Maður var viti sínu fjær á veitingastað í austurborg Reykjavíkur. Hann veittist að fólki, stal og skemmdi. Lögregla brá skjótt við og svipti manninn frelsi og læsti inni í fangaklefa. Hann fær þær fregnir þegar hann vaknar að vera grunaður um líkamsárás, eignaspjöll og þjófnað.
Ökumaður nokkur er grunaður um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna og ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum. Þá var barnungur og réttindalaus ökumaður tekinn á 115 kílómetra hraða þar sem aka má á 80 km á klukkustund. Faðir hins réttindalausa var kallaður til og Baramnvernd sett í málið.
Nokkur fleiri tilvik um lögbrot við akstur komu upp í nótt sem að öðru leyti var friðsæl hjá lögreglu.