HönnunarMars fer fram í ellefta sinn dagana 28. – 31. mars 2019 og má þá víða finna fjölbreytta og áhugaverða viðburði. Vikan kynnti sér málið.
The Wanderer – Hildur Yeoman
Fatahönnuðurinn Hildur Yeoman kynnir vor- og sumarlínu sína 2019 í Hafnarhúsinu þann 29.mars. Húsið opnar 19:30 og sýningin byrjar stundvíslega klukkan 20:00. Línan fer strax daginn eftir í sölu.
DesignTalks-ráðstefnan markar upphaf HönnunarMars og þar taka þátt fullt af áhugaverðu fólki. Til dæmis fatahönnuðurinn og brautryðjandinn Katharine Hamnett. Stútfullur dagur af innblæstri fyrir fagfólk sem og áhugafólk um hönnun og arkitektúr. DesignTalks er haldin 28. mars, klukkan 9:00 í Silfurbergi, Hörpu.
Skógarnytjar – Björn Blumenstein
Húsgagnalína úr íslenskum við sem er afrakstur tveggja ára rannsóknarvinnu í samvinnu við helstu skógræktarfélög landsins. Skógarnytjar byggist á sjálfbærni og nýtingu nýrrar auðlindar. Sýningin er haldin milli klukkan 20-22 í Ásmundasal og opnar þann 28.mars.
Now Nordic
Þessi samnorræna sýning er haldin í Hafnarhúsinu og sýnir frá því besta sem er að gerast í norrænni samtímahönnun. Þátttakendur frá Íslandi eru Studíó Flétta, Ragna Ragnarsdóttir, Studio Hanna Whitehead, Hugdetta og 1+1+1, Katrín Ólína, Magnús Ingvar Ágústsson, Brynjar Sigurðsson og Tinna Gunnarsdóttir. Opnar 23.mars.
Meira hér
Plús Eilífð – &Anti matter
Þau Þórey Björk Halldórsdóttir og Baldur Björnsson hjá hönnunarteyminu &AntiMatter eru með skemmtilega sýningu í Gróttuvita á Seltjarnarnesi – þar sem opnunartímar fara eftir flóð og fjöru.
Denim on denim on denim on denim – Studio Flétta og Steinunn Eyja Halldórsdóttir
Hönnunarstúdíóið Flétta, Hrefna Sigurðardóttir og Birta Rós Brynjólfsdóttir, og fatahönnuðurinn Steinunn Eyja taka höndum saman og búa til gólfmottur úr gömlum gallabuxum frá Rauða krossinum. Verkefnið er liður í að vinna gegn textílsóun Íslendinga sem hefur verið mikið til umræðu þessa dagana.
Myndir / Af vef Hönnunarmars