Ísrael er á lista yfir efstu keppendur í veðbönkum.
Eurovision er stærsta hæfileikakeppni heims, með framlög frá 37 þjóðum, en eitt land virðist reglulega ráða ríkjum í umræðunni og á verðlaunapallinum: Svíþjóð.
Mánuður er þar til úrslitin fara fram í Basel í Sviss 17. maí og allt getur gerst.
Svíþjóð, sem hefur þegar unnið þessa glæsilegu glamúrhátíð sjö sinnum – jafn oft og Írland – er enn og aftur talin sigurstranglegust.
Veðbankar spá Svíþjóð 29 prósenta sigurlíkum, þar á eftir kemur Austurríki með 19 prósent, Frakkland með 10 prósent og Ísrael með sex prósent.
Ísland er í þriðja neðsta sæti veðbanka sem stendur með framlag VÆB, Róa. Því virðist þungur róður framundan.
Hér er yfirlit yfir atriðin sem tróna á toppnum:
Svíþjóð: Finnskt sánulag
Í ár er atriðið sem keppir fyrir Svíþjóð í Eurovision í raun grínþríeyki þungbúinna Finna, sem er frábrugðið þeim fáguðu og glitrandi sýningum sem Svíþjóð færir Evrópu vanalega.
Þrír karlmenn úr sænskumælandi samfélagi Finnlands sem skipa KAJ – Kevin, Axel og Jakob – stefna að því að vinna áttunda sigurinn fyrir Svíþjóð, með sérstæðum lofsöng til heiðurs sánugleðinnar.
„Bara bada bastu“ (Farðu bara í sánu), með fyndnu og grípandi viðlagi, er sungið á finnskublandaðri sænsku við undirleik harmonikkunnar.
Á sviðinu klæðast þremenningarnir jakkafötum sem líkja eftir sánu, umkringdir dönsurum í handklæðum og ullarhúfum, vopnaðir birkihrísluknippum sem saunaunnendur nota til að örva blóðflæðið.
„Svíþjóð hefur vanið okkur á mjög vel framleidd, næstum glitrandi atriði,“ sagði Fabien Randanne, blaðamaður hjá 20 Minutes og Eurovision sérfræðingur, við AFP.
„Í dag virðist almenningur vera opnari fyrir hrjúfum brúnum, frumleika og sérvisku.“
Eftirminnilegasti Eurovision-sigur Svíþjóðar var líklega þegar popphljómsveitin ABBA skaust upp á stjörnuhimininn með sigurlaginu Waterloo árið 1974.
Síðast vann Svíþjóð árið 2023, með hefðbundnara popplagi, Tattoo, með Loreen, sem einnig vann keppnina árið 2012.
Austurríki: Með vaxandi raddstyrk
Wasted Love, sungið af austurrísk-filippeyska kontratenórnum Johannes Pietsch, þekktum sem JJ, blandar saman poppi og lýrískum pörtum í vaxandi styrk sem renna út í teknóhljóma.
Söngvarinn, sem er 23 ára gamall, ólst upp í Dúbaí áður en hann uppgötvaði klassíska tónlist í Vínarborg, þar sem hann er nú að slípa hæfileika sína á milli söngvakeppna og smáhlutverka í óperunni.
Í Eurovision-laginu sínu, sem fjallar um reynslu af óendurgoldinni ást, sveiflast hann frá hátóna sópran yfir í blöndu af lýrík og ballöðum, áður en hann endar með teknóáhrifum.
Falsettóröddin minnir á Þjóðverjann Klaus Nomi og vísar til klassíska tónlistararfs Austurríkis.
Óperuáhrifin og blöndun tónlistarstefna í laginu hans hafa einnig verið borin saman við The Code – sigurlag svissneska kynsegin söngvarans Nemo í Eurovision 2024 í Malmö, Svíþjóð, sem ávann Sviss réttinn til að halda keppnina í ár.
JJ, sem sækir einnig innblástur í stíl Mariah Carey og Önnu Netrebko – uppáhaldslistamanna sinna – vonast til að tryggja Austurríki þriðja Eurovision sigurinn, en landið vann síðast með atriði skeggjaða draglistamannsins Conchitu Wurst árið 2014.
Frakkland: Loksins sigur?
Söng- og leikkonan 28 ára gamla, Louane, sem er vel þekkt í Frakklandi, hefur kveikt von um að landið hennar gæti loksins unnið Eurovision í fyrsta sinn í næstum hálfa öld.
Louane, sem heitir réttu nafni Anne Peichert, sló í gegn í Frakklandi árið 2013 þegar hún tók þátt í sjónvarpsþættinum The Voice.
Ballaða hennar, „Maman“, tileinkuð móður hennar sem lést úr krabbameini árið 2014, inniheldur meðal annars textann: „Að lokum, sérðu, ég byggði líf mitt ... Ég er orðin fullorðin. Frá þér hef ég haldið öllu sem gerir mig að þeirri sem ég er.“
Frakkland hefur þegar fimm Eurovision sigra í farteskinu, en sá síðasti var fyrir tæpum fimm áratugum, árið 1977.
Marie Myriam, sem vann það ár með laginu „L'oiseau et l'enfant“, eða „Fuglinn og barnið“, sagði að hún vonaðist til að val ársins gæti loksins bundið enda á taphrinuna.
„Ég vil trúa því að Frakkland muni loksins fagna sigri í gegnum rödd og frammistöðu Louane, undir augnaráði fegurstu stjörnunnar, hennar stjörnu,“ sagði hún við AFP.
Ísrael: Út úr myrkrinu
Yuval Raphael, sem lifði af banvæna árás Hamas þann 7. október 2023, verður fulltrúi Ísraels í Eurovision keppninni í ár.
Þegar vígamenn Hamas drápu yfir 370 manns á Nova tónlistarhátíðinni, lifði 24 ára Raphael af með því að fela sig undir hrúgu af líkum inni í loftvarnarbyrgi við veginn.
Raphael byrjaði ekki að syngja að atvinnu fyrr en eftir árásina, sem var hans leið til að takast á við áfallið.
Hún var valin til að vera fulltrúi Ísraels eftir að hafa unnið raunveruleikaþáttakeppnina „Hakochav Haba“ (Rísandi stjarna) með kraftmikilli ballöðuútgáfu af „Dancing Queen“ eftir ABBA.
Í Eurovision mun hún flytja kraftballöðuna „New Day Will Rise“, með texta á ensku, hebresku og frönsku. Lagið fjallar um að lifa af eftir harmleik. Ekkert er þó þar sungið um yfirstandandi harmleik Palestínumanna á Gaza og Vesturbakkanum.
Í fyrra, þegar reiði ríkti vegna stríðs Ísraels á Gaza, stóð keppandi Ísraels, Eden Golan, frammi fyrir hótunum og fjöldamótmælum á Eurovision keppninni sem haldin var í Svíþjóð.
Einnig hafa verið uppi kröfur í ár um að Ísrael verði bannað að taka þátt í Eurovision.
En Evrópska útvarpssambandsfélagið, sem hefur umsjón með keppninni og sem ríkisútvarp Ísraels er aðili að, hefur tekið fyrir að útiloka Ísrael úr keppninni.
Ísrael, sem hefur tekið þátt í keppninni síðan 1973, hefur unnið fjórum sinnum, síðast með flutningi Nettu Barzilai á „Toy“ árið 2018.
Komment