Miðvikudagur 20. nóvember, 2024
-5.1 C
Reykjavik

Kristbjörn: „Átta ára var mér nauðgað af kaupmanni í Kópavogi sem hafði áhorfanda.“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Umræða um kynferðisofbeldi – nauðganir og áreiti – skekja íslenskt samfélag í dag. Það samtal sem nú á sér stað hefur opnað augu margra fyrir því hversu algengt slíkt ofbeldi virðist vera á Íslandi, og ekki bara í dag eða á síðustu árum. Líka á síðustu áratugum. Og hefur umræðan opnað upp á gátt þá staðreynd að þolendur þora nú meira en áður að stíga fram og segja sögu sína; skila skömminni vitandi að það var ekki þolandanum á neinn hátt að kenna, en margir hafa sligast með slíkar tilfinningar áratugum saman. Kynferðislegt ofbeldi er alltaf gerandanum að kenna.

Saga Kristbjarnar Árnasonar er eitt dæmi um slíkt viðbjóðslegt ofbeldi sem hann varð fyrir þegar hann var einungis lítill drengur. Hann hefur skilað skömminni og opnað sig um ofbeldið fyrir fjölskyldu sinni og opinberlega.

Saga Kristbjarnar er óhugnanleg en því miður ekkert einsdæmi.

„Það eru ekki bara konur sem verða fyrir kynferðislegu áreiti og ofbeldi eins og nauðgun. Almennt tel ég að ofbeldi fylgi mun fremur stéttamismun fólks; að fólk í ráðandi stöðu gagnvart öðru fólki beiti það ofbeldi með afar fjölbreyttum hætti “ segir Kristbjörn Árnason sem segir sláandi sögu sína af kynferðisofbeldi sem hann var beittur sem barn.

„Konur beita aðrar konur og stelpur ofbeldi af öllu tagi. Þær beita einnig karla og drengi ofbeldi af öllu tagi. Sama á við um karla. Ég get tekið sjálfan mig sem dæmi um að hafa þolað slíkt ofbeldi bæði af körlum og konum,“ segir Kristbjörn sem rifjar upp atvik sem áttu sér stað þegar hann var einungis sex ára gamall:

„Það fyrsta sem ég minnist var þegar ég var sex ára gamall í Þingholtunum, þegar tvíburasystur um fermingaraldurinn drógu mig gjarnan á ákveðinn felustað það sumarið. Þær tosuðu síðan niður um buxurnar mínar og meðhöndluðu typpið á mér. Einnig tóku þær aðra hönd mína og nudduðu með henni djásnin sín. Ég vissi auðvitað ekkert hvað var um að vera og hafði ekkert vit á þessum hlutum. Síðar var þetta mér afar óþægileg lífsreynsla.“

- Auglýsing -

Tveimur árum síðar – einungis átta ára gamall – varð Kristbjörn fyrir mun verra ofbeldi og segir frá:

„Á níunda árinu var mér nauðgað af kaupmanni í Kópavogi og hann hafði áhorfanda. Ég man þennan atburð eins og hann hefði gerst í gær. Mér fannst ég bera ábyrgð á þessum óþverra, enda hafði hann oft gefið mér sælgæti. Síðar um veturinn komu tveir lögreglumenn í fullum skrúða og sóttu mig í Kópavogsskóla þrisvar sinnum og farið var með mig í yfirheyrslu. Aldrei minntust foreldrar mínir á þennan atburð.“

Kristbjörn segi að „kaupmaðurinn var dæmdur fyrir að nauðga okkur fjórum nemendum; tveir þeirra eru löngu dánir og það tók mig rúmlega hálfa öld að geta rætt þetta við mína nánustu. Mér fannst sem krakka að mér hefði verið refsað og ég ætti það skilið.“

- Auglýsing -

Árinu eftir þennan hryllilega atburð – 1955 – var Kristbjörn sendur í sveit vestur í Gufudalssveit þar sem faðir hans hafði verið vinnumaður um alllangt tímabil í æsku.

„Við voru þrír drengir þarna í sveit. Í aldri var ég í miðið. Þarna var þá barnaníðingur sem kvaldi okkur tvo yngri þegar við vorum komnir upp í rúm á kvöldin. Með því að klípa og kreista á okkur kynfærin. Það var mjög sársaukafullt. Á svona stað voru ungir drengir í fjarlægri sveit algjörlega einangraðir og óvarðir.“

Árið 1956 fór Kristbjörn í fyrsta sinn sem kaupamaður austur í Árnessýslu og dvaldi þar tvö sumur.

„Þangað var ég sendur til að vinna og það langan vinnudag. Seinna sumarið var ráðskonan farinn að hafa mikinn áhuga á að fikta í mér. Þarna var ég varnarlaus í afskekktri sveit, en mér tókst að sleppa frá konunni,“ segir Kristbjörn og heldur áfram að rifja upp erfiða hluti úr æsku sinni.

„Þegar ég var orðinn fjórtán ára varð ég oft fyrir áreitni kvenna á miðjum aldri; þær beittu ýmsum ráðum eins og að sýna sig og bjóða mér upp á hluti sem ég var ekki tilbúinn að fara í, líklega vegna þess hversu feiminn ég var. Það hefði bara þótt hneisa ef ég hefði verið að kvarta undan slíku.“

Upp úr þessu fór „ég að hafa áhuga fyrir stelpum og verða vitni að því að stelpurnar höfðu miklu meiri áhuga fyrir „stælgæjum“ er sýndu af sér ofbeldi gagnvart öllum sem þeir þorðu.“

Eðlilega hafa þessir atburðir markað líf Kristbjarnar og það tók hann fimmtíu ár að gera þessa atburði – nauðgun og annað kynferðisofbeldi – upp og segja frá; fjölskyldu sinni og á opinberum vettvangi.

Kristbjörn telur lítinn vafa leika á því að saga hans sé ekki einsdæmi, heldur saga margra stráka á Íslandi í gegnum tíðina:

„Ég er viss um að margir strákar á mínum aldri hafi svipaða sögu að segja og ég.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -