
Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur svipt hulunni af stórum áformum sínum um tolla á viðskiptaríki Bandaríkjanna. Hann kynnti 20% tolla á varning frá Evrópusambandinu og 34% tolla á Kínverskar vörur. Þetta mun vera til viðbótar við 10% grunntolla sem öll lönd þurfa að þola, þar á meðal Ísland.
„Þeir svindla á okkur,“ sagði Trump um Evrópusambandið. Hann sagði að viðskiptahalli Bandaríkjanna væri neyðarástand. „Við sættum okkur ekki lengur við þetta,“ sagði hann.
Meira að segja Bretland þarf að þola 10% tolla, þrátt fyrir að kaupa meira af Bandaríkjunum en öfugt.
Trump minntist ekki á Ísland á blaðamannafundinum, en svo virðist sem Íslendingar þurfi að greiða 10% toll.
Þá er tollur á Japan 24%, tollur á Indland 26%.
Tollarnir taka gildi 5. og 9. apríl.
Bandaríkjadalur féll um 1% gagnvart evru í dag. Trump sagði „bandaríska gullöld“ framundan. Hagfræðingar hafa hins vegar varað við því að tollum verði einfaldlega velt út í verðlagið, sem hækkar vöruverð og þar með verðbólguna. Veðmál hans er að „störf og framleiðsla mun flæða inn í landið“.
Komment