Hildur Grímsdóttir er rúmlega þrítugur sjúkraþjálfari og varð ófrísk að sínu þriðja barni í lok 2018. Hún átti fyrir tvo syni og var þetta fyrsta barn sem hún átti von á með eiginmanni sínum, Elíasi Erni Einarssyni.
„Ég fór í snemmsónar þegar ég var komin sjö vikur á leið og þá fannst enginn hjartsláttur og var haldið að um dulið fósturlát væri að ræða. Það var svo staðfest rúmri viku síðar og fékk ég lyfið Cytotek; þetta eru töflur sem ég tók til að hreinsa legið. Þegar ég kom svo í skoðun 10 dögum síðar til að athuga hvort allt hefði hreinsast þá kom í ljós að fóstrið var lifandi. Þá áttum við allt í einu aftur von á barni þegar við héldum að við værum búin að missa það. Það var mikill rússíbani.
Við leyfðum okkur að hlakka til eftir 16 vikna skoðun en þá slepptum við aðeins takinu af hræðslunni eftir allt sem á undan var gengið. Það fór síðan að blæða í einn dag um fjórum vikum síðar og viku síðar kom legvatnsleki í ljós. Það var annar skellur. Þá var ég komin 21 viku. Þá upplifði ég eins og ég væri að missa hann aftur. Svo var ég upplýst um að það yrði ekki endilega raunin en ástandið virtist samt vera alvarlegt og hættulegt fyrir mig upp á sýkingu að gera en þótt reynt hafi verið að halda lífi í barninu þá var ég númer eitt ef ég myndi sýkjast og þá hefði þurft að taka barnið og bjarga mér.“
Enginn hjartsláttur
Hildur fékk að fara heim af spítalanum en átti að taka það rólega heima.
„Það var fyrir það fyrsta verið að reyna að ná lífvænlegum tíma; 23 vikum. Safna dögum og vikum. Hver dagur er svo mikilvægur á þessum tíma. Og við lifðum í voninni.
Maður trúði því að þetta myndi allt fara vel.
Ég fór svo í skoðun þegar ég var komin 25 vikur og þá kom í ljós að hann var orðinn vaxtarskertur. Ég fór að sofa um kvöldið með vonda tilfinningu og mér leið eins þegar ég vaknaði morguninn eftir. Ég var með svo lítið af legvatni að barnið gat eiginlega ekki hreyft sig. Ég fann engar hreyfingar. Ég fór reglulega að láta hlusta á hjartsláttinn hans en ég varð að vita hvort hann væri á lífi. Ég fór á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi þennan örlagaríka dag en ljósmóðir þar fann engan hjartslátt. Það var allt búið að vera svo dramatískt að ég trúði því að það yrði hægt að finna hjartsláttinn öðruvísi. Ljósmóðirin sagði að það væri best ef ég færi í sónar. Ég fór því til Reykjavíkur í frekari skoðun.“
Enginn hjartsláttur kom í ljós í sónarnum og fæðingarlæknir staðfesti að fóstrið væri látið.
„Þá kom skellurinn; þarna var ég alveg búin að missa hann.“
Ákveðið ferli fór í gang. Hildi og Elíasi var boðið að fara heim og koma aftur um kvöldið til að fara í gangsetningu en þau völdu að fara beint upp á fæðingarstofu þar sem þau búa á Selfossi.
„Við vorum mjög vel upplýst. Við hittum síðan sjúkrahúsprest. Hvorugt okkar er þannig lagað trúað en hún var mikil sáluhjálp og yndisleg.“
Teknar voru blóðprufur og síðan fékk Hildur töflu til að koma fæðingunni af stað. Þetta var á miðvikudagskvöldi. Það ferli gekk hægt fyrir sig og fékk hún töflur reglulega á fimmtudeginum og fæddist andvana sonur þeirra hjóna á föstudeginum eftir rúmlega 25 vikna meðgöngu.
Móðir Hildar er ljósmóðir og tók hún á móti litla drengnum.
„Hún hafði tekið á móti eldri strákunum mínum en þarna ætlaði hún ekki að taka á móti heldur styðja okkur og vera bara mamma mín og amma sem væri að syrgja barnabarnið sitt. En þar sem ferlið tók svo langan tíma þá fannst henni vera út í hött að taka ekki á móti honum og þá var hún tilbúin til þess. Það var hugsað mjög vel um mig á fæðingardeildinni. Við vorum í sérherbergi og var maðurinn minn hjá mér allan tímann.“
Gleym-mér-ei
Búið var að undirbúa foreldrana undir komu andvana sonar þeirra.
„Það var búið að tala um við okkur hvað hann væri lítill og hvernig hann væri frábrugðinn fullvaxta barni sem og lifandi barni til að reyna að minnka sjokkið þegar við fengjum hann svo í hendurnar. Hann var látinn á magann á mér eftir að hann fæddist og við skoðuðum hann vel og svo tók ljósmyndari á vegum sjúkrahússins myndir af honum.“
Sjúkrahúsprestur heimsótti hjónin aftur og nánasta fjölskylda kom upp á fæðingardeild og haldin var kveðjustund. Litli andvana drengurinn fékk nafnið Hergeir Þór.
„Þetta er sterkt nafn fyrir svona litla hetju sem hafði farið í gegnum þessa meðgöngu.“
Kælivagga á vegum styrktarfélagsins Gleym mér ei var á sjúkrastofunni og segir Hildur að þau hjónin hafi fengið að vera þar með andvana son sinn í vöggunni eins lengi og þau vildu og voru þau þar í tvær nætur eftir að hann kom í heiminn; blóðmissir hafði líka sitt að segja hvað seinni nóttina varðar. Gleym mér ei gaf þeim minningarkassa þar sem voru meðal annars litlir bangsar, armbönd, kertastjaki og minningarbók.
„Það var ómetanlegt að geta haft hann svona lengi hjá okkur því við vissum að við værum svo að fara að kveðja hann og að við færum af fæðingardeildinni án þess að taka hann með.“
Hjónin skipulögðu síðan útför litla drengsins síns og viku síðar var haldin útför þar sem söngkona og píanóleikari sáu um tónlistina. Lítla kistan stóð við altarið. Lögin sem voru sungin og spiluð: Maísól, en hann kom andvana í þennan heim í vormánuðinum maí, Snert hörpu mína, Ást, Heyr mína bæn og Imagine.
Litli drengurinn var síðan jarðsettur í gröf föðurömmu sinnar.
Sorgarferlið
Sorgin
„Það má líkja þessu við að maður sé eins og með símahleðslu og er bara straujaður. Það var tekin úr manni líkamleg og andleg orka. Við stóðum í flutningum á þessum tíma og fluttum daginn eftir jarðarförina. Það var merkilega mikil hjálp að vera með þetta verkefni að vera að flytja í fyrstu sameiginlegu eignina okkar. Það var svo góð tilfinning að kveðja íbúðina þar sem ég hafði legið veik og ekki mátt reyna á mig. Við hófum nýjan kafla í nýja húsinu okkar.
Við fengum sitt hvort þriggja mánaða fæðingarorlofið og við unnum í garðinum um sumarið og byggðum okkur upp á ný. Við eyddum tímanum með strákunum og gerðum heilmikið. Við töluðum mikið um missinn og ég var líka opin á samfélagsmiðlum. Það var að mörgu leyti mikil hjálp að vera opin um þetta og tala um þetta við fjölskyldu og vini. Við vorum heppin en við fengum endalaust heimsóknir og fólk kom með falleg blóm eða mat þannig að við vorum vel nærð af ást og umhyggju.“
Hildur ákvað að skipta um starfsvettvang og fór að vinna á þeirri deild Landspítalans þar sem hún hafði legið í þessu ferli. Hún segir að það hafi hjálpað sér.
„Það gaf mér eitthvað að geta gefið. Mér er hætt að líða þar illa. Það er ekki allra að geta gert þetta svona. En þetta var mín leið. Ég sneri þessu bara við.“
Hún ber sig vel en hún er beðin um að lýsa sorginni meira.
„Suma daga er maður alveg bensínlaus. Andlaus; það kemur þó sjaldnar fyrir í dag. Ég varð mjög veik á meðgöngunni og þurfti að byggja mig upp andlega og líkamlega. Ég skrifaði mig stundum út úr sorginni og stundum á samfélagsmiðlum. Og ég talaði mikið við manninn minn, ættingja og vini. Stundum langaði mig ekki út úr húsi. Ég er félagslynd í eðli mínu en það má segja að ég hafi á tímabili eftir þetta verið félagsfælin af því að ég hafði ekki úthald í að vera innan um annað fólk. Ég valdi mér fólk sem ég vildi umgangast. Mér fannst vera langbest að vera með fjölskyldunni.
Það eru ákveðin stig sem maður fer í gegnum í sorgarferlinu og maður dvelur mislengi í þeim.
Það er svo mikilvægt að fá hjálpina til að halda áfram í ferlinu og festast ekki á einhverjum stað af því að þetta er úrvinnsla. Þetta verður ekki tekið frá manni. Maður verður að lifa með þessu og finna tilgang lífsins.“
Gleði og sorg
Reynt var að komast að ástæðu fósturmissisins. Teknar voru fleiri blóðprufur af Hildi en venjulega er gert á meðgöngu og kom í ljós að hún var sýkt af veirunni Toxoplasmosis sem getur meðal annars smitast af dýrum eða mat. Hildur segir að sýkingin sé sjaldgæf hér á landi. Veiran hefur slæm áhrif á fóstur.
Hvað með lyfið sem Hildur fékk til að hreinsa út legið eftir snemmsónar?
„Ég var alltaf með áhyggjur af áhrifum þess. Það gat enginn sagt af eða á um hvort það gæti hafa haft áhrif á fóstrið eða það vildi enginn viðurkenna það. Það voru læknamistök að mér voru gefin þessi lyf. Það leið ekki nógu langur tími á milli skoðana. Ég ákvað samt að gera ekkert í þessu; það hefði tekið orku frá mér og ég fann ekki hjá mér þörf að fara í hart við sjúkrahúsið. Ég veit að þetta var atvikaskráð á sjúkrahúsinu.“
Sýni voru tekin úr litla líkamanum og send vestur um haf og lá niðurstaðan fyrir fimm mánuðum síðar.
„Það kom í ljós að drengurinn var með heilkenni og hann hefði mjög ólíklega lifað af vegna þess. Mín hugsun er að hann dó á besta staðnum. Hann hefði ekki átt gott líf. Hann hefði verið mjög veikur ef hann hefði lifað. Þannig að ég hef að einhverju leyti sætt mig við hvernig fór af því að hann hefði orðið svo veikur.“
Hildur viðurkennir að þessi reynsla hafi þroskað sig. „Ég lít núna allt öðrum augum á svo marga hluti og mér finnst margt ekki skipta máli sem öðrum finnst skipta máli.
Ég hef lært að njóta lífsins og lifa lífinu.
Ég vil ekkert „bullshit“.“
Hildur og maðurinn hennar eignuðust annan son í mars á þessu ári. Hjalið í fjögurra mánaða gömlum snáðanum er eins og undirleikur við viðtalið. Hildur var í áhættumæðravernd og fór oftar í skoðun en ella og segir að hún hafi farið að slaka á þegar meðgangan var hálfnuð.
„Það er stutt á milli gleði og sorgar og maður verður að læra að burðast með sorgina í gleðinni og finna gleðina í sorginni.“