Lífsreynslusaga úr Vikunni:
Mörgum árum eftir skilnað foreldra minna áttaði ég mig á því að mömmu hafði nánast tekist að eyðileggja samband mitt við pabba.
Ég var fimm ára þegar foreldrar mínir skildu. Þau voru mjög ólík á allan hátt, ég skil eiginlega ekki hvernig þau náðu saman á sínum tíma.
Mamma fór að læra hjúkrun þegar ég var tveggja ára og hefur alla tíð unnið við það. Pabbi er mikill bíladellukarl og alla tíð, fyrir utan nokkur ár úti á sjó, hefur hann unnið á hinum ýmsu verkstæðum. Hann er listamaður á sínu sviði og hefur gert upp marga bíla og þótt hann sé ekki lærður bifvélavirki er hann eftirsóttur starfsmaður. Mamma vildi að hann menntaði sig og þau rifust mikið um það. Síðar kom í ljós að pabbi er lesblindur og það hafði mikið dregið úr honum því hann hélt að hann væri of heimskur til að geta lært.
Einn og einn bíltúr
Eftir um það bil tvö ár kynntist mamma góðum manni sem hún giftist. Hann var og er frábær og þótt ég kallaði hann ekki pabba, var hann mér eins og besti faðir. Þau mamma eignuðust saman þrjú börn á næstu árum.
Pabbi fór á sjóinn eftir skilnaðinn og var sjómaður í tvö eða þrjú ár. Enginn samningur var gerður um umgengni en líklega var þögult samkomulag um að hann hitti mig þegar hann gæti. Hann bjó hjá foreldrum sínum úti á landi á meðan hann safnaði sér fyrir eigin íbúð og sótti sjóinn þaðan.
Pabbi bauð mér stöku sinnum í bíltúr þegar hann kom í land og ég man að mér þótti mjög gaman að hitta hann. Það kom einhvern veginn aldrei til greina að ég gisti hjá honum. Þegar pabbi var síðan fluttur í eigin íbúð í Reykjavík var engin hefð fyrir að ég gisti og þar fyrir utan langaði mig ekki til þess.
Mamma var alltaf leiðinleg við pabba þegar hann hringdi. Svo tautaði hún eitthvað eins og hún vorkenndi mér að þurfa að hitta hann. „Pabbi þinn hafði samband. Nennirðu að hitta hann á þriðudaginn eftir skóla?“ spurði hún kannski ef ég var ekki heima þegar hann hringdi. Svo er ég viss um að ég hef ekki fengið að vita af öllum skiptunum sem hann hringdi.
„Mamma var alltaf leiðinleg við pabba þegar hann hringdi. Svo tautaði hún eitthvað eins og hún vorkenndi mér að þurfa að hitta hann.“
Þetta síaðist inn og smám saman dró úr tilhlökkun minni að vera með pabba. Stundum sagðist ég frekar vilja leika mér við vinkonurnar en fara í bíltúr með honum og ég held að það hafi glatt mömmu.
Þótt mamma segði aldrei beint við mig að pabbi væri asni eða aumingi, fann ég alltaf vel fyrir pirringi og fyrirlitningu hennar í hans garð. Ég man að amma, mamma hennar, sagði stundum: „Láttu barnið ekki heyra til þín,“ ef hún var viðstödd og heyrði eitthvað.
Á unglingsárunum var pabbi í mínum huga einhver maður sem átti að heita pabbi minn en átti það varla skilið. Mér þótti vænt um hann á vissan hátt en vildi samt sem minnst af honum vita. Hann bjó með konu sem átti tvö börn fyrir og saman eignuðust þau tvö í viðbót. Ég hitti konuna nokkrum sinnum, hún var ósköp indæl og litlu hálfsystkini mín mikil krútt en ég leit ekki á þetta fólk sem hluta af fjölskyldu minni.
Fallegur greiði eða smjaður?
Þótt mamma hafi oft verið eitruð í orðum gagnvart pabba, get ég ekki kennt henni alfarið um sambandsleysið við pabba. Hann var sjálfur svolítið óframfærinn og hefur eflaust fundið straumana frá okkur mömmu því ég var örugglega orðin kuldaleg og oft fúl við hann strax í kringum tíu, ellefu ára aldurinn. Óafvitandi kenndi ég honum um hversu sjaldan við hittumst.
Ég var orðin sautján ára þegar ég vaknaði loks til vitundar um þann ljóta leik sem mamma hafði leikið …
Mamma og stjúpi minn höfðu gefið mér gamlan en góðan bíl sem skemmdist illa nokkrum mánuðum seinna þegar ég lenti í árekstri. Ökumaðurinn sem kom á móti mér var annars hugar, eflaust í símanum, og bíll hans rásaði yfir á minn vegarhelming. Enginn slasaðist, sem betur fer, líklega vegna þess að ég hafði séð í hvað stefndi og var nánast búin að stöðva bílinn þegar áreksturinn varð, hinn var ekki á mikilli ferð.
Pabbi frétti af þessu og hringdi í mig. Hann fullvissaði sig um að allt væri í lagi hjá mér og bauðst til að lána mér ágætan bíl sem ég mætti hafa eins lengi og ég vildi. Ég þáði það og þegar ég sagði mömmu frá því gretti hún sig og sagði: „Á nú að fara að smjaðra fyrir þér?“ Ég yppti öxlum og sagði að það hlyti að vera. Ég fæ enn sting í magann þegar ég hugsa um þetta.
Pabbi kom með bílinn og ég þakkaði honum fyrir. Ég man að mér fannst þetta sjálfsagt, eins og hann hreinlega skuldaði mér þetta fyrir að vera svona lélegur faðir …
Augun opnast
Ég heimsótti ömmu ekki svo löngu seinna, móðurömmu mína sem ég hafði verið mikið hjá í gegnum tíðina. Hún er hrein og bein manneskja sem kenndi mér að búa til bestu pönnukökur í heimi.
Ég sagði ömmu frá því að pabbi hefði lánað mér bíl og bætti hæðnislega við: „Hann er eitthvað að reyna að smjaðra fyrir mér.“
Ég vissi ekki hvert amma ætlaði. Hún skipaði mér að setjast niður og síðan las hún þvílíkt yfir mér á meðan ég sat eins og lömuð. Amma sagðist ekki hafa viljað skipta sér of mikið af því hvernig mamma talaði um sinn fyrrverandi en hana hefði ekki grunað að það hefði haft svona mikil áhrif á mig. Pabbi væri einstaklega góður maður og að þau mamma hefðu bara ekki átt vel saman. Það væri engin afsökun fyrir því að mamma talaði eins og hún gerði. Amma sagði að pabbi hefði saknað mín mikið en mamma reynt að vernda mig fyrir honum eins og hann væri eitthvert skrímsli. Fyrst eftir skilnaðinn hefði pabbi stundum komið í kaffi til hennar til að tala um mig og aldrei hefði hann sagt hnjóðsyrði um mömmu.
Fyrstu viðbrögð mín voru reiði en amma sagði að ég yrði að reyna að skilja mömmu. Hún hefði verið svekkt út í pabba og ekki fundist hann eiga skilið að vera í miklum samskiptum við barn sitt. Fyrstu árin eftir skilnaðinn drakk hann nokkrum sinnum í sig kjark til að hringja í mömmu og biðja um meiri umgengni við mig. Mamma hefði dæmt hann eftir þessum símtölum og viljað vernda mig fyrir honum en þetta hafi gengið allt of langt hjá henni. Það hefði orðið að vana hjá henni að tala um pabba af fyrirlitningu. Amma hefði ekki almennilega áttað sig á þessu fyrr en þennan dag hve mikil áhrif það hefði haft á mig.
„Öll ástin til pabba sem ég hafði ómeðvitað bælt niður kom til baka, enn sterkari en áður.“
Á tímabili reyndi pabbi mikið til að fá meiri umgengni við mig og ætlaði í hart. Hann var kominn með lögfræðing í málið en svo gugnaði hann vegna þess að hann vildi ekki koma lífi mínu í uppnám. Ég fékk tár í augun þegar amma sagði mér frá þessu og fannst ég hafa verið svikin. Öll ástin til pabba sem ég hafði ómeðvitað bælt niður kom til baka, enn sterkari en áður. Ég vildi að við amma hefðum átt þetta samtal löngu fyrr.
Góðar breytingar
Mér fannst ég ekki geta ráðist á mömmu og skammað hana en hún hefur ekki dirfst að segja neitt ljótt um pabba í mín eyru síðan amma talaði við mig. Það var miklu mikilvægara að efla sambandið við pabba en rífast í mömmu. Víst varð ég stundum fúl út í mömmu út af þessu og lét hana heyra það en ég skammaði pabba líka fyrir að hafa ekki reynt betur. „Ég vildi ekki pína þig til að hitta mig,“ svaraði hann bara.
Við pabbi erum í miklu og góðu sambandi. Við höfum haft fimmtán góð ár til að bæta upp glataðan tíma. Á meðan amma lifði minnti ég hana reglulega á að það væri henni að þakka hvað allt hefði breyst til góðs. Hún gladdist mikið yfir þessu en mamma virðist ekki sérlega sátt. Álit hennar á pabba hefur lítið breyst.
Ég gifti mig og eignaðist tvo stráka með manninum mínum. Við skildum en höfum drengjanna vegna reynt að halda samkomulaginu góðu þótt við séum ekki alltaf sátt hvort við annað. Hann hélt fram hjá mér og ég man að ég var svo reið að mér fannst hann ekki eiga skilið að umgangast drengina okkar en sú hugsun stóð þó ekki lengi.
Strákarnir búa hjá mér en hitta pabba sinn oft og mikið. Þeir dýrka hann og dá og ég mun aldrei segja neitt til að skemma það.
Ég get ekki skilið hvað mömmu gekk til á sínum tíma að koma í veg fyrir að við pabbi ættum góð samskipti. Hún fer í mikla vörn ef ég reyni að ræða það við hana. Ég held að verndarhvöt hafi fyrst og fremst ráðið ferðinni hjá henni en örugglega vottur af eigingirni og hefndarlöngun, líka ákveðið þroskaleysi. Ég get ekki erft þetta við hana, hún þjáist víst nóg yfir því að þurfa að vera í sömu barnaafmælum og pabbi og að vita hversu gott og náið samband ég á við hann.