menning

No Borders hrinda af stað tónleikaröð