Í gærkvöld var ákveðið að aflýsa hátíðinni Ein með öllu sem átti að fara fram um verslunarmannahelgina í höfuðstað Norðurlands, Akureyri, og er það gert í ljósi hertra samkomutakmarkanna; er þetta annað árið í röð sem hátíðinni er aflýst vegna Covid 19.
Fram kemur í yfirlýsingu sem send var á fjölmiðla frá aðstandendum hátíðarinnar að fáeinir smærri viðburðir sem voru á dagskrá fái að fara fram með fjöldatakmörkunum og hörðum sóttvarnarreglum.
Þess ber að geta að 27 ár eru liðin frá því að Ein með öllu var haldin fyrst, og hátíðin fyrir löngu búin að festa sig í sessi sem ein fjölmennasta, skemmtilegasta og fjölskylduvænasta hátíð Íslands sem haldin er ár hvert um verslunarmannahelgina.
Bæjarstjóri Akureyrar, Ásthildur Sturludóttir var eðlilega svekkt yfir slaufun Einnar með öllu, en segir ákvörðunina hafa verið fyrirséða fyrir nokkru, og er hún uggandi yfir því hversu hratt faraldurinn hefur breiðst út síðustu misserin; eðlilega sé ekki forsvaranlegt að stefna saman þúsundum manna eins og staðan sé nú.