
Búið er að afgreiða frumvarp dómsmálaráðherra um breytingar á útlendingalögum út úr ríkisstjórn og verður nú lagt fram á Alþingi. Verði það samþykkt, verður mögulegt að afturkalla alþjóðlega vernd þeirra sem brjóta alvarlega af sér. Kemur þetta fram í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu.
Fram kemur í tilkynningunni að frumvarpið, sem nú verður lagt fyrir Alþingi, sé í samræmi um stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að gæta samræmis við reglur nágrannaríkja og Evrópusambandsins á sviði útlendingamála og að heimilt verði að afturkalla alþjóðlega vernd og brottvísa þeim einstaklingum sem fremja alvarleg afbrot eða ógna öryggi ríkisisins.
„Ég hef talað skýrt í þessu máli og legg nú til að heimilt verði að afturkalla alþjóðlega vernd ef gildar ástæður eru til að álíta viðkomandi hættulegan öryggi ríkisins eða hann hefur hlotið dóm fyrir sérstaklega alvarlegt afbrot og er af þeim sökum hættulegur samfélaginu,“ er haft eftir Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur, dómsmálaráðherra.
Fella niður sjálfkrafa dvalarleyfi vegna tafa
Í tilkynningunni segir einnig að aldrei hafi jafn margir sótt um alþjóðlega vernd hér á landi árin 2022 - 2024 og að það hafi valdið miklu álagi á innviði. Gríðarlegur kostnaður hefur fylgt þessu fyrir íslenska ríkið að því er fram kemur í tilkynningunni en um 38 milljarðar króna hafa runnið í þennan málaflokk á þessum árum. Fjöldi umsækjenda og álag hafa einnig haft mikil áhrif á málsmeðferðartíma en meðal breytinga í frumvarpinu er að fellt verði niður ákvæði í lögum sem heimilar veitingu dvalarleyfis vegna tafa og mannúðarsjónarmiða hafi útlendingur ekki fengið niðurstöðu í máli sínu á stjórnsýslustigi innan lögbundinna takmarkanna, eftir að hann sótti um alþjóðlega vernd.
Þá segir í tilkynningunni að Íslands sé eina landið í Everópu sem er með þessa reglu um sjálfkrafa dvalarleyfa vegna tafa og því ætli dómsmalaráðherra að afnema regluna. Áfram fái þó allir umsækjendur efnislega niðurstöðu í sín mál.
„Með þessu erum við að samræma reglur um útlendinga við nágrannaríki okkar og afnema séríslenskar reglur“ segir dómsmálaráðherra. „Áskoranir hafa verið mjög miklar og við þurfum að ná betri tökum á þessu. Það er alveg deginum ljósara. Fólk sem leitar hingað eru ekki óvinir okkar heldur manneskjur í leit að betra lífi. Hins vegar verðum við að hafa sambærilegar reglur og nágrannaríki okkar og tryggja að við ráðum betur við þennan málaflokk. Með betri samræmingu mun kerfið vera skýrara og virka betur fyrir þau sem þurfa raunverulega á því að halda. Í leiðinni munum við spara milljarða sem verður m.a. hægt að nota til að efla löggæslu og byggja nýtt fangelsi. Þá þurfum við líka að huga betur að móttökukerfinu okkar og vinna að því að börn sem flytjast hingað hafi jöfn tækifæri á við íslensk börn.“
Komment