Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn Almannavarnar, segir útbreiðslu kórónuveirunnar hafa verið hraðari hér á landi og vöxturinn sé hraðari en í fyrri bylgjum faraldursins. Hann á von á því að Ísland endi fljótlega á lista rauðra landa í alþjóðasamfélaginu.
Víðir segir að ráðist verði fljótlega í það að meta hvort grípa þurfti til harðra aðgerða til að sporna gegn hraðri útbreiðslunni. „Maður hefur talsverðar áhyggjur. Við höfum séð að með fjölgun smita líða um sjö til fjórtan eða fimmtán dagar þar til sjúkrahúsinnlögnum fjölgar. Nú vorum við með sjúkrahúsinnlögn í gær, önnur innlögn er yfirvofandi núna og stöðugt fleiri eru að veikjast, “ sagði Víðir í Síðdegisútvarpinu í gær.
Víðir segir að fylgjast þurfi vel með hversu alvarleg veikindi hinna sýktu verða og hvaða viðmið við viljum nýta til þess að taka ákvörðun um að grípa til aðgerða. „Við höfum séð það að harðar aðgerðir í skamman tíma virka best. En nú þurfa menn að liggja yfir þessu næstu daga og sjá. Þetta er hundleiðinlegt. Ég held að við höfum öll verið á þeim stað þegar öllu var aflétt að þetta væri bara búið en staðreyndin er bara önnur,“ segir Víðir.