Rut Sigurðardóttir, nemandi í Menntaskólanum við Hamrahlíð, er afar ósátt við svör og vinnubrögð Heimsferða. Hún er einn skipuleggjenda útskriftarferðar skólans til Krítar sem ferðaskrifstofan neitar að fella niður þrátt fyrir gríska eyjan sé komin á kort rauðra landa þegar kemur að smitfjölda vegna Covid-19.
Rut óskar eftir liðsinni foreldra nemanda við skólann til að hjálpa þeim í baráttunni við Heimsferðir. Neyðarkallið sendi hún út á hópi foreldra og forráðamanna MH á Facebook:
„Hæhæ, ég ætlaði að heyra í foreldrum hér varðandi útskriftarferðina okkar til Krítar. Ég er ein af þeim sem skipulegg ferðina. Ég hef farið fram á fund með heimsferðum til þess að ræða stöðuna og reyna að fá þau til þess að aflýsa ferðinni þar sem Krít er orðin dökk rauð. MR á að vera í sömu ferð og við og þau funduðu með heimsferðum í gærkvöldi. Heimsferðir virðast ekki ætla að hætta við ferðina þrátt fyrir ástandið þarna úti,“ segir Rut og bætir við:
„Okkur datt í hug að fá foreldra með okkur í lið og væri fínt ef einhver sem hefur kynnt sér vel stöðuna úti geti komið á fundinn með okkur. Þeir sem geta aðstoðað okkur mega endilega hafa samband Við mig í skilaboðum.“
Rut segir að nemendur Menntaskólans í Reykjavík séu í sömu stöðu hjá ferðaskrifstofunni og birtir svör Heimsferða við útskriftarferðinni þeirra. Þar kemur fram að ferðin verði farin og þeir sem vilji hætta við geti fengið 25 prósent af fargjaldinu endurgreitt. Ef einhverjir nemendur greinast smitaðist við brottför frá Krít, segjast Heimsferðir geta reddað þeim fari síðar til Íslands en fyrir það þurfi að borga sérstaklega.