Geir Waage, fyrrverandi sóknarprestur í Reykholti, er harðorður og rökfastur í grein sem hann ritar í Morgunblaðið í dag. Þar fjallar hann um það hvernig ríki fer með eldra fólk og skilur það eftir í fátæktargildru.
„Til eru bjargálna gamalmenni, nokkrir auðmenn, en þó flestir fátækir þegar lokið er viðskiptum ríkisvaldsins af afkomu þeirra,“ skrifar Geir. Hann ber saman lægstu laun í landinu og kjör öryrkja við eftirlaun hinna eldri og sýnir fram á mikinn mun.
„Það er braskað með þessa peninga“
Þá rökstyður Geir það að í raun sé lífeyrir flestra kominn til af fjármagnstekjum en ekki úr sameiginlegum sjóðum eins og ráðamenn haldi á lofti og þykist vera að hlúa að hinum eldri. Ofan á þetta sé atvinnurekendum falið að stjórna lífeyrissjóðum fólksins og beiti þeim í þágu fyrirtækjanna.
„Það er braskað með þessa peninga,“ skrifar Geir.
Hann bendir á að með skattlagningu tekna hinna öldruðu takist að féflétta yfir 30 þúsund gamalmenni. „Afrek stjórnmálamannanna er í því fólgið að þeir láta gamalmennin leggja 45 milljarða króna í ríkissjóð á ári og hrósa sjer af því, hversu vel sje við þau gjört fyrir sinn atbeina. Þeir hafa sýnt að ríkinu er ekki ómáttugt að græða á fátækt,“ skrifar Geir.
Hann er harðorður í lok greinarinnar.
„Til þess að vera sáttur við þetta þurfa spökustu öldungar að temja sjer flokksheimsku ofan á vitleysi“.
Viðbúið er að einhverjir mundu þiggja að fá Geir í framboð til að berjast fyrir kjörum hinna eldri og lúskra á þeim sem braska með almannafé.