Það glittir í gamla tíma ef marka má orð framkvæmdastjóra Circle Air á Akureyri, Þorvaldar Lúðvíks Sigurjónssonar.
Hann segir að flugvöllurinn á Akureyri sé um þessar mundir nánast stútfullur af einkaþotum.
Árið 2007 var að hringja og vill fá einkaþoturnar aftur.
Þorvaldur segir að flestar einkaþoturnar séu í eigu Bandaríkjamanna og Breta og ekki er ólíklegt að auðkýfingarnir séu til Akureyrar flognir á einkaþotum sínum til að veiða í íslenskum ám.
Einnig bendir Þorvaldur á að nú sé svo komið fyrir innviðum í flugsamgöngum hér á landi að farþegaþotur þurfi að vera með aukaeldsneyti á tönkum sínum; ef sú staða kæmi upp að ekki sé hægt að lenda á Keflavíkurflugvelli.
Þorvaldur segir að vanalega sé flugvélum þá beint norður til Akureyrar eða austur til Egilsstaða: En nú staðan afar erfið því á Egilsstöðum standa yfir malbikunarframkvæmdir og í höfuðstað Norðurlands, Akureyri, sé einfaldlega ekki pláss handa öllum þotunum; því þurfa farþegaþotur að lenda í Skotlandi í neyðartilvikum.
„Menn hafa verið að tala um að það þurfi ekkert að fara í framkvæmdir á flugvöllum úti á landi, það held ég nú síður,“ segir Þorvaldur og bendir á að „ef Akureyri og Egilsstaðir geta ekki tekið við farþegaþotum þá þarf að vera með aukaeldsneyti og það kostar nú skildinginn, ekki síst fyrir umhverfið.“
Hann vill að búið sé betur að flugvöllum á landsbyggðinni þannig að þeir séu í stakk búnir til að bregðast við ástandi eins og hér hefur verið nefnt.
„Margir hafa yppt öxlum yfir því að verið sé að stækka flugstöðina á Akureyri, það er bara svo við getum mögulega leyft flugvélum að lenda annars staðar á landinu en í Keflavík ef þess þarf, þannig að vélar þurfi ekki að lenda í öðrum löndum.“
Þorvaldur var á léttu nótunum á Facebook-síðu ssinni þegar hann henti í eina færslu:
„Akureyri- where the rich and famous gather. Mætti halda að G7 fundur væri í Hofi. Guð forði því að ekki þurfi nú að nota AEY sem varavöll.“
P.s. Þessi góða mynd er frá Adda Tryggva, sem er stórmeistari og frábær liðsmaður Isavia.
Heimild: Facebook og mbl.is