
Alls gista sex aðilar í fangageymslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu eftir nóttina. Mikið var um heimilisófrið, eins og það er kallað í dagbók lögreglunnar.
Tveir voru handteknir fyrir þjófnað úr verslun í Múlunum í Reykjavík. Annar í sama hverfi var handtekinn grunaður um sölu fíkniefna og fleiri brot. Var hann vistaður í fangaklefa.
Sótdrukkinn aðili var handtekinn í miðborg Reykjavíkur fyrir að fara ekki að fyrirmælum lögreglu og segja ekki til nafns. Gistir hann nú fangageymslur. Þá var unglingur handtekinn í miðborginni fyrir að hrækja á lögreglumann. Fór hann heim í fylgd forráðamanns að viðræðum loknum. Einnig voru tveir unglingar handteknir fyrir slagsmál og fíkniefnamisferli.
Í Hafnarfirði barst tilkynning um heimilisófrið og var aðili vistaður í fangaklefa vegna málsins. Þá var annar látinn gista í fangaklefa eftir heimilisófrið í Garðabæ. Fram kemur einnig í dagbókinni að tilkynning hafi borist um mikinn hávaða í fjölbýli í Garðabæ en í ljós kom að um var að ræða „eðlilegar heimiliserjur“.
Í Kópavogi var einn handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefa og fíkniefnamisferli. Eftir skýrslatöku var hann látinn laus.
Enn ein tilkynningin barst um heimilisófrið en í þetta skipti var það í Breiðholtinu. Gerandi í málinu var farinn af vettvangi þegar lögreglan mætti á vettvang en fannst stuttu síðar og var látinn gista fangageymslu.
Enn og aftur barst tilkynning um hávaða í fjölbýli, en ekki fylgdi sögunni hvar á höfuðborgarsvæðinu fjölbýlið var en lögreglan sem sinnir Kópavogi og Breiðholti fékk tilkynninguna. Aftur orðar lögreglan það sem svo að í ljós hafi komið að hávaðinn hafi verið sökum „eðlilegra heimiliserja.“
Komment