Föstudagur 27. desember, 2024
0.8 C
Reykjavik

Gunnþór pönksafnvörður gefur sparnaðarráð: „Lánin á Íslandi fara alltaf öll til fjandans“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Neytandi vikunnar er enginn annar en bassaleikarinn og pönksafnvörðurinn Gunnþór Sigurðsson. Gunnþór stofnaði hljómsveitina Q4U í byrjun 9. áratugarins og hefur verið bassaleikari sveitarinnar síðan. Í dag er hann líka bassaleikari hljómsveitarinnar Hauswerk þar sem Daniel Pollock, fyrrum Utangarðsmaður, spilar á gítar og Örvar Árdal leikur á trommur. Hann starfaði í fjölmörg ár hjá Ríkissjónvarpinu en tekur í dag á móti gestum frá öllum heimshornum á Pönksafninu í Bankastræti núll og birtir frábærar myndir af gestum þess á Facebook síðu Pönksafnsins The Icelandic PUNK Museum | Facebook

 

Hve miklu eyðir fjölskyldan í mat og aðrar rekstrarvörur heimilisins á mánuði og hvar verslar hún helst?

Ég versla helst í Extra en það er bara af því að það er nálægt mér. Ég er ekki með stíft bókhald yfir eyðsluna í matinn því ég nenni yfirleitt ekki að elda fyrir einn. Ég hef gripið í eitthvað fljótlegt en ég hef eitthvað skánað aðeins með aldrinum með ruslfæðið. Svo leyfi ég mér kjötsúpu á Hressó.

Hvað með sparnað í matarinnkaupum og hverju vilt þú breyta sem neytandi?

Ég vil sjá meira af lífrænu plastpokunum. Þessi bréfpokamenning er algert sorp og alltaf að rifna.

- Auglýsing -

Telur þú álagningu verslana sanngjarna og gerir þú verðsamanburð á vörum og þjónustu?

Labbaðu einn hring í 10-11! Þar kostar allt nánast því fimmþúsundkall sem er náttúrulega galið. Ég rýni ekkert í verðmiðana og gríp það sem mig vantar en ef ég sé eitthvað fokdýrt þá lætur maður það eiga sig. 

Leggur þú fyrir, og hvaða leiðir notar þú ef svo er?

- Auglýsing -

Nei. Covid er búið að vera að takmarka vinnuna mína þannig að ég get ekki leyft mér að spara í bili.

Verðtryggð lán, óverðtryggð lán eða engin lán?

Lánin á Íslandi fara alltaf öll til fjandans. Ég tek ekki lán; ef ég á ekki fyrir því á ég ekki fyrir því. Maður tók þátt í lánabrjálæðinu fyrir hrun, tók bílalán og brenndi sig á því þannig að maður er ekkert að flýta sér að hoppa á lánavagninn aftur.

Hvaða mál og málaflokka telur þú að þurfi að leggja meiri áherslu á?

Mér finnst lágmark að fólk geti lifað af lágmarkslaunum en auðvitað eiga lágmarkslaun að vera mannsæmandi.

Umhverfisvernd, skiptir hún þig máli?

Já, svo framarlega að hún fari ekki út í vitleysu. Það eru öfgahópar á sínum hvorum kantinum og svo hópur af fólki í miðjunni sem móðgast yfir öllu. Umhverfisvernd sem meikar sens er náttúrulega trygging fyrir framtíðina.

Mín kynslóð ólst upp við að það væri ósköp eðlilegt að allir væru á bíl með engum bílbeltum, sígarettur voru reyktar á sjúkrahúsum og allir að anda að sér málningu og asbesti. Það er kannski ekki hollt en fólk gat að minnsta kosti talað saman sem er skömminni skárra en þetta garg um öll mál.

Svo er það kannski frekar heilsutengt þetta með Covid sprauturnar. En mér fundust ýmsar af þessum samsæriskenningum áhugaverðar en ég fór samt í sprautu því ég þarf að hugsa um afaguttana mína og svo vinn ég á stað þar sem margir ferðamenn koma. Ég get ekki bara hugsað um sjálfan mig.

Hann hefur týnst þessi gullni meðalvegur en það er annaðhvort allt í botni eða allt í fári. 

Annað sem þú vilt taka fram?

Fólk mætti tala meira saman, augnliti til augnlitis. Ég hef fylgst með þessu mannlega fara dvínandi undanfarin tuttugu til þrjátíu árin og við erum öll orðin einhvernveginn fjarræn.

Munnsöfnuðurinn á fólki á netinu er alger viðbjóður, það er svo miklu auðveldara að rífa kjaft við tölvuskjá og við erum svolítið mikið í því.

Rafræn samskipti eru allt of ráðandi og fyrir vikið erum við orðin meira einmanna. Ég hef jafnvel heyrt af fólki í kringum mig sem fannst Covid ekki hafa nein áhrif á sig því það hitti hvorteðer aldrei neinn og forðaðist bara fólk.

Ég fór á kaffihús um daginn og sá þar uppáklætt fólk sem greinilega var komið til að fagna einhverju en allir bara starandi á símana sína, stemmning eða hitt þó heldur.

Það er voðalega þægilegt að stunda viðskipti með símanum bara, en ef maður þarf að hringja er maður númer þrjátíu í röðinni eftir bið síðan á þar-síðustu öld.

Hér áður þótti flott að vera með SCART tengi á videotækinu sínu en núna þarf fólk að vera með síma sem geta tekið myndir af fólki á tunglinu og aldrei hefur verið hlustað á jafn mikið af góðri tónlist í jafn lélegum gæðum.

Ég sá þátt um daginn þar sem var fjallað um að í Japan er hægt að leigja sér fjölskyldu og fara á kaffihús þar sem allir segja þér að þú sért frábær. Þeir fíla þetta í botn því þarna geta þeir upplifað eitthvað mannlegt. 

Við eigum eftir að enda þarna. Við erum öll orðin eitthvað app.

Við erum hætt að sjá þetta fallega í þessu smáa sem er allt í kringum okkur.

Ég vona bara að við munum öll pinnið þegar vð förum til himna.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -