Föstudagur 3. janúar, 2025
0.8 C
Reykjavik

María gerðist götukrakki eftir nauðgun: „Fannst enginn mega elska mig eða þykja vænt um mig“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

María Pétursdóttir varð fyrir grófu kynferðisofbeldi þegar hún var fjórtán ára sem hafði mikil áhrif á hana og alla fjölskylduna. Hún sagði ekki frá ofbeldinu heldur varð óalandi og óferjandi og flutti 15 ára gömul í kommúnu niðri í bæ. Hún eignaðist sitt fyrsta barn 17 ára en missti barnið vöggudauða fimm vikna gamalt. Hún eignaðist sitt annað barn nítján ára og var þá einstæð móðir en í dag á hún tvö börn með fjórtán ára millibili sem bæði eru transfólk. María, myndlistarkona og aktívisti, hefur í áratugi barist við MS-sjúkdóminn, en hefur ekki setið aðgerðarlaus þrátt fyrir veikindin og í dag er hún í 20% starfi hjá Öryrkjabandalagi Íslands samhliða listinni og listtengdri vinnu en tekur auk þess virkan þátt í starfi Sósíalistaflokks Íslands og Sósíalískra femínista.

„Ég ólst upp hjá góðum foreldrum og í raun sósíalistum yngst þriggja systkina,“ segir María Pétursdóttir þegar hún er beðin um að segja aðeins frá sjálfri sér og æsku sinni. „Ég ólst upp í Kópavoginum en bjó líka í Danmörku 1976-1980. Samfélagið þar var ennþá skemmitlega hippískt svo ég á skemmtilegar æskuminningar þaðan. Svo fluttum við heim aftur í „verkó“ Í Kópavoginum en við bjuggum í löngu blokkinni við Kjarrhólma sem var kölluð „langavitleysa“ eða „Kínamúrinn“. Þar var fjölbreytt mannlíf og það var hálfgerð sveit þarna í dalnum,“ segir María og á við Fossvogsdalinn. „Þar voru tún, hestar í túnunum og skítalækir. Við krakkarnir vorum oft að stelast á hestbak, berbakt, og láta kasta okkur af baki. Þetta voru óttarlegar ótemjur og bykkjur. Svo voru þarna skólagarðar sem hestarnir sluppu stundum inn í og krakkarnir veiddu síli í skítalækjunum. Það var mjög skemmtilegt að alast þarna upp.“

Kynferðisofbeldi

Þegar unglingsárin tóku við þá breyttist allt í einni svipan.

„Ég varð fyrir nauðgun þegar ég var 14 ára sem hafði mikil áhrif á líf mitt og allra í fjölskyldunni. Ég lokaði sjálf á atburðinn og afneitaði honum en gerandinn fór ekki leynt með ótta sinn um að ég myndi kæra hann fyrir nauðgun svo hann vissi greinilega betur uppá sig sökina en ég sjálf enda bara krakki.

Ég sagði ekki frá og skildi í rauninni ekki af hverju ég hefði átt að kæra hann. Ég umturnaðist samt á einni nóttu og leið hryllilega.“

- Auglýsing -

Stúlkan sem hafði verið ágætis námsmaður varð allt í einu vandræðaunglingur og hætti að sýna náminu áhuga. „Það áttaði sig enginn á því hvað væri að gerast og það endaði með því að ég var rekin úr skóla í 8. bekk fyrir að rífa kjaft. Þá var ég orðin óalandi og óferjandi unglingur ásamt bestu vinkonunum sem voru heldur ekki í góðum málum. Skólinn tók kolvitlaust á okkar málum.

Ég flutti svo að heiman 15 ára gömul í kommúnu niðri í bæ. Ég gerðist í raun bara götukrakki. Mér fannst enginn mega elska mig eða þykja vænt um mig svo ég flúði fjölskylduna mína. Sjálfsmyndin gjörsamlega hrundi við nauðgunina. Eftir á finnst mér svo skrítið að skólinn hafi ekki áttað sig á því að það var eitthvað mikið að. Ég var orðin einhver brjálaður pönkari rífandi kjaft og krotandi á veggi og foreldrar mínir ráðþrota. Ég hafði áður verið með munninn fyrir neðan nefið svosem en ekki verið svona „aggressív“ og reið”.

Sjálfsmyndin gjörsamlega hrundi við nauðgunina.

Það var bullandi neysla í gangi í kommúnunni en María var sú eina í hópnum sem gat sagt „nei, takk“ þó hún hafi ekki farið allsgáð í gegnum þennan tíma. Hún segist hafa komist í gegnum 9. bekk, sem er samsvarandi 10. bekk í dag, þar sem foreldrar hennar sóttu hana hreinlega í

- Auglýsing -

bæinn á morgnana og óku henni í skólann í misjöfnu ástandi. Stundum þurfti hún að fara heim fyrst og sofa eitthvað áður því ástandið var slæmt. „Þetta er eitthvað sem ég man ekki eftir en móðir mín sagði mér frá ”.

María var sjálf orðin fullorðin þegar hún sagði foreldrum sínum frá nauðguninni. „Þeim var nátttúrulega mjög brugðið. Þetta skýrði svo margt. „Afleiðingar kynferðisofbeldis hafa gríðarleg áhrif á hvernig manneskjan plummar sig í lífinu, hvort leiðin verði bein eða krækklótt og hreinlega hvort fólk sökkvi í neyslu eða þunglyndi og lifi af. Það eru alls ekki allir sem lifa af svona reynslu og ég þekkti persónulega slík dæmi. Ég sá heldur ekki sjálf samhengið í þessu fyrr en eftir að ég eltist. Þess þá heldur finnst mér fáránleg sú krafa á ungar stúlkur og drengi að kæra svona ofbeldi strax. Það er oft ekki einu sinni hægt að koma atburðunum í orð fyrr en maður hefur þroskann til að átta sig á þeim og hver eigi skömmina”.

Gerendameðvirkni hefur því verið Maríu hugleikin undanfarið í gegnum seinni Metoo bylgjuna en hún telur meðvirknina oft tengjast miðaldra og eldri kynslóðum. “Á þessum tíma var ekki ætlast til þess að maður færi með sín mál eitthvað út fyrir heimilið en ef kona þegir og segir frá ofbeldinu fullorðin heyrist jafnvel frá þessari eldri kynslóð að hún verði nú að komast yfir þetta einhverntíman, það sé ósanngjarnt að vera að viðra gamlar syndir einhverra manna. Fólk talar um orð gegn orði eins og glæpur hafi ekki átt sér stað ef glæpamaðurinn viðurkennir hann ekki en margir þolendur eiga hálfa æfi að baki þar sem öll sambönd og samskipti hafa litast af ofbeldinu og fólk jafnvel orðið berskjaldaðara fyrir endurteknu ofbeldi. Það er ekki orð gegn orði.

Vöggudauði

Á þessum árum eignaðist María kærasta sem var þremur árum eldri en hún og átti lítið barn fyrir. „Ég var orðin stjúpmamma 15 ára en mamman sjálf var líka bara 16 ára“

Þau eignuðust svo dóttur saman þegar María var 17 ára. Litla fjölskyldan bjó í kjallaranum á heimili foreldra hennar þegar áfallið dundi yfir. María kom að dóttur sinni látinni í vöggunni sinni aðeins fimm vikna gamalli.

„Ég man líka lítið eftir þessum tíma. Hugurinn lokar á það sem er of sárt. Það var vetur og ég ætlaði að fara með barnið út í göngutúr í fyrsta skipti; ég ætlaði að fara með tveimur æskuvinkonum mínum sem áttu líka lítil börn en sá göngutúr var aldrei farinn. Maður tekur því sem lífið afhendir manni. Annaðhvort brotnar maður, beyglast en reynir einhvern veginn að halda haus. Það verður bara að fara í gegnum þetta og fólk gerir það og yrgir á mismunandi hátt. Ég ákvað að fara að vinna mjög fljótlega og reyna að dreyfa huganum en mér fannst ég alltaf eiga að vera að gera eitthvað annað – eins og að vera að brjóta saman barnaföt heima hjá mér.

Að missa barnið sitt svona er líka ávísun á sjálfsásakanir. Kannski sérstaklega þegar maður er svona ungur. Mér fannst ég ekki hafa verið nógu góð mamma og að barnið hafi bara ekki viljað vera hjá mér. Maður reynir að finna skýringar á óútskýranlegum atburðum. Þessi tilfinning að ég hafi ekki verið nógu góð sat lengi í mér. En þetta er eitthvað sem maður jafnar sig ekki beint á en lifir með.“

Hugurinn lokar á það sem er svona sárt.

María og kærasti hennar eignuðust annað barn ári síðar en voru skilin að kiptum áður en það barn fæddist.

Hún var svo 34 ára þegar hún eignaðist sitt þriðja barn.

„Börnin mín eru bæði transbörn. Þau ólust upp í miklu hinsegin samfélagi þannig lagað sem hefur kannski gefið þeim einhvern kraft til að koma út og vera þau sjálf. Ég bjó með konu um tíma þegar eldra barnið mitt var að alast upp. Og margar mínar bestu vinkonur eru hinsegin. Ég skilgreini sjálfa mig sem PAN sexual. Svo eru tvær intersex frænkur í ættinni svo það er gengið nær árlega með Gleðigöngunni.“

Ég skilgreini sjálfa mig sem PAN sexual.

María Pétursdóttir

MS

María var tvítug, einstæð móðir.

„Ef maður gengur í gegnum áföll á hörkunni og fær ekki hjálp með áfallastreytu þá lætur eitthvað undan og ég held það hafi gerst í mínu tilfelli,“ segir María sem greindist þá með vefjagigt. „Ég svaf varla eftir að ég eignaðist annað barnið mitt. Ég var alltaf að vakta það. Ég var alltaf svo hrædd um að barnið hætti að anda. Svo var ég með endalausar martraðir. Þetta var auðvitað áfallastreituröskun á háu stigi. Það var ekkert talað um áfallastreitu á þessum tíma. Það var enginn að pæla í slíku en ég var örugglega með bullandi áfallastreituröskun í ansi mörg ár

María var svo 28 ára þegar hún greindist með MS-sjúkdóminn.

„Áföll hafa alveg örugglega áhrif þar líka en það er líka talað um triggera varðandi MS í tengslum við vefjagerð fólks og erfðir og sjúkdómurinn þekkist í minni ætt. Svo er líka talað um að vírusar geti sett sjúkdóminn af stað og ónæmiskerfið getur verið viðkvæmara ef maður er undir miklu álagi. Ég hafði fengið einkirningssótt haustið áður en ég greindist þannig að það stemmir við þær kenningar. “

Ég var með bullandi áfallastreituröskun í ansi mörg ár.

Hún segist hafa fengið harkalegt MS. “Ég missti alveg sjónina á öðru auganu á tveimur vikum og á þremur dögum eftir það var ég orðin alveg tilfinningalaus upp að bringu. Það var áfall að vera í þessu ástandi; að finna ekki fyrir líkamanum og vita að það væri eitthvað stóralvarlegt að.

Ég vann á þessum tíma á geðdeild Landspítalans sem var í sama húsi og taugadeildin og é gheld ég hafi því komist í gegnum vinnuna til taugalæknis mjög fljótt þannig að ég var komin með MS-greiningu á viku.“

María hafði útskrifast úr fjöltæknideild Myndlista- og handíðaskólans áður en þetta áfall reið yfir og hún hafði fengið inngöngu í tvo listaháskóla í Bretlandi; gat valið á milli. Hún þurfti að hætta við allar slíkar áætlanir vegna veikinda sinna.

„Ég fékk hálfgert taugaáfall. Öll plön fóru í vaskinn. Ég vissi ekkert hvort einkennin myndu ganga til baka. Ég fór að fá mikil ofsakvíðaköst samhliða þessu. Ég var ekki ökufær og gat ekki verið ein. Ég var bara í algjörri klessu.“

Ég var næstum því í stöðugum MS-köstum allt næsta árið.

„Ég var í stöðugum MS-köstum allt næsta árið. Ég fór að fá svima við það að hreyfa augun og það var eins og allt væri að falla. Ég fékk endalaust ný einkenni.. Ég hef oft fengið sjóntaugabólgu síðan og hef fengið skjálftaköst eða tremor í hendur og fætur og fleira. Í dag er ég ennþá dofin og með þyngsli í fótum og er að glíma við krampa aðallega í fótum. Köstin mín ganga aldrei alveg til baka; ég fékk sjónina að mestu leyti til baka en er alltaf með smá tvísýni. Ég er búin að læra að lifa með þessum einkennum. Maður verður bara einhvern veginn að gera það.“

María hefur prófað ýmis lyf og þeim fylgja ýmsar aukaverkanir. „Ég fékk blóðtappa í lungun af einu þeirra og nýjan gigtarsjúkdóm. Augnbotnarnir í mér eru ónýtir af því að það er búið að setja mig svo oft á stera þannig að ég sé illa og þarf að fara í augnasteinaskipti einhverntíman á næstunni.

Árið 2015 byrjaði ég á nýju líftæknilyfi, Mabhera, og hef ekki fengið kast síðan né slæmar aukaverkanir en þó stigvaxandi krampa og óútskýrð veikindi árið 2018 þegar ég fékk ARDS eða hvít lungu og brisbólgu. Þá lá ég inni á spítala í mánuð eftir nokkra sólahringa á gjörgæsludeild.

Vill hafa áhrif á samfélagið

Þrátt fyrir glímuna við að halda heilsu er sjaldnast lognmolla hjá Maríu.

„Ég hef verið í 20% starfi hjá Öryrkjabandalagi Íslands undandfarið en ég er þar í málefnahópi um húsnæðismál og veiti honum forstöðu en við erum að kortleggja stöðu öryrkja á húsnæðismarkaðnum og skoða aðstæður út frá ýmsum vinklum”. Kjarabarátta og réttindabarátta fólks sem glímir við veikindi eða fötlun er gríðarlega mikilvæg í dag því við sem erum þar erum þar ekki af ásettning eða leti heldur erum við jaðarsett í drasl af samfélaginu. Fólk hefur ennþá ekki fyllilega skilning á lífi öryrkja en við erum líka svo sannarlega ólík líka innbyrðis. Fólk sem glímir við geðsjúkdóm getur til dæmis alveg gengið á fjöll eins og hver annar þó hann funkeri kannski ekki á vinnumarkaði og lamaður einstaklingur getur vel stundað fulla vinnu ef hann er ekki verkjaður eða haldinn síþreytu eða öðrum hömlum. Fordómarnir í samfélaginu geta verið gengdarlausir og margt við kjör og stöðu öryrkja sem er algjörlega galið en skerðingarnar okkar eru með þeim hæstu sem þekkjast í heimi. Það á ekki að vera samasem merki milli þess að vera fatlaður eða veikur og að vera fátækur og bjargarlaus. Ég mun allavegana aldrei sætta mig við það.”

Og hún er virk í Sósíalistaflokknum.

„Ég er formaður málefnastjórnar Sósíalistaflokksins og búin að leiða það starf síðustu fjögur árin.“

Hún segist hafa verið krakki þegar hún byrjaði að skipta sér af stéttabaráttu móður sinnar sem er kennari.

„Eftir langa kennaraverkfallið árið 1983 þá lokaði ég mig af inni í eldhúsi og hringdi í Jóhannes Norðdal Seðlabankastjóra þáverandi og kvartaði undan því að hann hefði fellt gengið daginn eftir að kennararnir sömdu. Ég hef alla tíð haft sterka réttlætiskennd. Það truflaði mig til dæmis mikið að horfa upp á einelti í skólanum og ég var alltaf í hálfgerðu stríði fyrir hönd þeirra sem voru lagðir í einelti eða skáru sig úr á einhvern hátt. Svo var ég í stúdentapólitíkinni þegar ég var í Myndlista- og handíðaskólanum. Ætli ég sé ekki ágæt í að rífa kjaft og standa uppi í hárinu á valdinu.“

María segist vera búin að koma að alls konar aktívisma í gegnum tíðina. Hún gerði til dæmis pólitíska myndlist og nefnir þar vísanir í „Kárahnjúkavirkjun“ og pólitíska gjörninga í “Búsáhaldabyltingunni”. Einnig hefur hún látið sig nýju stjórnarskrána varða og hefur silkiþrykkt boli og peysur fyrir Töfrateymi Libiu og Ólafs sem vinna með stjórnarskrána í list sinni.

„Þrátt fyrir að glíma við veikindi þá er ég alltaf að reyna að vinna eitthvað og gera eitthvað gagn. Ég tók þann pól í hæðina að reyna alltaf að vera aktív þrátt fyrir að vera ekki alltaf á vinnumnarkaði. Ég vann um tíma við iðjuþjálfun svo ég vissi hvað það skipti miklu máli að halda sér virkum. Ég rak því einnig vinnustofu og sennilega eina af vinsælli verslunum bæjarins í um áratug „Ranimosk” þar sem ég gat stýrt vinnunni minni eftir heilsufari í samvinnu við sambýlismann minn Braga.

María Pétursdóttir

María býr í dag með sambýlismanni sínum og þeirra barni í Kópavoginum, tveimur hundum sem fyrrverandi sambýliskona hennar sem nú er látin átti. Svo eru þrjár hænur í garðinum og köttur sem fylgist með þeim. Þá á hún uppkomið barn, stúpdóttur og tvö stjúp barnabörn.

Listin er alltaf ofarlega í huga listakonunnar sem syngur í kór og fór að spila á píanó fyrir nokkrum árum síðan og semja tónlist „Það er heilandi að syngja og semja tónlist. Þetta er einhver óslökkvandi sköpunarþörf en ég geri ekki beint greinarmun á listformum ef út í það er farið.

María, sem hefur gengið í gegnum fleiri áföll en margur annar og sem er mikið hæfileikabúnt, er spurð hver draumur sinn sé.

„Ég vil hafa áhrif á umhverfi mitt og vinna að kærleiksríku og réttlátu samfélagi og ég vil skapa og stundum fer það meira að segja alveg saman því við sköpum réttlæti og við sköpum betra samfélag.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -