Marcial Gomez, þjónn á Svörtu fjöru í Reynisfjöru, lýsir hörmulegum aðstæðum í kringum andlát þýskrar stelpu sem lést í fjörunni þann 2. ágúst en viðtalið við hann er hluti af ítarlegri úttekt Heimildarinnar á Reynisfjöru.
„Fólk deyr á hverjum degi en þegar þú sérð það með eigin augum breytir það miklu,“ sagði Marcial Gomez við Heimildina en þetta var sjötta banaslysið í Reynisfjöru síðasta áratuginn.
„Við vorum að vinna en síðan kom kona til okkar og sagði að einhver væri í sjónum. Við fórum niður í fjöruna og sáum föðurinn reyna að vaða ofan í sjóinn og þurftum að halda honum,“ sagði þjóninn um málið. „Við reyndum að hjálpa föðurnum og reyndum að kasta björgunarhring út í sjóinn. En í ölduganginum gekk það ekki. Það er bara hægt að kasta honum tíu metra þannig við gátum ekkert gert.“
Þá segir hann að sumir af þeim sem voru á staðnum hafi tekið upp síma og tekið atburðarrásina upp á myndband. „Það sem truflar mig er að nú eru TikTok-myndbönd,“ en myndböndin hafa farið í mikla dreifingu.
„Það sem gerðist um daginn er kraftaverk umfram harmleikur, því að hafið tók líka föðurinn og stóru systurina. Við erum heppin að tvö af þremur lifðu af,“ sagði Marcial en tekur fram að þetta hafi verið mikið áfall.
Komment