Mál Gylfa Sigurðssonar hefur, eins og flestir vita, vakið gríðarlega athygli hér á Ísland og úti í hinum stóra heimi.
Einn af mörgum leiðinlegum og mannskemmandi kvillum sem hafa komið upp í kringum meint afbrot Gylfa er afar óvægin og ljót umræða í netheimum, en Gylfi hefur ekki verið sakfelldur um eitt né neitt; hann liggur undir grun og lengra nær það ekki.
Í gær og í dag hefur ung stúlka að nafni Chelsea Pardoe verið áreitt af ótalmörgum á samfélagsmiðlum vegna mynda af henni sem hafa gengið manna á milli þar sem hún er sögð vera stúlka sem Gylfi hafi annaðhvort átt í ástarsambandi við þegar hún var ólögráða eða verið áreitt af Gylfa á kynferðislegan hátt.
Þetta er ekki rétt.
Nú hefur áðurnefnd Chelsea sett inn tilkynningu á reikning sinn á Instagram þar sem hún hreinlega biður um grið:
„Ég verð að leiðrétta þetta; taka það skýrt fram að ég er ekki sú stúlka sem tengist máli knattspyrnumannsins Gylfa Sigurðssonar, og bara alls ekkert til í sögusögnum þess efnis, og ég veit ekki einu sinni hver hann er, hef aldrei hitt hann eða talað við hann,“ segir Chelsea og bætir við:
„Ég bið fólk að hætta að áreita mig vegna þessa; hvet fólk til að taka sér tíma í að lesa um málið, til þess að koma í veg fyrir þetta hryllilega áreiti sem ég hef orðið fyrir og það er enn verið að angra mig út af einhverri ógeðslegri lygasögu.“