Samsung kynnir líklega til leiks nýja kynslóð af flaggskipi tæknirisans þegar kemur að samanbrjótanlegum símum, Galaxy Z Fold 3, á kynningarviðburði á morgun. Eins er búist við að samlokusíminn Galaxy Z Flip 3 og nýjasta snjallúrið frá tæknirisanum, Galaxy Watch 4, verði afhjúpað við sama tækifæri.
Fylgjast má með viðburðinum hér: Reserve The Next Galaxy Smartphone | Samsung US
Gera má ráð fyrir að síminn muni vera á svipuðu verðbili og Z Fold 2, eða vel yfir 300 þúsund krónur, og hann verði jafnvel í boði erlendis eins snemma og fyrir lok ágúst.
Enn sem komið er eru upplýsingar um útlit og eiginleika símans vangaveltur en þó hefur nokkru efni verið lekið og dreift.
Búist er við að nýja útgáfan verði með skjá með lóðréttu broti eins og bók, eins og fyrri gerðirnar, en lárétt brot einkenni nýja Z Flip 3 símann. Búast má við að stærð tækisins verði annarsvegar 158,2 * 67,1 * 6,4 millimetrar ósamanbrotinn, 158.2 * 128.1 * 14.4 millimetrar samanbrotinn og vegi alls 271 gramm.
Margir gagnalekar gefa til kynna að innri skjárinn verði 7,56 tommur með 2208 * 1768 díla upplausn en sá ytri verði 6,23 tommur mep 2268 * 832 díla upplausn.
Buíst er við að gat verði í skjánum fyrir myndavél á ytri skjánum en sögusagnir herma að myndavélin á stærri skjánum verði falin undir skjánum sjálfum. Aðal myndavélin verður svo 16 MP, þriggja linsu kerfi.
Líklega munum við sjá tækið búið Qualcomm Snapdragon 888 örgjörva, 12 gígabæta innra minni, 4400 mAh rafhlöðu og geti tengst 5G. Ætla má að hægt verði að velja um 256 eða 512 gígabæta geymslupláss en ekki er búist við að síminn styðji minniskort. Búist er við að tækið verði ryk- og rakavarið (IPX8), skjárinn verði tvöfalt þykkari og því sterkari en á Z Fold 2 og einkaleyfi sem fengin voru í tengslum við hönnun símans gefur vísbendingu um að umgjörð símans verði styrkt.
Samsung hefur gefið út að hægt verði að nota S Pen með símanum sem þýðir að notendur geta notað stylus í stað fingurs til að framkvæma aðgerðir, skrifa eða teikna beint á skjáinn og jafnvel er haldið að það verði geymslurauf fyrir pennann, ólíkt eldri týpum.
Myndir sem lekið var gefa til kynna að síminn verði í boði í fjórum litum; svörtum, kremlit, grænum og silfur og hugsanlega má sjá upplýstan “kjöl” á hjörunum þar sem símin er brotinn samann.
Vissulega eru þessir samanbrjótanlegu skjáir og tæknin sem umlykur þá spennandi en, eins og með allt sem er nýtt, er margt sem má betur fara eins og geymslupláss, bætt aðgengi fyrir einnar handar notkun, betri myndavélar, þróun hugbúnaðar sem stýrir skjáunum og samvirkni þeirra og betri rahlöðuending.
Og verðmiðinn er ekki fyrir hvern sem er.