Föstudagur 22. nóvember, 2024
-3.7 C
Reykjavik

„Alltaf erfiðara og erfiðara að fara í burtu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Greta Salóme Stefánsdóttir er óumdeilanlega ein af okkar ástsælustu tónlistarkonum. Hún hefur starfað mikið utan landsteinanna en er nú að flytja sig meira og meira heim. Í einlægu viðtali talar Greta um þörfina fyrir að gera stöðugt betur, ástina í lífi sínu og barneignir.

Í upphafi árs einsetti Greta sér því að flytja heim eftir að hafa starfað að miklum hluta til utanlands. Hún segist sífellt færast nær markmiðinu þrátt fyrir að hafa nú dvalið meirihluta þess sem af er árs utan landsteinanna. „Það er alltaf að komast meira og meira jafnvægi á þetta og í dag segi ég stolt að ég sé alveg flutt heim. Þetta hefur verið frábær tími og skemmtileg tækifæri sem ég er síður en svo hætt að nýta mér þótt ég finni loksins þörfina að vera hér heima.

Það er svo skrítið hvernig hlutirnir skella á manni því skyndilega fannst mér alltaf erfiðara og erfiðara að fara í burtu frá Íslandi.“

Greta byrjaði fjögurra ára að spila á fiðlu og segir hún að þar með hafi framtíðin verið ráðin. Það var svo árið 2014 sem stóra kallið kom en þá hafði umboðsmaður innan Disney-samsteypunnar samband við umboðsskrifstofu Gretu og bauð henni samning.

Þetta var einn skemmtilegasti tölvupóstur lífs míns, þennan mánudagsmorgun í mars.

„Þetta var einn skemmtilegasti tölvupóstur lífs míns, þennan mánudagsmorgun í mars þar sem ég las um áhuga Disney að fá mig til að setja upp sýningu í einu af skipunum þeirra. Ég vissi ekkert hvað ég var að fara út í en áleit að bara það að fá Disney á ferilskrána væri eitthvað sem ég gæti ekki hafnað,“ útskýrir Greta.

Þegar samningur Gretu rann út í nóvember 2014 var henni boðinn svokallaður headliner-samningur og við tók ferli þar sem hún dvaldi í Orlando og vann með leikstjórum, grafískum hönnuðum, dönsurum og fleirum frá Disney. Saman sömdu þau svo stórsýningu sem sýnd hefur verið á Disney Magic-skipinu síðan árið 2015.

„Margir halda að ég sé bara að leika Elsu í Frozen og syngja einhver Disney-lög þarna úti en raunin er allt önnur. Þarna er ég bæði að syngja og dansa, flýg meira að segja og tek mín eigin lög ásamt Disney-lögum. Tónleikasalurinn tekur um tvö þúsund gesti en sýningin er algjörlega háð því að ég sé sjálf á staðnum. Lengsti samningurinn minn var árið 2015 en síðan þá hef ég tekið þátt í sýningunni á hverju ári og í ár verður engin breyting þar á.“

- Auglýsing -

Um ástina og barneignir

Tæp tíu ár eru nú síðan Greta kynntist ástinni í lífi sínu en parið setti upp hringana í byrjun þessa árs. „Ég er svo oft spurð að því hvernig kærastinn minn höndli öll þessi ferðalög mín og hvort þetta sé ekki erfitt fyrir sambandið. Það væri algjör lygi ef ég myndi segja að þetta væri alltaf auðvelt. Við, hins vegar, fáum svo sannarlega ekki ógeð hvort á öðru miðað við alla þessa fjarveru. Ég er svo ótrúlega heppin að eiga mann sem hvetur mig endalaust áfram í því sem ég er að gera og ég tek því ekki sem sjálfsögðum hlut.

Ég held ég hafi hreinlega aldrei hitt jafnduglegan og metnaðarfullan einstakling með jafnmikið jafnaðargeð.

Hann hlær líka stöðugt að öllu ruglinu sem fylgir þessum lífsstíl og brosir bara þegar ég er að henda úr ferðatösku og pakka í aðra á sama tíma og orðin sein í gigg. Hann er einfaldlega einstakur og gerir mér kleift að lifa á þennan hátt. Hann er sjálfur ótrúlega drífandi og vinnur í fyrirtækjafjárfestingum hjá Íslandsbanka. Ég held ég hafi hreinlega aldrei hitt jafnduglegan og metnaðarfullan einstakling með jafnmikið jafnaðargeð og Elvar Þór og ég hef lært rosalega mikið af honum.

- Auglýsing -
Greta prýðir forsíðu nýjasta tölublaðs Vikunnar. Myndina tók Aldís Pálsdóttir.

Þegar talið berst að frekari framtíðaráformum og hugsanlegum barneignum vefjast svörin ögn fyrir Gretu.

„Ég hef ekki tjáð mig um þessi mál opinberlega fyrr enda viðkvæmt málefni, en það er svo ótrúlega oft sem ég heyri setninguna: ,,Þetta breytist allt saman þegar þú eignast börn,“ og þá er fólk að vísa í þennan hraða lífsstíl sem við lifum, sem og ferðalögin. Auðvitað er það rétt að einhverju leyti og ég held að ef ég eignast börn eigi það að sjálfsögðu eftir að verða það mikilvægasta í lífi mínu.“

Þetta er brot úr frábæru viðtali við þessa einstöku konu í nýjustu Vikunni.

Myndir / Aldís Pálsdóttir
Förðun / Björg Alfreðsdóttir, alþjóðlegur förðunarfræðingur Yves Saint Laurent

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -