Miðvikudagur 26. júní, 2024
8.1 C
Reykjavik

17. júní hátíðarræða á Ísafirði

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Í dag á íslenska lýðveldið afmæli. 80 ára. Stórafmæli. Miklu merkilegra afmæli en 81, hvað þá 77. Í dag hefði einnig 500 kallinn Jón Sigurðsson, fæddur á Hrafnseyri við Arnarfjörð árið 1811, orðið hvorki meira né minna en 213 ára gamall. Tíminn líður hratt. Það var bara í gær að húsið hér fyrir aftan mig (Safnahúsið á Ísafirði) bauð nýja Ísfirðinga velkomna í heiminn og í fyrradag sem séra Jón Magnússon þumlungur vildi ólmur láta varpa Jónum og Þuríði á bál fyrir galdra. Ekki virðist heldur svo langt síðan Þorbjörn og menn hans drápu nafna minn Ólaf, son Hávarðs Ísfirðings. 

Þannig týnist tíminn og kann og að framkalla þá tilfinningu að maður hafi upplifað flest og að litlu sé hægt að breyta, að hlutirnir séu meitlaðir í stein, orðnir að eðlislögmáli og að maður sé áhorfandi fremur en þátttakandi.

En þrátt fyrir að tíminn líði á ógnarhraða og flest verði forgengileikanum að bráð eins og sjá má ykkur hér á hægri hönd (kirkjugarður), þá eru okkur náttúrlega afrek sveitunga óþekktrar konu, þess hins sama og „sigldi til Hafnar að nema þar einhver fræði“, í fersku minni. Og í hátíðarræðu sem þessari ber 

ræðurápara að minnast á téðan Jón forseta Sigurðsson í það minnsta sjö sinnum, á Íslands sóma, sverð og skjöld, mann sem við ræðum á helgum þegar vér gluggum í Hugvekju hans til Íslendinga frá byltingarárinu mikla 1848 og miklumst yfir þeirri óvéfengjanlegu staðreynd að hann hafi verið Vestfirðingur, enda ól hann manninn á Vestfjörðum í heil 17 ár, og því megi að sjálfsögðu þakka Vestfirðingum öðrum fremur fyrir sjálfstæði landsins, fyrir lýðveldið, fyrir kandíflossið, hoppu-kastalana, karamelluregnið og sölutjöldin.

Vissulega kann hér að vera um smávægilega einföldun að ræða, um túlkunaratriði, eða spurningu um tilfinningu. Annar vestfirskur forseti, Túngötuforsetinn, bjó hér umtalsvert skemur en spyrðir sig samt einarðlega við Vestfirði eins og reyndar fyrrum stéttbróðir hans á sviði stjórnmálanna og sérlegur forvígismaður hins vestfirska einhljóðaframburðar. Má því einnig þakka Vestfjörðum og Vestfirðingum veru Íslands í ESB, sjálfstæði Eystrasaltsríkjanna svo og andstöðuna við ICESave. 

Verðum við ekki að sjá í gegnum fingur okkar með smá einfaldanir?  Í hátíðarræðum þarf ekki að fara ofan í kjölinn á hvorki einu né neinu. Þar eru hólar hrikaleg fjöll og skítalækir stórfljót, vatnið hreinast, fólkið „bezt“, menningin mögnuðust. Við tölum um okkur og það sem er okkar, við sláum okkur á brjóst og spyrðum okkur við víkinga og boltasparkara og hundsum þá staðreynd að víkingar voru vart til staðar á Fróni auk þess sem þeir voru misyndismenn sem áttu það til að ræna, rupla og ríða án samþykkis, ásamt því að myrða mann og annan. Maður er nú ekkert að pæla í slíku í hátíðarræðu. 

- Auglýsing -

Í hátíðarræðu er allt umvafið bjartsýni og við alltaf, ávallt, ætíð og áreiðanlega að gera betur en í gær og gott betra; við elskum náungann, tökum flóttafólki fagnandi; drekkum freyðivín með fjölbreytileikanum við undirspil níundu sinfóníu Beethoovens; sólin er allsráðandi og baðar geislum sínum á öll Guðs börn á meðan stormurinn stælir þjóðarlíkamann og mannsandann. 

Og nú skal vitna í þjóðskáld. Þjóðskáld sem má alveg titla Vestfirðing, þótt hann hafi litið dagsins ljós einhvers staðar fyrir norðan á 19. öld. 

Ég elska þig stormur, sem geisar um grund
og gleðiþyt vekur í blaðstyrkum lund,
en gráfeysknu kvistina bugar og brýtur
og bjarkirnar treystir, um leið og þú þýtur.

- Auglýsing -

Já, veðrið, náttúran og allt það „stöff“ mótar og stælir vora lund, gerir oss að því sem við erum. Það fyrirfinnast allavega sjaldnast hlandbrunnin „braggabörn í barnavagni“ í hátíðarræðum og því síður engisprettufaraldur; mannkynið „það elskar frið og hatar Rudolf Hess og „þorpin eru að hjarna við“ sem „eilífðar smáblóm“ og „óréttlæti mótmælum vér allir“.

Við sammælumst í andakt um allskonar ágæti og menningarhnoss, við bendum á íslenskan sagnaarf, þrautseigju undangenginna kynslóða, stærum okkar af tungunni, sem er ekki síður einkennismerki íslenskrar þjóðar en alþýðu-vagg og veltu-hljómsveitarinnar engilsaxnesku The Rolling Stones. Og ekki erum við allskostar laus við voðalega saklausan, sárameinlausan, lítilsháttar 17. júní 

þjóðernisbelging. Já, tunga vor hefir þjónað íslenskri þjóð frá örófi alda í fallegum fjallasal undir heiðbláum himni hvar fegurðin ein ríkir.

EN! Nú ber að víkja málinu að stöðluðu atriði allra hátíðarræðna. Það er viðtekin venja að leiða talið að áskornum, að þrátt fyrir almenna velsældarvímu sé víða pottur brotinn, að sumir hafi ekki efni á nýjum síma eða áskrift að Stöð 2, að fitusmánun feitustu þjóðar Evrópu sé óbærileg; að vinna verði meinbug á loftmengun bílalýðveldisins; að fordómar grasseri innan fornbílaklúbba; að hvítir miðaldra karlpungar séu svo illa haldnir af forréttinda blindu að Jesús fái ekki rönd við reist. Svo er það kynlega málið, trans, BDSM og hvaðeina. Ekki hefði nú Jón okkar Sigurðsson þurft ekki að „díla“ við viðlíka mál og hafði hann nú ærinn starfa samt. 

Það er um auðugan garð að gresja, nóg af áskorunum til að bragðbæta svona ræðu umhugsandi smekkbæti mitt í gleðiærslum ísfirskra ungmenna. Verkefni það sem hér verður fært í tal ætti ekki að koma á óvart og liggur máske algerlega í augum „úti“ hvað suma viðstadda áhrærir.

Our great language, our nations pride and joy: Icelandic

Vitanlega er síð-sígilt að lýsa yfir áhyggjum yfir stöðu íslenskunnar, að klifa á því að nú megi ekki sitja við orðin tóm, að málið sé vort dýrasta djásn, ástæða sjálfstæðis okkar, það sem aðgreindi okkur frá Dönum, skilgreindi og skilgreinir okkur sem þjóð, er okkar aðgangur að nið og aldanna svo og kastalar og dómkirkjur landsins. Íslenskan er aðgangur vor að hugsun forfeðranna. 

Já, og svo mærir maður bókmenntirnar og orðsins fólk, rithöfundana og allt það slekt. Og væri maður pólitíkus myndi maður næsta víst lofa endalausu fjármagni til að kippa þessu og öllu öðru mögulegu og ómögulegu í liðinn og láta svo mynda sig í gríð og erg með réttum aðilum að ræðu lokinni. 

Ástand tungunnar er mega „tough“! Ástand hvar hrútspungar rata trauðla á trant lengur og fólk rappar fremur en fer með rímur og styttir sér fremur stundir með Netflix en Íslendinga sögunum, Biblíunni eða Kiljan að ekki sé talað um Guðmund Hagalín, Njörð P. Njarðvík, Eyvind P. Eiríksson, Rúnar Helga, Jón Thoroddsen og fleiri af því sauðahúsi. Ungmenni eru því sem næst ólæs eftir 10 ára grunnskólagöngu og eiga í mestu erfiðleikum með að skilja íslensku liðins tíma og eru svo, að eigin mati, klárari á ensku en móðurmálið að maður tali nú ekki um ef hluteigandi aðili hefir annað móðurmál en íslensku, börnin okkar klæmast ótt og títt á engilsaxnesku, eru föst í viðjum tik-tok á meðan þeir sem líkamlega ekki teljast til barna eða ungmenna eru njörvaðir niður í hlekki Flettismettisins. 

-skjárinn er ópíum fólksins-

Viðtengingarhátturinn er að deyja, þjónusta kaffihúsa, veitingahúsa, spítala fer fram á ensku, allra handa skilti eru einvörðungu á ensku, enskan er sett ofar íslenskunni á skiltum, afþreyingin er á ensku, samfélagsmiðlarnir á ensku, draumarnir eru á ensku, gott ef lóan er bara ekki byrjuð að syngja sínar vorvísur á ensku. Tæknibyltingar, búsetubyltingar og hugarfarsbyltingar sækja að íslenskunni.

Þið þekkið þennan barlómssöng, ekki satt?

Og svo bara allt í einu og óforvarandis gerist það að fjöldi fólks með erlent ríkisfang rýkur upp úr 1,8%, ESB-árið 1994, upp í hartnær 20% anno domini 2024 og samhliða því eykst, eins og gefur að skilja, herskari þeirra sem eigi hafa íslensku að móðurmáli og umtalsverður hluti þeirra kann jafnvel ekki stafkróf fyrir sér í íslensku og hefir ekki hugmynd um hver Jón Sigurðsson var eða hvaða hlutverki hann gegndi í sjálfstæðisbaráttu íslenskrar þjóðar og þaðan af síður hverjir Fjölnismenn, Baldvin Einarsson eða Ásgeir Ásgeirsson voru. Eitthvað sem … allir Íslendingar þekkja auðvitað eins og hnakkasvip ömmu sinnar við eldavélina.

Já, tilfinnanlegar breytingar hafa sannlega átt sér stað. Og sama hve sterk þráin eftir þeim tíma „er hetjur riðu um héruð“ kann að vera er leiðin til baka ófær. Sama hversu afturhaldssamar þið kunnið að vera þá er sá tími liðin er hér bjó einungis fólk á borð við: Jón Sigurðsson og Ingibjörgu Einarsdóttur, fólk næpuhvítt á hörund, bláeygt, ljóshært og stælt með kjarnyrta íslensku á vör allan liðlangan daginn, mælandi ódauðleg gullkorn af jafnmiklum krafti og hrímhvítt jökulfljót. 

Ísland, farsældarfrón

Og hagsælda, hrimhvíta móðir!

Hvar er þín fornaldarfrægð,

frelsið og manndáðin bezt?

Við endurheimtum ekki liðna tíð enda hlýtur og slíkt að bera vott um hugmyndarfæð. Nei, við verðum að „díla“ við nýjan veruleika og hluti þess er að leiða hugann að því hvort við viljum að íslenska verði áfram ríkjandi mál á 

Íslandi, að íslenska verði málið sem sameinar, sem veitir aðgang að sögu lands og þjóðar ásamt því að búa til nýja og sameiginlega. Og ef svarið við þeirri spurningu er jákvætt verðum við að leiða hugann að því hvernig við viljum standa að því, hvernig við viljum miðla málinu, hvernig við viljum styrkja það í sessi og ekki síst svara þeirri spurningu af hverju svo ætti að vera. Er það vegna þess að málið varðveitir menningarlega samfellu landsins? Er það vegna þess að málið er verðmæti í sjálfu sér? Eða er það vegna þess að málið er það sem sameinar, skapar öllum þeim sem hafa það ágætlega á valdi sínu aukin tækifæri? Málum er nefnilega enn svo háttað að flest allt sem hér máli skiptir fer fram á íslensku: leikskólinn, grunnskólinn, framhaldsskólinn og helstu stofnanir brúka íslensku. Ætli maður sér frama er það auðveldara með íslensku á sínu valdi, íslenskan veitir hlutdeild og hvort sem okkur líkar betur eða verr brúar enskan ekki bilið, því tíð og sjálfsögð notkun ensku býr til aðgreiningu þegar til kastanna kemur. 

Aðgreiningu á milli þeirra sem tala og skilja íslensku og þeirra sem tala hana ekki og skilja hana ekki. 

Og þá er ekki einu sinni horft til þeirra sem hafa hvorugt málið, hvorki ensku né íslensku, almennilega á valdi sínu. Við skulum bara orða þetta sem svo að það sé oft og tíðum misskilin kurteisi að ætla að allt sé auðveldara með ensku þegar átt er í samskiptum við þá sem vilja setjast hér að til lengri eða skemmri tíma, burtséð frá þeim skilaboðum sem það sendir: að íslenskan sé óþörf sem sannlega ekki er raunin … 

Við tölum jú ensku við túrhesta, erum við því ekki að koma fram við fólk sem hér býr eins og túrista með því að tala við það á ensku? 

Og ef til vill kann að vera að við sem samfélag „fungerum“ enn best með íslensku að vopni, með íslenskuna sem sameiningarafl, ekkert ósvipuð nálgun Jóns okkar Sigurðssonar. Hans helsta vopn í baráttunni fyrir sjálfstæði Íslands var jú, tungan og menningararfleifðin. 

Eitt er allavega kristaltært! Íslenska lærist ekki sé enska ætíð notuð, íslenska lærist ekki sé henni ekki haldið að fólki, íslenska lærist ekki geri samfélagið ekki kröfu um að málið sé notað, íslenska lærist ekki búi samfélagið ekki til góðan grundvöll fyrir íslenskunám og máltileinkun og taki þátt í ferlinu, með bros á vör. Íslenskan lærist best sé fólki veitt tækifæri til að nota hana með allslags hreim og hugsanlega misgóðri málfræði. Það þarf að gera mistök til að geta lært af þeim. Og við, sem höfum íslensku að móðurmáli, getum verið þátttakendur í þessu ferli ekki bara áhorfendur. Kannski er það meira að segja skylda okkar að taka þátt.

Jæja, nú er tími til kominn að ljúka þessu raupi og gaspri. Hér hefir verið farið út og suður í sjálfshælni þess sem telur sig hafa málið, íslenska tungu, sómasamlega á valdi sínu. Endum þetta yfirlætistal á smá áeggjan, á fleygum orðum. Það er klassík þegar kemur að hátíðarræðum. 

Við sammælumst, allavega 17. júní, um ágæti Vestfirðinga, um ágæti íslenskra fjallasala og jafnvel veðurfars, um að tungumálið sé okkar dýrasta djásn og sameiningartákn … EN hvað segir það um samfélag sem gerir ekki allt sem í þess valdi stendur til að auðvelda aðgengi þeirra sem hér vilja setjast að, sem vilja læra málið, sem ættu að læra málið, að því menningarlega hjartfólgnasta, sem Íslendingar eiga, tungumálinu? Að kjarna þess að vera íslenskur.

Er ekki kominn tími til að Gefa íslensku, í breyttum veruleika, séns!?

Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, höfundur er verkefnastjóri Gefum íslensku séns – íslenskuvænt samfélag (www.gefumislenskusens.is

Vísað er til ýmissa skálda í ræðunni. Bubbi Morthens, Bjartmar Gunnlaugsson, Einar Benediktsson, Hannes Hafstein, Jónas Hallgrímsson, Matthías Jochumson, Megas og Mugison, 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -