
Fimm aðilar gista fangageymslur á höfuðborgarsvæðinu eftir gærkvöldið og nóttina en alls voru skráð 89 verkefni í kerfi lögreglunnar. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar. Hér fyrir neðan má sjá nokkur dæmi.
Lögreglan sem sinnir verkefnum í Vesturbænum, miðborginni, Hlíðunum, Laugardalnum, Háaleitinu og á Seltjarnarnesi, sinnti fjórum útköllum á þessu tímabili þar sem um var að ræða þjófnað í verslunum.
Eftirlit var haft með veitinga- og skemmtistöðum í miðborginni en allir staðir sem heimsóttir voru reyndust í lagi.
Tveir voru handteknir og vistaðir í fangageymslu eftir líkamsárás í miðborginni en lögreglan sinnti einnig þó nokkrum tilkynningum um samkvæmishávaða í miðborginni og í Laugardalnum.
Í Hafnarfirði barst síðan tilkynning um veiðimenn í vanda en sá sem tilkynnti hafði áhyggjur af því að það væri búið að flæða að þeim. Veiðimennirnir höfðu hins vegar engar áhyggjur af þessu og þáðu ekki aðstoð.
Í Kópavogi var einn handtekinn fyrir að fara ekki eftir fyrirmælum lögreglu en hann var þó nokkuð slompaður vegna áfengisdrykkju. Var hann látinn laus eftir viðræður á lögreglustöðinni.
Þá reyndi ökumaður torfæruhjóls að stinga lögreglu af í Kópavogi en lögreglu tókst að hafa hendur í hári hans.
Lögreglan sem annast verkefni í Hafnarfirði og Garðabæ handtók ökumann vegna gruns um ölvunarakstur. Var hann sviptur ökuréttindum og málið afgreitt á lögreglustöð.
.
Komment