Fimmtudagur 16. janúar, 2025
1.8 C
Reykjavik

Þórður myrti tvívegis á 10 árum: „Ég er kominn með djöfulli ljótan stimpil á mig“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Þórður Jóhann Eyþórsson varð tveggja manna bani á aðeins 10 árum. Síðara morðið fór fram þegar hann var enn á skilorði vegna fyrra morðsins.

Hæstiréttur Íslands dæmdi Þórð í þyngstu refsingu sem rétturinn hefur dæmt á síðustu öld, 20 ára fangelsi. Dómurinn var annar manndrápsdómurinn sem Þórður hefur fengið sem var sagður hafa verið í afar slæmum félagsskap þegar hann var ungur. Um það bil tólf ára gömlum hafði lögreglan fyrst afskipti af honum vegna minniháttar afbrota. Eftir skyldunám hélt Þórður út á vinnumarkaðinn. Hann stundaði meðal annars verkamannavinnu, fór á sjóinn og starfaði hjá Rafmagnsveitu ríkisins.

Þegar mál Þórðar Jóhanns var tekið fyrir í Hæstarétti á sínum tíma, áttu lögfróðir menn allt eins von á að þá yrði brotið í blað í sögu réttarins og gripið til ákvæðisins um ævilangt fangelsi í fyrsta sinn í nútíma réttarsögu, en það fór sem sagt á annan veg. Mál Þórðar telst þó einstakt því upphaflega var hann í héraðsdómi dæmdur í ævilangt fangelsi. Dómnum var áfrýjað og var afstaða dómara í Hæstarétti klofin. Niðurstaðan varð tuttugu ár.

Dæmdur fyrir tvö morð

Þórður myrti Óskar Árna Blom­ster­berg á ný­ársnótt 1983 með því að stinga hann en Þórður hafði lengi eldað grátt silf­ur við fórnarlambið sem lauk með upp­gjöri hina örlagaríku nótt. Þórður var mjög drukk­inn þetta kvöld og bar hann fyr­ir sig að hann hafi ekki gert sér grein fyr­ir því hvernig hníf­ur­inn sneri í hendi hans þegar hann lagði til at­lögu gegn Óskari.

Aðfaranótt 1. janúar árið 1983 þegar Þórður var 26 ára hélt hann til samkvæmis að Kleppsvegi 42. Þar hitti hann fyrir Óskar Árna Blomsterberg. Þeir Þórður höfðu lengi eldað saman grátt silfur, eða frá því að þeir voru 16 ára og slógust vegna stelpu fyrir utan Þórscafé. Þegar Þórður hafði Óskar undir komu þrír vinir Óskars honum til hjálpar og börðu á Þórði. Honum fannst hann aldrei hafa orðið fyrir eins mikilli auðmýkingu.

- Auglýsing -

Þórður hafði drukkið talsvert þegar til veislunnar kom og hófst fljótlega mikið rifrildi á milli hans og Óskars. Þórður brá sér inn í eldhús þar sem hann sótti eldhúshníf. Síðan hélt rimma þeirra Óskars áfram. Óskar fékk fjórar stungur í bakið og gengu þrjár á hol. Hann var látinn þegar lögregla kom á staðinn. Þórður fékk 13 ára dóm og sat hann inni í 7 ár. Hann notaði tímann meðan hann sat inni til náms og útskrifaðist sem vélvirki og rennismiður.

Seinna morðið á reynslulausn

Tíu árum síðar stakk Þórður svo fyrr­ver­andi sam­býl­is­mann þáver­andi kær­ustu sinn­ar. Um­rætt kvöld hafði Þórður einnig drukkið mikið og tekið inn am­feta­mín þegar hann frétti af því að kær­asta hans hefði reynt að finna hann á skemmti­stað í Reykja­vík áður en hún hélt heim með fyrr­ver­andi sam­býl­is­manni sín­um.

- Auglýsing -

1. desember 1992 hafði Þórður tekið upp samband við unga konu. Helgina 21. til 22. ágúst hafði Þórður drukkið stíft og sömuleiðis tekið inn amfetamín. Að kvöldi sunnudagsins 22. ágúst var hann staddur á veitingahúsinu Keisaranum á Laugavegi þar sem hann frétti að stúlkan sem hann hafði búið með hafi verið að leita að honum en nú væri hún heima hjá Ragnari Ólafssyni, fyrrverandi sambýlismanni. Ásamt þeim vini sínum sem hann bjó með, ók Þórður á Snorrabraut 36 þar sem Ragnar bjó. Þórður sá stúlkuna ásamt Ragnari inn um glugga á íbúðinni og fauk þá í hann. Þórður tók upp hníf sem hann var með á sér og sparkaði upp hurðinni og fór beint inn í eldhús. Ragnar kom á móti honum og fór hnífurinn einu sinni í hann.

Þórður var á reynslulausn frá afplánun dóms vegna manndráps þegar hann framdi annað morðið á Ragnari, og taldist því hafa rofið skilorð, og því bættust fjögur ár ofan á sextán ára dóm fyrir morðið sjálft. Þórður var dæmdur í 20 ára fangelsi af héraðsdómi fyrir ítrekað manndráp og hæstiréttur staðfesti þann dóm árið 1994.

„Þetta var bara eitthvert ljúgvitni“

Eftir að hafa afplánað dóm sinn komst Þórður aftur til kasta laganna er hann var handtekinn árið 2016 í tengsl­um við rann­sókn á Guðmund­ar­mál­inu, einu þekkt­asta og um­deild­asta saka­máli Íslands­sög­unn­ar. Þá var hann á sex­tugs­aldri og en hann var 16 ára gamall þegar Guðmund­ur Ein­ars­son hvarf hinn 29. janú­ar 1974 í Hafnar­f­irði.

„Þetta var bara eitthvert ljúgvitni,“ sagði Þórður í viðtali eftir handtökuna. „Ég var spurður hvort ég hefði verið farþegi í bjöllu árið 1974 á Hamarsbrautinni. Stefán átti að vera keyra bílinn. Hann á að hafa misst stjórn, keyrt á eitthvað skilti og svo á Guðmund. Þetta er nú bara einhver lygasaga og ef ég hefði verið höfundur hennar, þá hefði ég nú látið okkur rúnta um á flottari bíl.“

Þórður harðneitaði allri aðkomu að málinu hjá lögreglu og var sleppt að loknum yfirheyrslum.

Náði tökum á lífi sínu

Eins og áður sagði hlaut Þórður þyngstu refsingu, sem nokkur Íslendingur hefur hlotið á þessari öld, eftir að hafa stytt tvo menn lífi og þann síðari þegar hann var á skilorði.

Þórður segist sjálfur hafa náð tökum á sínu lífi árið 2006. Hann sé reglumaður í dag og í vinnu.

„Ég er kominn með djöfulli ljótan stimpil á mig. RLR segir til dæmis að ég sé fíkill og dópisti. En meirihlutinn af því sem um mig hefur verið sagt er tilbúningur. Ég hef ekki gert neinum neitt nema það sem ég hef setið inni fyrir,“ segir Þórður sem venjulega er kallaður Doddi.

„Með ofnæmi fyrir vímuefnum“

Bubbi Morthens er einn æskuvina Þórðar. Í samtali við Eintak árið 1994 sagði Bubbi vin sinn einfaldlega ógæfumann sem aldrei hefði átt að smakka vín eða fara að fikta við vímuefni. „Alveg frá byrjun varð hann kolvitlaus með víni. Hins vegar er hann þvílíkur öðlingur edrú að það er leitun að öðrum eins. Meirihluti þeirra sem er í fangelsum hafa lent þar vegna þess að þeir hafa ofnæmi fyrir vímuefhum. Það sem þeir hafa gert hefðu þeir ekki gert edrú. Það sem hann hefur nú lent í er bein afleiðing þess að hann er með ofnæmi fyrir vímuefnum,“ segir Bubbi.

Þórður var dæmdur í 20 ára fangelsi í Hæstarétti. Sjálfur fullyrti hann að rannsókn málsins hefði verið ábótavant. „Saksóknari stimplaði mig dópista og fíkil aðeins vegna þess að ég hafði tekið inn amfetamín þessa einu helgi. Rannsóknin var út í hött. Yfirleitt er aðdragandi glæpa kannaður. Þar af leiðandi hefði að sjálfsögðu átt að tala við fólkið sem ég var að skemmta mér með umrædda helgi,“ sagði Þórður hneykslaður í viðtali.

„Það er ekki fræðilegur möguleiki; ég hefði framið þessa glæpi edrú. Ég hef aldrei kennt neinum öðrum um örlög mín. Ég er þó ánægðari með að hafa fengið 20 ára fangelsi heldur en ævilangt. Tilfinningin að hafa banað tveimur mönnum er auðvitað ólýsanleg. Það er ekkert sem getur bætt fyrir það, hvorki fangavist né annað.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -