Menningarblaðamaðurinn Ásgeir H Ingólfsson tjáir sig á samfélagsmiðli um kvikmyndina Leynilögga, sem var „frumsýnd á Locarno í gær. Það er ekki ennþá kominn einn einasti dómur sem ég finn – en samt er fyrirsögn Vísis um hvað erlendir blaðamenn séu svakalega hrifnir af myndinni,“ segir Ásgeir og vísar í frétt sem ber yfirskriftina:
„Leynilögga fær lof erlendra blaðamanna“ og er skrifuð af Ásu Ninnu Pétursdóttur, og í greininni má meðal annars finna þetta:
„Það er búið að vera mjög mikil dagskrá í dag í kringum myndina og Hannes leikstjóri er búinn að vera mjög upptekinn í viðtölum við blaðamenn,“ segir Lilja Ósk Snorradóttir í samtali við Vísi.
Það er óhætt að segja að mikil spenna ríki í hóp aðstandenda íslensku kvikmyndarinnar Leynilögga en myndin verður frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Sviss síðar í dag.
Lilja Ósk, framleiðandi myndarinnar, segir að sér sýning hafi verið fyrir blaðamenn í morgun og viðbrögðin hafi verið mjög góð. Einn blaðamannanna hélt heila ræðu um hversu vel hafi tekist til að gera hasar grínmynd að svona ljúfsárri mynd á sama tíma. Hann segir óvenjulegt að sjá svona mynd og hrósaði hann sérstaklega sterkum kvenkarakterum í myndinni.“
Þetta þykir Ásgeiri vera undarleg og hreinlega óeðlileg skrif um áðurnefnda mynd og segir:
„Heimildin? Jú, framleiðandi myndarinnar, sem vísar í einn, ónefndan erlendan blaðamann, sem hældi myndinni við hana.“
Ásgeiri er ekki skemmt:
„Í alvöru? Fyrirsögnin er ekki bara misvísandi, hún er röng, blaðamennirnir eru ekki í fleirtölu og þessi eini er nafnlaus endursögn framleiðandans. Látum vera að búa til smá „stemmara“ þegar íslenskar myndir eru á hátíðum, en þetta er pjúra PR, ekki blaðamennska.“