Ragnar Freyr Ingvarsson læknir er ómyrkur í máli í opinni færslu á Facebook síðu sinni í garð íslenskra stjórnvalda.
Ragnar Freyr sem þekktur er sem læknirinn í eldhúsinu segir stjórnvöld hafa brugðist íslensku þjóðinni í tvígang undanfarna mánuði í tengslum við baráttuna við Covid-19 heimsfaraldurinn: „Í fyrsta lagi með því að opna landamæri upp á gátt og leyfa þannig nær óheft innflæði af smituðum en bólusettum einstaklingum. Sóttvarnarlæknir hefur sagt í fjölmiðlum að við þessu hefði mátt búast“ Segir Ragnar Freyr og bætir svo við: „Í öðru lagi, og mun alvarlegra, er að hafa vanrækt að efla Landspítala til að takast á við þessa bylgju. Til þess hafa þau haft marga mánuði. Mönnun hefur verið einstaklega bágborin í sumar, ráðningar afleysingafólks takmarkað, fjöldi legurýma lokað bæði á almennum deildum og gjörgæsludeild“.
Þá segir Ragnar að fjölmiðlar hafi ekki veitt því sérstaka eftirtekt hve fá smit þurfti til þess að spítalinn færi á hættustig en einungis þurfti þrjár innlagnir til þess. „Þrjár innlagnir! Hættustig!“ segir hann að endingu í færslu sinni.