Þriðjudagur 14. janúar, 2025
8.8 C
Reykjavik

Björn Steinar sýnir á Design TO

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Vöruhönnuðurinn Björn Steinar Blumenstein verður með verk til sýnis á hinni virtu árlegu hönnunarsýningu Design TO sem fer fram í Toronto vikuna 17. til 26. janúar. Sýningin, sem samanstendur af alls kyns spennandi viðburðum, er sú stærsta sinnar tegundar í Kanada.

Verk úr Skógarnytja línunni.

„Það er virkilega spennandi að fá að taka þátt á DesignTo og fá tækifæri til að vera fulltrúi íslenskrar hönnunar á alþjóðlegri hátið. Á sýningunni mun ég sýna ný verk úr Skógarnytja línunni og hlakka til að sjá hvernig viðtökurnar verða í mjög ólíku hönnunar landslagi,“ segir hann í samtali við Mannlíf.

Björn Steinar kemur til með að taka þátt í samsýningu á Design TO sem ber yfirskriftina Future Retrospectives. Eins og fyrr segir verður hann þar með til sýnis verk úr línunni Skógarnytjar, sem dregur dám af fyrri verkum hans sem miða oft að því að draga athygli að hlutum sem mætti endurhugsa eða miða að því að leysa vandamál af ýmsum toga. Verkefni hans Catch of the day snérist til dæmis um að minnka matarsóun með því að brugga vodka úr ávöxtum sem finna má í ruslagámum, en var það tilnefnt til Íslensku hönnunarverðlaunanna árið 2018 og vann hönnunarverðlaun Reykjavík Grapevine í fyrra.

Á Future Retrospectives reyna ellefu ólíkir listamenn og hönnuðir að ímynda sér hvað framtíðin ber í skauti sér með hliðsjón af því sem hefur gert í fortíðinni. Hvernig mun heimur framtíðarinnar líta út og hvernig kemur hann til með að virka, eru á meðal þeirra spurninga sem þátttakendur sýningarinnar velta fyrir sér. Listrænn stjórnandi Design TO er Deborah Wang, en hún hefur tenginar við Ísland, kom meðal annars hingað til lands á HönnunarMars 2019 og kynntist þá Birni Steinari og bauð honum að taka þátt í sýningunni.

Þess má geta að þetta er ekki í fyrsta sinn sem Björn Steinar lætur að sér kveða ytra. Verkefnið Banana story sem hann vann ásamt Johönnu Seelemann var til sýnis á sýningunni Food bigger than the Plate í Victoria&Albert Museum í London en verkefnið spratt upp úr útskriftarverkefnum þeirra í vöruhönnun við Listaháskóla Íslands. Þá hafa ýmsir erlendir miðlar fjallað um verk hans, þar á meðal á The Economist og Damn Magazine og var Björn Steinar valinn einn af 100 hæfileikaríkustu hönnuðum heims af Icon Magazine.

Af öðrum sem sýna á Future Retrospectives má nefna Graysha Audren, Mia Cinelli, Hannah Claus, Cassandra Ferguson, Tsēmā Igharas, Andreas Krätschmer,  Adhavan Sundaramurthy, Sage Szkabarnicki-Stuart, og Jessica Thalmann, sem hafa öll vakið alþjóðalega athygli. Sýningin stendur yfir til 29. mars. Nánar á www.designto.org

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -