Föstudagur 22. nóvember, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Hin íslenska Miss Marple tekur frummyndinni fram

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Hún Edda á Birkimelnum, söguhetjan í Eddubókum Jónínu Leósdóttur, hefur unnið hugi og hjörtu íslenskra lesenda með vasklegri framgöngu við lausn sakamála, óseðjandi forvitni og hressilega hreinskilnislegum skoðunum á hinu og þessu í samfélaginu.

Hún er eiginlega frekar óþolandi persóna sem lesendur myndu kannski forðast ef hún væri raunveruleg en sem sögupersóna hittir hún í mark og minnir um margt á eina ástsælustu persónu glæpabókmenntanna, hina hnýsnu slettireku Miss Marple sem Agatha Christie gerði ódauðlega í hverri metsölubókinni af annarri á síðustu öld. Það er eitthvað við þessar afskiptasömu eldri dömur sem er einfaldlega ómótstæðilegt.

Í einni bókinni um Eddu ásakar Snorri, hinn önuglyndi sonur hennar, hana um að vera haldin „Miss Marple-komplex“ og hann hefur ýmislegt til síns máls. Eins og Miss Marple er Edda bráðskörp, hefur óþrjótandi áhuga á umhverfi sínu og öðru fólki og er glúrin við að finna þræðina sem leiða til þess að glæpamaðurinn finnst. Edda er hins vegar auðvitað mun nútímalegri persóna en Miss Marple, enda kom sú góða kona fyrst fram á sjónarsviðið árið 1927 og er skilgetið afkvæmi síns tíma. Í fyrstu bókinni, Morðið á prestsetrinu, er hún reyndar hvorki vinsæl né aðdáunarverð persóna, mikil slúðurkerling með nefið ofan í hvers manns koppi, smjattandi á óförum annarra og lesendur voru frekar ósáttir við hana en Agatha Christie gerði hana viðkunnanlegri í seinni bókum og það endaði auðvitað með því að lesendur voru farnir að elska og dá þessa gömlu piparjúnku sem endalaust skipti sér af lífi annarra.

„Ekki svo að skilja að Edda taki meðvitaða ákvörðun um það að gerast einhver Miss Marple, forvitni hennar og löngun til að hjálpa náunganum leiða hana óvart út á þessa braut og eftir fyrsta málið verður ekki aftur snúið. Hún verður að leysa gáturnar.“

Miss Marple hefur aldrei unnið utan heimilis, og reyndar varla innan heimilis heldur, þar sem hún hefur alltaf þjónustustúlkur á heimilinu, en Edda er hins vegar fyrrverandi verslunarstjóri bókabúðar og fullkomlega fær um að sjá um sig sjálf. Í fyrstu bókinni, Konan í blokkinni, er hún nýkomin á eftirlaun og pínulítið áttavillt í tilverunni, verandi íðilhress kona á besta aldri þarf hún augljóslega á því að halda að finna lífi sínu tilgang og fylla dagana af einhverju áhugaverðu og þar koma sakamálin til sögunnar. Ekki svo að skilja að Edda taki meðvitaða ákvörðun um það að gerast einhver Miss Marple, forvitni hennar og löngun til að hjálpa náunganum leiða hana óvart út á þessa braut og eftir fyrsta málið verður ekki aftur snúið. Hún verður að leysa gáturnar.

Kafað í samfélagið

Þrátt fyrir ýmis líkindi þeirra stallsystra Eddu og Jane Marple er þó miklu fleira sem er ólíkt með þeim, sérstaklega í einkalífi þeirra og aðstæðum. Jane Marple hefur aldrei gifst, á engin börn né nána ættingja og virðist verja meirihlutanum af lífi sínu í heimsóknum hjá fólki sem hún þekkir mismikið. Edda, hins vegar, á hjónaband að baki, hún á tvö börn, tvo tengdasyni og tvö barnabörn og stærðarinnar tengslanet.

Hún er vön því að bjarga sér sjálf og þótt samskiptin við börnin séu svona upp og niður eru þau þó snar þáttur í lífi hennar og engan veginn hægt að segja að hún sé ein í lífsbaráttunni. Ein skemmtilegasta aukapersóna bókanna er svo tengdasonurinn Viktor, en hann og Edda eru miklir vinir og hittast oft til að slúðra og drekka rauðvín saman. Samræður þeirra eru oft stórskemmtilegar og sýna hlið á Eddu sem hún birtir ekki oft í samskiptum við aðra.

- Auglýsing -

Það sem bókaflokkarnir um Eddu og Miss Marple eiga þó enn frekar sameiginlegt en líkindin milli aðalpersónanna, er að höfundarnir eru miklir mannþekkjarar og sögur persónanna sem blandast í málin sem þær stöllur leysa eru djúpar og vel byggðar.

Ólíkt því sem oft gerist í glæpasögum fáum við að kynnast þeim sem viðkomandi glæpir snerta mest og um leið verða sögurnar samfélagsrýni sem skiptir máli, ekki bara einfaldar morðgátur sem öll frásögnin gengur út á að leysa.

Jónína Leósdóttir hefur í bókum sínum um Eddu tekið fyrir ýmis mál sem eru áberandi í samfélagsumræðunni og í nýjustu bókinni, Barnið sem hrópaði í hljóði, er meginþemað heimilisofbeldi og þá ekki síst áhrif þess á börn að alast upp við slíkt.

- Auglýsing -

Óhemju sterkir kaflar eru sagðir í fyrstu persónu af barni sem horfir upp á föður sinn misþyrma móður sinni og það er hjartalaus manneskja sem ekki verður djúpt snortin af þeim lestri. Í bókinni er sjónum einnig beint að hlutskipti trans barna í íslensku samfélagi og sú saga er ekki síður hugvekjandi. Því þótt yfirbragð bókanna um Eddu sé léttleikandi og oft og tíðum drepfyndið þá er hér samt tekist á við alvarleg samfélagsmein með afgerandi hætti og lesandinn neyddur til að horfast í augu við ýmislegt óþægilegt sem oft er sópað undir teppi. Og það án þess að nokkurs staðar örli á predikun eða tilraunum til að troða boðskapnum upp á lesandann. Þetta er skemmtilestur með grafalvarlegum undirtóni.

„Í einni bókinni um Eddu ásakar Snorri, hinn önuglyndi sonur hennar, hana um að vera haldna „Miss Marple-komplex“ og hann hefur ýmislegt til síns máls. Eins og Miss Marple er Edda bráðskörp, hefur óþrjótandi áhuga á umhverfi sínu og öðru fólki og er glúrin við að finna þræðina sem leiða til þess að glæpamaðurinn finnst.“

Jónína hefur gefið það í skyn að næsta bók um Eddu verði sú síðasta í bókaflokknum en aðdáendur Eddu eru síður en svo sáttir við það. Okkur finnst eiginlega lágmark að Edda fái tólf bækur um sig eins og Miss Marple vinkona hennar og að við fáum að fylgjast með henni eldast. Það væri ekki sanngjarnt að láta okkur elska hana meira með hverri bók og taka hana síðan frá okkur. Við þurfum okkar árlega Edduskammt. Hún er nefnilega skuggalega ávanabindandi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -