Lífsreynslusaga úr Vikunni:
Ég tilheyri stórum vinahópi sem hefur haldið saman lengi. Fimm okkar kynntust fyrst í barnaskóla en svo bættust við kærastar, kærustur og vinir vina þar til hópurinn þéttist og varð að þeim kjarna sem nú myndar hópinn. Mér hefur alltaf liðið vel með þessu fólki eða þar til síðastliðið ár. Þá byrjaði ein úr hópnum að gera stöðugt lítið úr mér fyrir framan hina og nú finnst mér ég ekki vita hvar ég hef neinn.
Í raun byrjaði þetta mun fyrr. Þegar ég hugsa til baka var hún alltaf að skjóta á mig en ég hló bara og svaraði henni. Hin hlustuðu ekki á hana og ég fann að ég hafði sterkari stöðu en hún innan hópsins. Mér hefur alltaf gengið vel bæði í skóla og vinnu en í fyrir um það bil einu og hálfu ári lenti ég í áfalli þegar mér var óvænt sagt upp vinnunni. Þetta kom mér mjög á óvart en ástæðan sem gefin var upp var skipulagsbreytingar. Ég leitaði mikið til minnar bestu vinkonu á þessum tíma en hún er nátengd þeirri sem hefur sýnt mér þessa leiðinlegu hegðun. Kannski var það kveikjan að þessum leiðindum.
Ég fékk aðra vinnu og náði mér smátt og smátt aftur á strik. Við hittumst oft og borðum saman þessi hópur minn og fljótlega fór ég að taka eftir að í hvert skipti sem ég sagði eitthvað greip þessi vinkona, Elsa, fram í ýmist til að bera á móti því sem ég sagði eða hreinlega talaði yfir mig eins og ég hefði ekki sagt neitt. Ef hún sá nokkuð færi á því gerði hún grín að einhverju í mínu fari eða útliti mínu.
Ég svaraði henni fáu til að byrja með en þegar þetta ágerðist fór ég að svara fullum hálsi. Sjaldnast nennti ég þó að eltast við leiðinleg fram í grip hennar og barnalegar tilraunir til að gera lítið úr mér. Svo fór mér að finnast þau hin taka upp hennar siði.
Enginn vill taka afstöðu
Kannski verður umkvörtunarefni mínu best lýst með því að segja frá matarboði fyrir tveimur vikum. Við komum saman heima hjá einum af strákunum og ég fór að segja fyndna sögu af samstarfsmanni mínum. Ég var ekki komin langt þegar Elsa byrjaði skyndilega að tala. Hún fór að lýsa aksturslagi einhvers bílstjóra sem hún hafði mætt á leiðinni og þegar ég reyndi að halda áfram hækkaði hún róminn. Þeir sem næstir okkur stóðu sneru sér að henni, hlustuðu á það sem hún sagði og hlógu með henni.
Ég gekk í burtu og settist hjá nokkrum öðrum og við spjölluðum góða stund.
Rétt áður en við stóðum upp til að ganga að matarborðinu nefndi ein af stelpunum bók sem hún var að lesa og fannst góð. Ég hafði lesið hana líka og sagði að mér hefði þótt endirinn óvenjulega góður og rakti hvernig ég túlkaði hann. Elsa kallaði þá yfir stofuna: „Nei, þetta er ekki rétt. Það var alveg augljóst að þetta fór á allt annan veg.“
Konurnar sem ég hafði verið að tala við ypptu öxlum og löbbuðu burtu. Annaðhvort hafa þær ekki nennt að standa í þrætum eða fundist ég hafa sagt eitthvað heimskulegt.
Svona gekk þetta allt kvöldið og mér var farið að líða mjög illa. Ég fór snemma heim og hef ekki hitt hópinn minn síðan. Í raun var ég farin að velta fyrir mér hvort ég ætti heima í þessum hópi. Ég hringdi í bestu vinkonuna eftir þetta kvöld og ræddi við hana um upplifun mína. Hún hafði ekki tekið eftir neinu, sagði hún en lofaði að hafa augu og eyru opin næst þegar við kæmum saman. Ég talaði líka við aðra úr hópnum, sumir höfðu orðið varir við þessa togstreitu milli mín og Elsu en sögðu að þeir vildu ekki blanda sér í málið vildu vera vinir okkar beggja. Þeir hvöttu mig til að ræða við Elsu og athuga hvort við gætum ekki fundið lausn. Ég gerði það en hún lést koma af fjöllum og alls ekki skilja hvað ég væri að fara. Skildi bara alls ekki hversu ofurviðkvæm ég væri.
Þannig standa málin núna, í einhverri pattstöðu og ég sé enga leið út. Í aðra röndina finnst mér ósanngjarnt að ég hrekist í burtu vegna leiðinda stæla í einni manneskju og finnst það ekki góðir vinir sem ekki eru tilbúnir að taka á einelti í sínum hópi.