Móeiður Svala Magnúsdóttir segist klæða sig mest í dragtir, samfestinga og hælaskó en að hennar áliti eiga allar stelpur að eiga glæsilega kjóla sem lætur þeim líða eins og prinsessum.
Þegar talið berst að tísku segist Móeiður Svala heillast af glamúr og glitri. „Mér finnst ekki leiðinlegt að versla, svo það má segja að ég sé svolítið með puttann á púlsinum þegar að þessu kemur. Ég elska nýja og spennandi strauma. Mér finnst mjög mikilvægt að maður klæðist því sem maður vill, óháð því hvað öðrum finnst. Sjálf er ég mikið í drögtum, samfestingum, pelsum, kápum og hælum. En líka hettupeysu og strigaskóm, það kemur fyrir. Ég versla mest í Zara hér heima en þegar ég er stödd erlendis heimsæki ég alltaf verslanir Guess, Ted Baker, og Massimo Dutti. Nethringurinn inniheldur svo síðurnar, na-kd.com, prettylittlething.com, fashionnova.com og missgcouture.com.“
„Mér finnst mjög mikilvægt að maður klæðist því sem maður vill, óháð því hvað öðrum finnst.“
Aðspurð hvaða konur veiti mestan innblástur nefnir Móeiður Svala þær Victoriu Beckham og Gigi Hadid. „Þær eru alltaf flottar sama í hverju þær eru en svo eru þær líka svo flottar fyrirmyndir.
Að mínu mati eiga allar konur að eiga minnst einn glæsilegan kjól sem lætur þeim líða eins og prinsessu í. Fjólublái kjóllinn sem ég keppti í í Miss Universe Iceland er einmitt þannig kjóll og sú flík sem hefur mesta tilfinningalega gildið í mínum fataskáp, en svo er auðvitað skylda fyrir alla að eiga góðan blazer og þægilega hælaskó.“
Myndir / Hákon Davíð Björnsson