Fimmtudagur 1. ágúst, 2024
10.8 C
Reykjavik

Gengið eftir endilöngum Okvegi – Fegurð auðnar og fjalla MYNDIR

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Við lögðum upp í gönguna frá bænum Giljum í Hálsasveit. Þarna hafði ég oft komið á æskuárum í útreiðartúrum frá Búrfelli. En þá hafði ég ekki hugmynd um þann gullna veg sem liggur meðfram Oki og alla leið á Uxahryggi. Við upphaf göngunnar skammt frá bæjarhlaðinu í Giljum er skilti sem vísar á Okveg og fyrsta rauðamálaða stikan af fjölmörgum blasir við okkur. Þar lögðum við bifreiðum okkar með leyfi landeiganda og gangan hófst í byrjun júlímánaðar árið 2024.

Hugmyndin að gönguferðinni um Okveg varð í framhaldi þess að Guðlaugur Óskarsson fyrrverandi skólastjóri á Kleppjárnsreykjum, lauk því þrekvirki að stika alla 30 kílómetrana frá Giljum að Brunnvatni við Uxahryggi. Ferðafélag Íslands stóð fyrir göngunni sem var ekki síst farin til að kynnast svæðinu og útfæra ferðir um svæðið norðan Oks.

Okvegurinn hinn forni var lengi vel hluti af helstu þjóðleiðinni á milli Norðurlands og Suðurlands. Norðanmenn, sem komu um Arnarvatnsheiði gátu valið um að fara Kaldadal, sunnan Oks, Okveg eða Uxahryggjaleið. Víst er að fyrr á öldum var leiðin fjölfarin og þá sérstaklega þegar Alþingi kom saman á Þingvöllum. En eftir að bílaöld gekk í garð og sæmilegur vegur var lagður um Kaldadal lagðist Okvegur af. Gatan var smám saman að týnast og gleymast þegar Guðlaugur skólastjóri tók sig til og kortlagði leiðina og stikaði.

Snillingurinn Páll

Dagurinn byrjaði í Húsafelli þar sem snillingurinn Páll Guðmundsson sýndi okkur málverk sín, hljóðfæri og höggmyndir. Allt gert úr hráfeni íslenskrar náttúru. Hann töfraði fram seiðandi lög spiluð á flautu sem var að hluta úr rabbabara. Eftir gæðastund þar sem Páll sagði okkur sögur og sýndi okkur verkin sín var haldið að Giljum og lagt af stað í ferðina góðu.

Við vorum fjögur og hundurinn Tindur sá fimmti. Við gengum upp með Valagili. Ferðin sóttist fremur hægt, enda var fólk að venjast því að vera með 15-20 kíló á bakinu. Fyrsti áfangi leiðarinnar var að Smjörtjörn. Nafnið lofaði góðu og við sögðum í gríni að hugsanlega drypi þar smjör af hverju strái. Veðrið var fínt og dálítill gustur í bakið. En það var þoka á hálendinu og Okið á kafi. Upplifunin var dulmögnuð. Ósjálfrátt varð manni hugsað til forfeðra vorra sem fóru þennan veg í allskonar veðrum. Við siluðumst áfram upp fjallshlíðina með Giljahnúka á hægri hönd. Fyrr en varði vorum við komin inn í suddann og útsýnið minnkaði. Við ræddum með tilhlökkun okkar í milli að það styttist í Smjörtjörn þar sem við myndum nátta. Við rákum upp stór augu þegar tjörnin birtist handan við hæðardrag.

Hráslagi við Smjörtjörn

Þetta reyndist vera þónokkuð stórt vatn en þar var ekki stingandi strá að sjá. Við nánari skoðun þá glitti í grænan blett, talsvert utan vegar. Vindur var vaxandi. Við náðum að koma tjöldunum niður eftir nokkurn barning. Hráslaginn gerði það að verkum að ekki var annað til ráða en að skríða inn í tjöldin. Svo kom nóttin með andvöku. Ekkert símasamband. Vindurinn hélt vöku fyrir fólki og hundi framan af nóttu en svo dúraði og tjaldbúar festu svefn í kyrrðinni. Fuglasöngur í fjarska og hugsanlega gagg í tófu fléttaðist inn í draumana. Við vorum börn óbyggðanna.

- Auglýsing -

Klukkan var átta að morgni laugardags þegar fólk reis af beðum sínu. Sólin hafði hrakið suddann á brott og yfir okkur gnæfði Okið með sinni tignarleg öxl í allri sinn fegurð. Prímusar voru ræstir og hafragrautur eldaður. Eftir staðgóðan morgunverð var gert klárt fyrir brottför. Við höfðum lagt að baki átta kílómetra og stefnt var að 12 kílómetrum þennan daginn.

Handan við Okið

Áfram lá leiðin um gróna götuna. Rauðmálaðar stikurnar vísuðu okkur veginn. Eftir stutta göngu komum við í Rauðsgilsdrög. Hugurinn reikar til Jóns Helgasonar prófessors sem ólst upp á Rauðsgili og orti betur en flestir um íslenska náttúru. Handan við Okið er hafið grátt, segir í ljóðinu Á Rauðsgili. Norðan við okkur er Fellaflóinn þar sem finna má gamalt spor eftir lítinn fót. Þar eru líka undurfagrir fossar Rauðsgils sem við munum ekki heimsækja að þessu sinni.

Við höldum áfram göngunni. Sléttafell kúrir í landslaginu norðan við okkur. Það minnir mig á ungan dreng í smalamennsku meða afa sínum og móðurbróður. Sú var tíðin að mikil dulúð var yfir hálendinu ofan Búrfells þar sem amma og afi bjuggu í fjörutíu ár. Heimur barnsins markaðist af Okinu og Hálsinum í Hálsasveit. Seinna bættist Flateyri við með allri sinni norðaustanátt. Þegar komið er upp á bæjarfjallið, Búrfell, mátti sjá Sléttafell og Fanntófell. Svo var það auðvitað sjálft Okið, risinn í landinu. Þangað áttu hjónin á Búrfelli land.

- Auglýsing -

Fanntófell blasir við göngufólkinu á vinstri hönd. Þangað upp kom ég fyrir 10 árum. Sú ganga var ógleymanleg. Efst í skriðunni gekk maður tvo skref og rann eitt skref til baka. En það hafðist og uppskeran var stórkostlegt ústýni yfir Borgarfjörð af 900 metra háu fjallinu. Austur af Fanntófelli er Lyklafell, rúmlega 800 metra hátt. Suður af fjallinu er fyrirbæri sem nefnist Dauðsmannshóll. Það má ímynda sér að þar hafi átt sér stað harmleikur.

Skáldið Kristmann

Það var talsvert liðið á daginn þegar 12 kílómetrarnir voru að baki og tímabært að leita að tjaldstað. Blámi var kominn á Oköxlina. Við fundum okkur fljótlega fallegan reit, þvert af Fanntófelli. Neðan Okvegar mátti sjá Skotmannsfell sem að vísu var mun lægra eða um 430 metrar. Skotmannstjarnir kúra í skjóli þess. Klukkan var ekki nema rétt rúmlega sex þegar búið var að tjalda og fólk hafði nært sig. Veðrið var frábært. Þetta var eins og við værum römmuð inn í ævintýri. Fjallahringurinn var dásamlegur undir heiðskýrum himni. Í fjarska mátti sjá Akrafjall og Skarðsheiði. Botnssúlur, Hlöðufell og Skjaldbreiður voru öll á sínum stað. Þverfell, sem lokar Lundareykjadal að ofanverðu, var skammt undan. Það rifjaðist upp að frá bænum Þverfelli  kemur skáldið Kristmann Guðmundsson sem á sínum tíma var einn vinsælasti rithöfundur landsins og víðar um heiminn. Hann var einnig umtalaður fyrir einkalíf sitt og þau sjö hjónabönd sem hann átti að baki.

Okvegur hinn forni fær nýtt líf.
Okvegur. Skjaldbreiður og Súlurnar í fjarska.

Fólk var fljótt að festa svefn í skjóli Fanntófells. Að þessu sinni var vindurinn til friðs og nóttin kyrrlát. Rakkinn Tindur ákvað að tjald hentaði honum ekki og hann eyddi nóttinni á lyngbeði utandyra. Við vöknuðum á sunnudegi í glaðasólskini. Framundan var seinasti hluti Okvegar að Brunnvatni við Uxahryggi. Eftir hefðbundinn morgunmat sem samanstóð af hafragraut, flatbrauði og súkkulaðirúsínum var pakkað saman og haldið af stað. Landið var að mestu gróið og melarnir sem voru ráðandi við Smjörtjörn voru að baki. Við þræddum moldargötur. Þarna var Illakelda sem ber nafn sitt af því að þar áttu hestar til að sökkva í eðju og festast með tilheyrandi vandræðum. Á þessum slóðum liggur vegurinn í hlykkjum til að sneiða hjá forarvilpunum.

Það er ekki annað hægt en að elska þetta land

Á göngunni var margt til að næra sálina. Heiðblár himinn yfir okkur og fjallahringurinn tók stöðugum breytingum. Okið tók smám saman á sig bláan lit fjarlægðarinnar. Skallinn á Þórisjökli varð greinilegur. Spói vellir í fjarska og stöku lóa flýgur yfir höfðum okkar. Á leið okkar brosa blómin við okkur. Geldingahnappur, holtasóley og lambagras eru í blóma. Stöku ljósberar færa okkur yl í sálina með fegurð sinni og þokka. Lífsgæðin sem felast í paradís hálendisins umvefja okkur. Það er ekki annað hægt en að elska þetta land.

Það styttist í lokatakmarkið við Brunnavatn, rétt norður af Sæluhúsahæðum. Við sjáum veginn um Kaldadal þar sem við nálgumst Langás. Fyrr en varði vorum við komin að lítilli á við Brunnvatn. Við stikluðum yfir hana og síðasta stikan hans Guðlaugs blasti við okkur. Fyrr en varði voru við aftir komin inn í nútímann og upp í fjórhjóladrifinn jeppa. Rás 2 tók yfir fuglasönginn.

Við ókum um Kaldadal til baka. Þetta var eins og að hraðspóla í gegnum þriggja daga gönguferð. Að þessu sinni fórum við handan við Okið. Það er sláandi dæmi um fjölbreytileika fjalla að frá Kaldadal austanverðum er Okið lítt aðlaðandi. Urðarbrekkur einkenna þetta sjónarhorn á meðan Þórisjökull með sinn kúpta og hvíta koll er glæsileikinn uppmálaður. Séð frá Borgarfirði og Okvegi er Okið aftur á móti tignarlegt fjall með sína hábungu og öxl. Þaðan sést ekki Þórisjökull. Á ökuferðinni um Kaldadal rifjast upp sagan af Beinakerlingu. Þeir sem áttu leið um áttu það til að henda fram stöku setja á blað sem stungið var inn í vörðuna. Næstu menn glöddust svo við að lesa og svöruðu hugsanlega með nýju vísukorni. Þetta er auðvitað liðin tíð og nútímafólk lætur sér nægja að henda einhverju á Facebook, Instragram eða TikTok. Þessir erlendu risar eru beinakerlingar nútímans.

Við njótum akstursins þar sem við rennum framhjá Prestahnúki, Geitlandsjökli, Langjökli og Hádegisfellunum tveimur. Við okkur blasa Eiríksjökull, Hafrafell og Strútur. Fyrr en varir er Húsafell að baki og við lokum hringnum í Giljum. Sannkallað ævintýri í óbyggðum er að baki. Það er ekki laust við að söknuður geri strax vart við sig þegar horft er upp eftir hlíðinni þar sem fótspor okkar um fyrsta hluta Okvegar liggja. „Ég kem aftur,“ er sú hugsun sem nær yfirhöndinni.

Greinarhöfundur, Reynir Traustason, á Okvegi. Mynd: Guðrún Gunnsteinsdóttir.
Rakkinn Tindur og fararstjórinn Guðrún í góðu yfirlæti í tjaldinu undir Fanntófelli. Mynd: rt
Smjörtjörn, Okið
Tjaldað í skjóli Oksins við Smjörtjörn. Mynd: Reynir Traustason.
Ein á gangi í óbyggðum. Þórisjökull, Hrúðurkarlar og Björnsfell í baksýn.

Okið er eitt af djásnum Borgarfjarðar.

Rakkinn Tindur í skjóli steins við Okveg.
Rakkinn Tindur leitaði skjóls undan sólinni í skugga.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -