Greint var frá því í gær að blaðamenn, áhrifavaldar og fólk sem hefur ásakað Ingó Veðurguð um refsiverða háttsemi mætti eiga von á kæru eftir að hæstaréttarlögmaðurinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson gekk til liðs við Ingó.
Þar kom fram að fimm einstaklingar sem á einhvern hátt hefðu tjáð sig opinberlega um mál Ingós hefðu fengið kröfubréf.
Nú hefur Vísir greint frá því hvaða fimm einstaklingar það eru:
Edda Falak áhrifavaldur, Sindri Þór Sigríðarson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Pírata, Ólöf Tara Harðardóttir, einn af forsvarsmönnum hópsins Öfga, Kristlín Dís Ingilínardóttir, blaðamaður Fréttablaðsins, og Erla Dóra Magnúsdóttir, blaðamaður DV.
Í gær steig sömuleiðis fram einn ríkasti maður Íslands, Haraldur Ingi Þorleifsson, stofnandi hönnunarfyrirtækisins Ueno og bauðst til að greiða lögfræðikostnað allra þeirra sem Ingólfur Þórarinsson, oftast kallaður Ingó Veðurguð, mun stefna. Hægt er að lesa nánar um það hér.