Miðvikudagur 26. júní, 2024
8.1 C
Reykjavik

Nektarjóga kynnt á Íslandi: „Tæklum þetta með nærgætni og fagmennsku í fyrirrúmi“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Glæný tegund af jóga, að minnsta kosti hér á landi, verður kennd á næstunni en það er svokallað nektarjóga.

Í dag er Alþjóðlegi jógadagurinn og því ekki úr vegi að segja frá tegund jógakennslu sem ekki hefur verið áður kennd hér á landi. Um er að ræða nektarjóga en það eru nokkrir jógakennarar sem stofnuðu verkefnið Naked Yoga Reykjavík, sem standa fyrir þessari nýstárlegu jógakennslu.

Mannlíf ræddi við Svetlönu Álfheiði Malyutinu, sem er einn af stofnendum verkefnisins Naked Yoga Reykjavík, og forvitaðist um þessa tegund jóga.

Svetlana Álfheiður Malyutina

Af hverju nektarjóga?

Svetlana: „Af því að okkur finnst það algjörlega fráleitt að nútímafólk skammist sín fyrir sinn eigin líkama og reynir stöðugt að breyta útliti sínu eða lögun, á kostnað geðheilsunnar – bara af því að einhver sniðug auglýsing eða áhrifavaldur á TikTok segir að líkaminn okkar er ekki nógu góður eins og hann er.

Við trúum því líka að ef maður er sáttur við sjálfan sig, ber virðingu fyrir líkama sínum og líður vel í honum þá mun hann hafa sömu viðhorf til fólks í kringum sig og mun ef til vill síður fara illa með, til dæmis tilfinningar eða líkama annarra. Svo þegar allt kemur til alls þá er tilgangur með þessu verkefni að sjá meiri kærleik og minna ofbeldi í heiminum.“

- Auglýsing -

Hvernig datt ykkur þetta í hug?

Svetlana: „Þetta byrjaði í raun út frá því að ég fór að stúdera jógíska heimspeki sem hvetur mann til að berhátta huga sinn, horfa fram hjá sögunum sem maður trúir um sjálfan sig og afhjúpa sitt innra eðli. Þegar maður sekkur sig í þetta og beitir jógaaðferðum í hversdagslífinu þá finnst manni oft skrýtið að sjá hið tvöfalda siðgæði í samfélaginu. Allir eru sammála um að hver og einn eigi að vera alveg frjáls – að tjá sig, að hafa skoðanir, að lifa eins og hann vill, svo lengi sem hann takmarkar ekki frelsi annarra, en þegar kemur að manni sjálfum þá vill helst enginn skera sig úr. En til hvers að hafa skoðanir ef maður lifir ekki samkvæmt þeim sjálfur?“

Svetlana bætti við:

- Auglýsing -

„Við erum reyndir jógakennarar og náttúrubörn og við tókum eftir því að klæðalaus jógaiðkun hefur talsvert dýpri áhrif, eykur vellíðan og styrkir tengingu manns við eigin líkama. Þannig að við ákváðum að blása lífi í myndlíkinguna og bjóða upp á jógaæfingar þar sem fólk berar sig bæði bókstaflegan og á myndrænan hátt.“

Hvað nákvæmlega er nektarjóga?

Svetlana: „Klæðalaus iðkun (nagna yoga) þekkist frá fornum tíma sem partur af meinlætalifnaði hjá þeim sem fylgdu jógískri hugmyndafræði þegar jóga var ekki nema ein af stefnum fornrar heimspeki. Í stórum dráttum snýst jóga um það að tengjast sínu ekta eðli og losa sig við blekkingar hugans. Ein af aðferðum til að komast undan truflandi áhrifum reynsluheims er hófsemi eða aðhald (austerity). Í andlegum skilningi þýðir það að skilja við allar utanaðkomandi hugmyndir sem hindra beina skynjun en í efnislegum að losa sig við allar eignir sem eru ekki bráðnauðsynlegar – að fötunum meðtöldum.“

Eru æfingarnar kynferðislegar?

Svetlana: „Alls ekki. Þetta er einstaklingsmiðuð jógaiðkun ætluð þeim sem vilja bæta samband sitt við líkama sinn, byggja upp jákvæða líkamsímynd og vinna úr áföllum sem höfðu áhrif á samband líkamans og hugans. Þess vegna höldum við stemningunni eins hlutlausri og hægt er og bjóðum fólki að víkka sjóndeildarhringinn sinn, endurskilgreina hugmynd sína um nekt og upplifa nekt á mjög persónulegan en ekki kynferðislegan hátt. Við höfum mjög strangar þátttökureglur sem allir verða að samþykkja áður en þeir mæta í tímana til okkar, til að forðast allan misskilning um hvað nektarjóga snýst um.“

 

Hvað ætlið þið að bjóða upp á?

Svetlana: „Fyrst og fremst ætlum við að bjóða upp á venjulega klæðalausa jógatíma (kynjaskipta og blandaða) í stúdíóum í bænum, netttíma og einkatíma fyrir þá sem þora ekki að æfa í hóp strax. Fyrir þá sem vilja vita meira um heimspekina á bak við nektarjóga áður en þeir fækka klæðum, höldum við sérstakar vinnustofur sem skiptast í kynningu, umræðu og stuttan klæðalausan prufutíma, fyrir þá sem þora. Svo er annar stór partur af verkefninu okkar núna í sumar að bjóða upp á náttúruferðir fyrir litla hópa þar sem æft er úti, ef veður leyfir.

Til að gera iðkunina eins vandaða og hægt er og auka uppbyggjandi áhrif hennar til lengri tíma, erum við líka að bjóða upp á ýmsar aðrar líkamlegar og andlegar upplifanir eins og hugleiðslu, öndunaræfingar, kakó athöfn, sauna, nudd og hljóðheilun.“

Af hverju myndi maður vilja prófa þetta?

Svetlana: „Klæðalausar jógaæfingar geta haft víðtæk jákvæð áhrif bæði á andlega og líkamlega líðan og farið með samband líkamans og hugans í nýjar hæðir. Í þessum tímum ertu laus við takmarkandi klæði og tilbúin(n/ð) að upplifa algjört hreyfifrelsi og kynnast líkama þínum á nýjan hátt. Með því að æfa í hóp og anda í gegnum óttann, losar þú þig einnig við takmarkandi hugmyndir um útlitið þitt og annarra sem og neikvæða sjálfsgagnrýni. Með tímanum munt þú finna fyrir dýpri tengingu við sjálfan þig, verða hamingjusamari og öðlast innri ró og sátt.

Ef þú vilt bæta sjálfstraustið eða leitar að sátt við sjálfa(n/t) þig, ef þú vilt vera laus(t) við líkamsskömm og niðurrífandi sjálfstal, ef þú vilt bæta geðheilsu þína samhliða líkamlegri heilsu og þú ert tilbúin(n/ð) til að mæta sjálfum þér alveg berskjölduðum, í þágu geðheilsunnar og innri hamingju – þá eru nektarjógatímarnir kannski eitthvað sem þú ættir að prófa.“

 

Eruð þið ekki hrædd við gagnrýni? Nekt er frekar viðkvæmt efni.

Svetlana: „Nei! Við erum tilbúin til að sæta gagnrýni! Verkefnið okkar byggist á mjög sterkum hugmyndalegum grunni sem vegur á móti þeim gömlum úreltu hugmyndum sem gagnrýnendur okkar munu væntanlega sækja rökin sín í og sem okkur dreymir um að breyta. 

Okkur finnst mikils virði að opna þessa umræðu og breyta viðhorfi samfélags til mannlegs líkama og nektar.

Þetta er vissulega viðkvæmt efni og þess vegna höfum við vandað okkur mjög vel. Ég fékk hugmyndina fyrir meira en ári síðan en síðan þá höfum við legið yfir henni í marga mánuði. Við höfðum jafnvel heyrt í bandarískum félögum okkar sem eru að kenna nektarjóga í New York og Boston, til að fá ráðgjöf um hvernig er best að hátta málum – en nektarjóga þekkst miklu meira þar. Svo við tæklum þetta krefjandi verkefni með mikilli nærgætni og fagmennsku í fyrirrúmi.“

 

Einhver lokaorð?

Svetlana: „Við viljum hvetja alla, hvort sem þau hafa æft jóga eða ekki, að æfa sjálfsskoðun, að lifa lífi sínu með fullri eftirtekt og í sátt við sjálfa sig og vinna að andlegu og líkamlegu jafnvægi. Það mun ýta okkur, djúpþenkjandi mannverunum í átt að sameiningu í stað aðskilnaðar, bæta samskipti fólks á milli og stuðla að hollara samfélagi – hér á landi og út um allan heim. 

Það er stóri draumurinn. En við erum alveg sátt við að byrja smátt, til þess að sjá hann rætast. Við erum spennt að sjá hvern og einn nemanda á dýnunni hjá okkur og erum tilbúin til að hjálpa þér að taka fyrstu skrefin og kynnast sjálfum þér á nýjan hátt.

Við ætlum að hafa opna kynningu um verkefnið okkar næsta fimmtudag kl. 16:00 á Loft Hostel – komdu endilega, þú getur kynnst okkur kennurunum, spurt okkur spurninga og nýtt þér gott byrjenda tilboð í tímana okkar í leiðinni – ef þú þorir að byrja að lifa eftir eigin sannfæringu. Athugið, kynningin fer fram í fötum.“

Hér má svo sjá kynningarmyndband:

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -