
Þorvarður Alfonsson hagfræðingur er fallinn frá. Hann var 94 ára gamall en mbl.is greindi frá andláti hans.
Þorvarður fæddist í Hnífsdal árið 1931 og ólst hann þar upp. Hann lauk stúdentsprófi frá Verzlunarskóla Íslands árið 1953 og Diplom Volkswirt í þjóðhagfræði frá Háskólanum í Kiel í Þýskalandi árið 1959.
Eftir námið hóf hann störf hjá Seðlabanka Íslands og fór þaðan til Félags íslenskra iðnrekenda. Fyrst sem skrifstofustjóri og síðar framkvæmdastjóri. Lengst af starfaði hann sem framkvæmdastjóri Iðnþróunarsjóðs en það gerði hann frá 1970 til 1997 en tók sér þó leyfi frá 1974 til 1978 til að vera aðstoðarmaður Gunnars Thoroddsen, þáverandi iðnaðar- og félagsmálaráðherra.
Þorvarði var umhugað um samskipti Íslands og Þýskalands og fékk verðlaun þess efnis árið 1989 frá Þýskalandi.
Þorvarður lætur eftir sig þrjú börn.
Komment