Óskar Reykdalsson, læknir og forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðsins, segir að skólahjúkrunarfræðingar skoði nú þann möguleika að bólusetja grunnskólabörn gegn kórónaveirunni. Krakkarnir gætu mögulega fengið sprautuna þegar skólastarf hefst í haust.
„Ég hef áhyggjur ef sjúkdómurinn heldur áfram að breiðast út af sama hraða og verið hefur síðustu daga. Slíkt eykur líkur á stökkbreytingu veirunnar. Hvað varðar börnin þá gætu bólusetningar hafist til dæmis þegar starf grunnskóla hefst aftur eftir sumarleyfi, eins og skólahjúkrunarfræðingar skoða nú,“ sagði Óskar í samtali við Morgunblaðið.
Bóluefnin Pfizer og Moderna eru samþykkt af Lyfjastofnun Evrópu (EMA) fyrir börn 12 ára og eldri. Grunnskólabörn í Þýskalandi geta nú fengið sprautu og Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir hefur áður sagt að hér á landi muni bóluefni standa til boða 12 til 18 ára börnum.
Óskar er því sammála. „Ef rannsóknir staðfesta að bólusetningar gagnist börnum eigum við að fara þá leið. Yngra fólk svarar bólusetningum yfirleitt vel og veikist sjaldan af Covid – og þá yfirleitt vægt. Áherslan hefur því beinst að eldri og viðkvæmari hópum. Og sprauturnar virka, rannsóknir í Bandaríkjunum sýna að þeir sem látast af völdum veirunnar eru í 99,99% tilvika óbólusettir,“ segir Óskar.