Símafyrirtækið Nova hefur nú tekið út afmælishringitón hjá sér þar sem Ingó Veðurguð raular, og er nokkurn veginn svona: „Ég fæ einn pakka í dag, ótrúlega margar flottar kveður í dag.“
Þeir sem þekkja fólk sem er með númer hjá Nova kannast líklega þennan lagstúf sem
heyrist þegar hringt er í einhvern á afmælisdegi þeirra; hefur lagstúfurinn verið notaður af Nova árum saman.
Margrét Tryggvadóttir er framkvæmdastjóri Nova og segir hún að „við höfum lengi verið með sama afmælistóninn, sem eftir ábendingar frá fjölmörgum viðskiptavinum var ákveðið að breyta,“ segir Margrét og bætir við:
„Áfram er hægt að nálgast eldri tóna og hver og einn getur valið sinn vinatón.“
Ingó er úti hjá Nova, en mál hans tengt tugum ásökunum um kynferðisofbeldi hefur sett íslenskt samfélag á hliðina undanfarnar vikur; hefur Ingó verið afbókaður nánast alls staðar.
Nú hjá Nova.
Símafyrirtækið býður núna upp á lagið „Afmæli“ með hljómsveitinni Á móti sól, þegar hringt er í afmælisbörn sem eru í viðskiptum við Nova.
Ákvörðun Nova er ekki tekin í einhverjum hálfkæringi enda var lagstúfur Nova farinn að skaða fyrirtækið, því mikill fjöldi viðskiptavina fyrirtækisins mislíkaði að Ingó væri tengdur símafyrirtækinu – vinatónn Ingós þykir ekki vinalegur lengur.
Margrét segir að „við hlustum á okkar viðskiptavini,“ en vill alls ekki meina að Nova sé með þessu að taka afstöðu með eða á móti Ingó „en við viljum tryggja að öllum líði vel á dansgólfinu hjá Nova.“
Heimild: mbl.is