
Bylgja óánægju hefur risið eftir Silfrið á RÚV í gærkvöldi. Þar valdi Sigríður Hagalín Björnsdóttir, fréttakona RÚV, álitsgjafa í settið til að ræða mál Ásthildar Lóu Þórsdóttur og þátt RÚV í því. Nánar tiltekið var rætt hvort of langt hefði verið gengið í fyrstu frétt Sunnu Karenar Sigþórsdóttur verðlaunafréttakonu um málið með fullyrðingum og tilvísunum í brot á lögum sem stóðust illa nánari skoðun.
Í settið valdi starfsmaður RÚV annan starfsmann RÚV. En sömuleiðis fékk þar sæti Ólöf Skaftadóttir, hlaðvarpsstýra og almannatengill. Bæði vörðu fréttaflutning RÚV, jafnvel svo að aðrir til kallaðir áttu erfitt með að komast að.
Ekki kom þar fram að Ólöf er vinkona og fyrrverandi samstarfskona Sunnu Karenar, sem vann fréttina. Þær voru meðal annars meðritstjórar á Fréttablaðinu 2018. Þannig má til dæmis sjá mynd af þeim á mbl.is nýlega þar sem armur Ólafar er utan um þá fyrrnefndu í framboðsgleði Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, sem er dóttir stjórnarformanns útgáfufélags Morgunblaðsins. Sú fékk einmitt sendan tölvupóst frá konunni sem tilkynnti forsætisráðherra um ástarmál Ásthildar Lóu til að koma henni úr embætti. Sunna var þó í boðinu sem fréttakona og Áslaug hefur fullyrt að hún hafi ekki brugðist við ábendingunni um pólitíska andstæðinginn.
Landið er lítið og þræðirnir margir og úr þeim hafa spunnist samsæriskenningar um að það hafi þótt henta ágætlega fyrir málstaðinn að þessi nýjasta frétt um fulltrúa Flokks fólksins kæmi úr trúverðugri átt frekar en að vera hluti af langri fréttaröð Morgunblaðsins um Flokk fólksins.
Komment